Kristján Andrésson
Kristján Andrésson
KRISTJÁN Andrésson, handknattleiksmaður hjá sænska úrvalsdeildarliðinu GUIF, glímir enn við erfið hnémeiðsli og leikur í fyrsta lagi með liðið sínu í byrjun febrúar, eftir því sem greint er frá í dagblaðinu Eskilstuna Kuriren .

KRISTJÁN Andrésson, handknattleiksmaður hjá sænska úrvalsdeildarliðinu GUIF, glímir enn við erfið hnémeiðsli og leikur í fyrsta lagi með liðið sínu í byrjun febrúar, eftir því sem greint er frá í dagblaðinu Eskilstuna Kuriren . Kristján, sem leikið hefur nokkra landsleiki með íslenska landsliðinu, síðasta á Ólympíuleikunum í Aþenu sumarið 2004, sleit krossband í hné í fyrravetur. Lék hann ekkert meira með á því keppnistímabili. Kristján byrjaði að spila á ný með GUIF á ný í haust þegar leiktíðin hófst en fann fljótlega fyrir að ekki var allt með felldu í veika hnénu. Í framhaldinu fór hann í aðgerð og vonast var til hann gæti farið að leika á ný upp úr miðjum desember. Það reyndist ekki ganga eftir og nú segja forráðamenn liðsins að þeir vænti þess að Kristján, sem er 24 ára gamall og fyrirliði GUIF, verði klár í slaginn í byrjun febrúar þegar keppni hefst á ný í sænsku úrvalsdeildinni eftir hlé vegna undankeppni heimsmeistaramóts landsliða.

"Á stundum hef ég velt því fyrir mér að leggja keppnisskóna á hilluna," segir Kristján m.a. í samtali við Eskilstuna Kuriren .