DECODE Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, er meðal þeirra fyrirtækja í heiminum sem eru einna álitlegustu fjárfestingarkostirnir innan heilsugeirans, þegar til framtíðar er litið.

DECODE Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, er meðal þeirra fyrirtækja í heiminum sem eru einna álitlegustu fjárfestingarkostirnir innan heilsugeirans, þegar til framtíðar er litið.

Þetta er mat sérfræðinga sem breska blaðið International Herald Tribune leitaði til í þeim tilgangi að velja álitlegustu fjárfestingarkostina í þremur greinum, heilsu, orku og í nanótækni.

Í umfjöllun blaðsins um heilsugeirann segir að þróun í líftækni eigi einna mesta möguleika á því að leiða til betra lífs fyrir flesta. Kortlagning erfðamengis mannsins hafi nú þegar opnað möguleikana á nýjum lyfjum við ýmsum erfiðum sjúkdómum. Fyrirtæki á líftæknisviði séu því vænlegir fjárfestingarkostir.

Meðal þeirra fyrirtækja sem sérfræðingar International Herald Tribune nefna sem vænlega fjárfestingarkosti í líftæknigeiranum auk deCODE eru Roche, sem mikið hefur starfað með deCODE, og Affymetrix. Þá eru einnig nokkur indversk fyrirtæki nefnd, en þekktust þeirra eru sögð vera Ranbaxy og Dr. Reddy's.

Hættan á orkuskorti í heiminum sem og sífellt aukin losun gróðurhúsalofttegunda gerir fjárfestingar í endurnýjanlegri orku áhugaverðar að mati sérfræðinga International Herald Tribune , sérstaklega í fyrirtækjum sem beisla sólar- og vindorku. Endurnýjanlegar orkulindir eru þær sem náttúran getur endurnýjað jafnóðum eða hraðar en þær eru nýttar. Segja sérfræðingarnir að straumhvörf séu að verða í þessum efnum í heiminum. Þannig hafi fjárfestingar í sólar- og vindorku vaxið úr nánast engu fyrir um áratug og upp í næstum 20 milljarða dala árið 2005. Gera megi ráð fyrir að fjárfestingar á þessu sviði verði komnar í um 100 milljarða dollara á ári er kemur fram á árið 2015. Þá segir International Herald Tribune að ætla megi að fjárfestingartækifærin í svonefndri nanótækni séu meiri en á nokkru öðru sviði og muni aukast úr um 13 milljörðum dollara á ári nú í um þúsund milljarða á ári eftir áratug, þegar litið er til heimsins alls.