Guan Dong Qing
Guan Dong Qing
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orka, lækning, heimspeki og hugarró er yfirskrift kínversku heilsulindarinnar Heilsudrekans í Skeifunni. Þar er hægt að leggja stund á hugræna teygjuleikfimi, sem vinnur gegn mörgum algengum kvillum, eykur blóðstreymi og dregur úr vöðvabólgu.

Orka, lækning, heimspeki og hugarró er yfirskrift kínversku heilsulindarinnar Heilsudrekans í Skeifunni. Þar er hægt að leggja stund á hugræna teygjuleikfimi, sem vinnur gegn mörgum algengum kvillum, eykur blóðstreymi og dregur úr vöðvabólgu. Fleiri möguleikar eru tai chi, sem einkennist af afslöppuðum og mjúkum hreyfingum sem þjálfa í senn líkama og huga, og wushu, hefðbundin kínversk leikfimi sem á sér aldagamla sögu (kung fu). Í Heilsudrekanum er líka nýbyrjað að bjóða upp á kínverskt heilsute, sem beitt hefur verið gegn alls konar kvillum í árþúsundir, segir Guan Dong Qing, eigandi Heilsudrekans.

Tímar eru fyrir börn hjá Heilsudrekanum nokkrum sinnum í viku og á laugardögum eru fjölskyldutímar, þar sem foreldrarnir geta tekið þátt í iðkuninni með börnunum. Segir Qing að áhugi bæði foreldra og barna aukist með þessu. Einnig segir hún að hóparnir hér á landi hafi náð góðum árangri í kínverskri heilsurækt, til dæmis í tai chi, og náð að komast jafn langt á einu ári í iðkuninni og venjulega taki mörg ár í Kína. "Ég var mjög hissa hvað fólk hefur náð góðum árangri hér," segir hún.