Tiger Woods slær kúlu sína upp úr glompu Thousand Oaks-vellinum í Kaliforníu.
Tiger Woods slær kúlu sína upp úr glompu Thousand Oaks-vellinum í Kaliforníu. — Reuters
TIGER Woods, efsti maður heimslistans í golfi, segir við Golf Digest- tímaritið að æðstu samtök kylfinga á heimsvísu ættu að banna ýmsan útbúnað sem nú sé leyfilegur.

TIGER Woods, efsti maður heimslistans í golfi, segir við Golf Digest- tímaritið að æðstu samtök kylfinga á heimsvísu ættu að banna ýmsan útbúnað sem nú sé leyfilegur. Hinn þrítugi kylfingur telur að framfarir í gerð útbúnaðar og golfbolta hafi gert það að verkum að kylfingar þurfi ekki eins mikla kunnáttu og getu og áður til þess að komast í fremstu röð. Hann leggur til að golfboltar verði framleiddir til þess að kylfingar geti stjórnað flugi þeirra betur en áður og einnig er Woods til í að banna 60 og 64 gráðu fleygjárn.

Að mínu mati skiptir það mestu máli að þeir kylfingar sem geta stjórnað flugi boltans og leyst úr ýmsum vandamálum sem upp koma á vellinum séu þeir sem standi best að vígi. Að mínu mati hefur bilið minnkað á milli þeirra sem búa yfir bestu tækninni og hafa mestu hæfileikana. Tækniþróun í framleiðslu á golfútbúnaði og golfboltum hefur minnkað bilið á milli þeirra sem skarað hafa framúr og þeirra sem eru þar næstir í röðinni. En ég lít á það sem mikla áskorun að standast þessa samkeppni," segir Woods við Golf Digest .

"Það sem ég óska eftir er að golfboltar verði framleiddir með þeim hætti að þeir myndi meiri bakspuna en þeir gera í dag. Það yrði til þess að léleg högg fara meira af leið en áður, en góð högg verða enn betri og halda sínu striki. Þeir kylfingar sem geta stjórnað flugi og ferli boltans eiga að mínu mati að standa betur að vígi en keppinautar þeirra. Í vondu veðri og á hörðum völlum kemur þessi munur best í ljós, þá ná þeir bestum árangri sem geta stjórnað flugi boltans en að öllu jöfnu eru slíkar aðstæður ekki alltaf til staðar," segir Woods og bætir því við að líklega ætti að banna 60 gráðu og 64 gráðu fleygjárnin.

56 gráður eiga að duga

"Ef það yrði bannað að nota 60 og 64 gráðu fleygjárnin þyrftu kylfingar að hafa betri tilfinningu fyrir stuttu höggunum. Í dag eru kylfingar alltaf að miða við full högg með slíkum kylfum, þeir slá einfaldlega aldrei hálf högg og þurfa því ekki læra að meta fjarlægðir eins og áður. Ég styð það að 56 gráðu sandjárn verði aðeins leyfð en ekki 60 og 64 gráðu fleygjárn. Það myndi verða til þess að gera íþróttina erfðari, það væri ekki eins einfalt að láta boltann stöðvast alveg upp við holu."

Bandaríkjamaðurinn er einnig á þeirri skoðun að séreinkenni kylfinga séu alltaf að minnka.

"Ég hef alltaf reynt að slá boltann með sveig til vinstri eða með sveig til hægri, en það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum. Golf er íþrótt þar sem að höggin eru sjaldan fullkomin og ég geri alltaf ráð fyrir að boltinn lendi ekki alltaf á þeim stað sem ég ætla honum að lenda. En það er erfiðara í dag að fá sveig á boltann eins og áður þar sem boltarnir haga sér öðruvísi en áður. Ég lék með Lee Trevino á einu móti þegar ég var að byrja sem atvinnumaður og það var ótrúlegt að sjá hvernig hann gat látið boltann fljúga, hátt, lágt, til hægri og vinstri. Ég trúði vart mínum eigin augum og dáðist að hæfileikum hans.

Í dag eru fáir slíkir kylfingar til á mótaröðinni og þeim á eftir að fara fækkandi. Trevino gat gert hluti sem margir aðrir gerðu einnig á undan honum og ég held að golfíþróttin sé skemmtilegust þegar kylfingar geta gert slíka hluti."

Woods sat eftir

Woods viðurkennir að hafa ekki fylgt þeirri tækniþróun sem átti sér stað í framleiðslu á dræverum en í dag hafi hann skipt um skoðun. Woods þótti vera högglengsti kylfingur PGA-mótaraðarinnar er hann kom fram á sjónarsviðið árið 1996 en á allra síðustu árum slógu margir kylfingar upphafshögg sín mun lengra en Woods.

"Ég sat einfaldlega eftir þar sem ég vildi ekki nota nýjustu gerð af dræverum og ég sá hvar ég stóð þegar ég var að leika gegn kylfingum sem voru áður með mun styttri upphafshögg miðað við mig, og þeir voru farnir að slá allt að 20 metrum lengra en ég," segir Woods en hann hefur verið gagnrýndur fyrir að nota dræverinn of mikið í upphafshöggunum en hann telur það ekki vera vandamál. "Ég lendi oft utan brautar, en ég tel það vera kost að vera nálægt flötinni utan brautar en á braut mun aftar. Ég er oftar í öðru höggi inn á flöt á par 5-holunum og rétt utan við flöt og jafnvel inná flöt á par 4-holunum. Ég er með meira sjálfstraust í upphafshöggunum en áður og nota því dræverinn sem oftast - en auðvitað verða slæmu höggin alltaf slæm. Og það þýðir ekkert að kvarta yfir legu boltans ef maður hefur slegið slæmt högg, það er afleiðing af mistökum sem ég geri. En ég get aldrei sætt mig við slík upphafshögg og reyni því alltaf að koma í veg fyrir þau," segir Tiger Woods.