Eftir Karl Á. Sigurgeirsson Hvammstangi | Fulltrúaráð Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (KVH) hefur heimilað stjórn félagsins að stofna hlutafélag með Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) um kaup og rekstur sláturhúss félagsins á Hvammstanga.
Eftir Karl Á. Sigurgeirsson

Hvammstangi | Fulltrúaráð Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (KVH) hefur heimilað stjórn félagsins að stofna hlutafélag með Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) um kaup og rekstur sláturhúss félagsins á Hvammstanga. Þá hefur einnig verið samþykkt að selja flutningasvið félagsins til Vörumiðlunar ehf. á Sauðárkróki sem KS er meirihlutaeigandi að.

Mikil fundarhöld hafa verið um málefni KVH í héraðinu á liðnum vikum og hafa um 60 nýir félagar gengið í KVH. Um fimmtíu manns vinna hjá félaginu nú, og skiptist til helminga milli afurðasviðs og verslunarreksturs. Stefnt er að helmingaskiptum KVH og KS í hlutafélagi um sláturhúsið. Stjórnun þess verður á Hvammstanga og leitast verður við að halda áfram úrvinnslu afurða á staðnum. Í samningi félaganna er KVH heimilað að kaupa hlut KS í félaginu innan þriggja ára, óski stjórn KVH þess.

Rætt hefur verið um framtíð verslunarreksturs KVH og virðast nokkrar leiðir í stöðunni. Rekstur KVH hefur ekki gengið sem skyldi á liðnum árum. Á árinu var húsnæði byggingavörudeildar selt og deildin flutt í aðalverslunarhús félagsins. Þá var innlánsdeild KVH færð til Sparisjóðs Húnaþings og Stranda á árinu og þar með uppfylltar kröfur um slíka starfsemi.

KVH er með jákvætt eigið fé og vonast stjórn til að þessar aðgerðir styrki fjárhagslega stöðu þess verulega. Á máli héraðsbúa má heyra að miklar vonir eru bundnar við að KVH komi málum sínum á þann veg, að þjónustu skerðist sem minnst, innleggjendur afurða beri traust til afurðastöðvarinnar og að atvinna haldist sem mest í héraðinu.