VIÐSKIPTAVINIR Og Vodafone eiga þess ekki kost þegar þeir hringja í þjónustunúmerið 1811, þar sem upplýsingar um erlend símanúmer eru veitt, að láta starfsmann Já hringja beint í erlenda símanúmerið. Lilja Hallbjörnsdóttir, svæðisstjóri Já í Reykjavík, segir að þetta sé vegna þess að Síminn og Og Vodafone hafi ekki gert með sér samning vegna gjaldfærslu fyrir þessa þjónustu. Því sé nauðsynlegt að fólk hafi aðgang að símanúmeri sem skráð er hjá Símanum vilji það notfæra sér hana.
Lilja segir að það sé ekki stór hópur viðskiptavina sem óski eftir því að starfsmaður Já hringi í erlend símanúmer sem fólk þarf að ná í, en sumum finnist þó þægilegt að eiga kost á þessari þjónustu. Hún segir að fólk geti hins vegar hringt í 1811 og fengið upplýsingar um símanúmer erlendis, óháð því hvort það skiptir við Símann eða Og Vodafone.