Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er meðferðarform sem hefur verið að ryðja sér til rúms upp á síðkastið. Þau Erla Ólafsdóttir og Birgir Hilmarsson reka Upledger-stofnunina á Íslandi að Hlíðarási 5, Mosfellsbæ. En hvað er Upledger-stofnunin?
"Það er skóli í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og það er doktor Upledger, sem er læknir í Ameríku, sem hefur þróað þetta meðferðarform og hann stofnaði Upledger-stofnunina sem hefur höfuðstöðvar sínar í Flórída í Bandaríkjunum, svo starfa sjálfstæðar deildir í ýmsum löndum, þar á meðal á Íslandi," segir Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari.
En hvers konar mein batna við höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð?
"Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð byggist á því að meðferðaraðili greini hvar eru stíflur, bólgur, samgróningar eða spenna í himnu- og bandvefskerfi líkamans og losa síðan um það. Í raun eiga öll vandamál og sjúkdómar undirliggjandi orsakir. Meðferðin byggist á því að finna orsökina og losa um hana. En við erum ekki að "hengja" okkur í nafnið á sjúkdómnum - heldur hlustum við á líkamann og vinnum með það sem hann segir okkur."
Hvernig fer líkaminn að því að tala við ykkur?
"Við notum hendurnar með mjög léttri snertingu til að "hlusta" inn í líkamann, við finnum spennumynstur, tog í hindrunum í himnukerfinu, einnig lærum við að finna orkuflæðið í líkamanum og þá hvar stíflurnar eru."
Hvar lærðir þú þetta?
"Ég er menntaður sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands en lærði þessi höfuðbeina- og spjaldhryggjarfræði hjá Upledger-stofnunum í Bandaríkjunum og á Englandi."
Eru þetta viðurkennd fræði?
"Þetta flokkast undir óhefðbundnar aðferðir hér á landi og annars staðar en það er þó munur á milli landa, sums staðar mega aðeins starfsmenn hefðbundinna heilbrigðisstétta læra þetta en algengara er að námið sé opið fyrir fleira fólk, þannig er það hér á Íslandi. Ákveðinnar grunnmenntunar, sambærilegrar við nuddmenntun, er krafist."
Komið geta fram tilfinningaviðbrögð
Hvernig fer meðferðin fram?"Viðkomandi manneskja leggst á bekkinn og meðferðaraðilinn notar ákveðnar aðferðir til að greina hvar hann finnur orsakir vanlíðunar sem oft er ekki á sama stað og einkennin koma fram. Síðan notar meðferðaraðili létta snertingu til að losa um spennu og gjarnan er losað um beinsauma í höfuðkúpunni og liði sem eru orðnir stífir. Þegar losað er um orkuflæði geta komið fram tilfinningaviðbrögð hjá þeim sem á bekknum liggur. Fyrir kemur að fólk tárist, láti í ljós reiði eða aðrar tilfinningar, þá er notuð samtalstækni sem kennd er í umræddu námi til að styðja við og vinna með það sem upp kemur í samtalinu."
Hvers konar mein lagast helst við þess meðferð?
"Nefna má vefjagigt, síþreytu, mígreni og ofvirkni og athyglisbrest. Rannsóknir hafa sýnt að börn með þann vanda fá oft ekki nægilegt orkuflæði upp í höfuðið, þannig að þeim er gefið rítalín sem örvar. En höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð losar um þessar stíflur til langframa þannig að orkuflæðið verður meira og líðanin því betri. Við fáum líka til okkar fólk sem þjáist af þunglyndi og alls kyns verkjavandamálum. Skekkja í hrygg eða mjaðmagrind getur t.d. orsakað mislanga fætur og algengt er að fólk fái verki vegna þessa og komi í kjölfar þess til meðferðar. Einnig fáum við til okkar ungbörn með svefnvandamál og óskilgreinda vanlíðan - ekki er óalgengt að orsök gráts ungbarns sé langvarandi höfuðverkur eftir fæðinguna, þetta er oft greint sem magakveisa.
Krabbameinssjúklingar hafa komið til okkar líka. Ef þeir eru í hefðbundinni krabbameinsmeðferð má stundum minnka þá vanlíðan sem henni fylgir og í þeim tilvikum sem um er að ræða ört vaxandi æxli getum við minnkað verki með því að slaka á himnukerfinu og vefjum í kringum í æxlið. Einnig er hægt að fara í dýpri vinnu með þá sem tilbúnir eru til þess, til að reyna að finna orsakir fyrir krabbameininu."
Fleira hægt að gera en nota lyf og fara í skurðaðgerðir
Hvers vegna fórst þú út í þetta starf?"Fyrst og fremst af því að mér finnst ég ná mjög góðum árangri með þessu meðferðarformi hjá mínum skjólstæðingum og svo langar mig til að koma þessari hugsun inn í vitund þjóðarinnar, að það er hægt að gera fleira en taka lyf og fara í skurðaðgerðir til þess að líða betur. Þetta er lítið inngrip í líkamann en hjálpar oft mikið. Gott er að hefðbundnar lækningar og þetta meðferðarform geti unnið meira saman.
Þess má geta að við vinnum einnig með fólk í vatni og bjóðum reglulega upp á meðferð í Bláa lóninu og í Sundlaug Skálatúns í Mosfellsbæ.
Við Birgir höldum reglulega kynningarnámskeið sem er opið öllum - almenningi sem fagfólki - þar sem fólk kynnist þessum fræðum og lærir verkleg handtök til að nota á sitt fólk. Þetta er heilsdagsnámskeið og kostar með námsgögnum og mat 12 þúsund krónur, við verðum með nokkur slík í janúar, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Við höldum kynningarnámskeiðin sjálf en fáum auk þess kennara erlendis frá til að kenna þetta meðferðarform og einnig er ég í kennaranámi um þessar mundir. Vefsíðan okkar er www.upledger.is, þar má finna upplýsingar um meðferðarformið og námið hér og erlendis."
gudrung@mbl.is