ÆVINTÝRAMYNDIN Chronicles of Narnia situr á toppi íslenska bíólistans þessa vikuna en hátt í 5.500 bíógestir sóttu myndina föstudag og sunnudag sem þýðir að 24.196 manns hafa séð myndina í það heila á einni viku.
Kvikmynd Peters Jacksons King Kong situr í öðru sæti og eru aðsóknartölur bráðum að nálgast 30 þúsund eftir aðeins tvær vikur í sýningu. Um tvö þúsund manns gerðu sér ferð á þessa frægu sögu nú um helgina.
Kvikmynd Baltasars Kormáks, A Little Trip To Heaven, sem situr í þriðja sæti, hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Tæplega sjö þúsund manns hafa séð myndina á aðeins sex dögum sem þykir mjög gott. Að sögn Guðmundar Breiðfjörð hjá Senu byrjar aðsóknin á íslenskar myndir ekki með sömu látum og á þessar hefðbundnu amerísku formúlu-myndir.
Í fjórða sæti situr The Brothers Grimm en hún var frumsýnd á næstsíðasta degi ársins. Tæplega 2.000 manns höfðu séð myndina á aðeins tveimur dögum en leikstjóri myndarinnar, Terry Gilliam, á dyggan aðdáendahóp, auk þess sem Matt Damon og Heath Ledger þykja óborganlegir sem svikahrapparnir Jakob og Will.
Aðrar nýjar myndir á listanum eru Just Friends , Rumor Has It og Draumalandið .