ÍSLENSKIR bændur leyfa sauðfé sínu að flakka um sjálfala mestan part árs. Sauðfé hefur ávallt réttinn í umferðinni hérlendis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun blaðakonunnar Kim Askey um Ísland í bandaríska blaðinu News Sentinel .
ÍSLENSKIR bændur leyfa sauðfé sínu að flakka um sjálfala mestan part árs. Sauðfé hefur ávallt réttinn í umferðinni hérlendis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun blaðakonunnar Kim Askey um Ísland í bandaríska blaðinu News Sentinel . Askey dvaldi hér á landi í tvær vikur ásamt manni sínum, ljósmyndaranum Chris Askey. Í greininni lýsir Askey gönguferð þeirra um Vatnajökul, baðferð í heita lind úti í guðs grænni náttúrunni og notkun landans á heita vatninu til upphitunar á gangstéttum og heitum pottum sundstaða. Einnig lögðu þau hjónin leið sína að Mývatni þar sem þau skoðuðu Dimmuborgir og fylgdust með gerð hverabrauðs. Gerir blaðakona trú landans á álfa, tröll og drauga sérstaklega að umtalsefni og minnir á að frægir höfundar á borð við Jules Verne og J.R.R. Tolkien hafi heillast af landinu sem hafi veitt þeim innblástur í verk þeirra. Einnig segir hún frá heimsókn þeirra hjóna í Þjóðmenningarhúsið í Reykjavík þar sem þau börðu gömul handrit augum. Greinilegt er að henni fannst tíminn líða allt of fljótt í Íslandsheimsókn þeirra hjóna og tekur hún fram að þau vonist til þess að koma hingað aftur.