Þorsteinn Ingi Jónsson fæddist í Vatnsholti í Staðarsveit 6. september 1929. Hann andaðist á Landspítalanum Hringbraut 25. desember síðastliðinn. Hann var næstyngstur átta barna þeirra hjóna Jóns Ólafs Stefánssonar, f. 17 maí 1875, d. 21. febrúar 1954, og Jónínu Þorsteinsdóttur, f. 18. mars 1888, d. 15. júní 1974.

Hinn 30. september 1955 kvæntist Þorsteinn Öldu Sófusdóttur, f. 21. janúar 1934. Börn þeirra eru Jónína, f. 1955, Ólöf Margrét, f. 11. maí 1960, og Jón Ingi, f. 1965. Fóstursonur er Lárus Már Björnsson, f. 9. október 1952. Barnabörn eru sex talsins.

Þorsteinn ólst upp í föðurhúsum í Staðarsveit allt þar til hann hélt til náms í unglingaskóla Sauðárkróks í janúar 1944 og var hann þar fram í maí. Hann lauk gagnfræðaskóla MA 1947 og stúdentsprófi við sama skóla 1950, lauk kennaraprófi 1953. Hann tók ýmis námskeið tengd kennslu, aðallega þó í stærðfræði og eðlisfræði.

Árin 1950-1952 kenndi Þorsteinn við Breiðavíkurskóla og við barna-og gagnfræðastig í Kópavogi 1954-1973. Hann vann ýmis byggingastörf 1973-1975, sem var og hans aðalstarfi á sumrin. Hann var skólastjóri Reykholtsskóla 1975-1977, launafulltrúi Sláturfélags Suðurlands 1977-1999.

Þorsteinn tók virkan þátt í félagsstörfum um árabil, var formaður Kennarafélags Kópavogs í nokkur ár, seinna formaður Félags gagnfræðaskólakennara í Kópavogi um árabil og fyrsti formaður Félags framhaldsskólakennara í Reykjanesumdæmi. Hann sat nokkur ár í stjórn LSFK auk ýmissa trúnaðarstarfa. Hann var einnig einn af stofnendum bridgefélags Ásanna í Kópavogi og fyrsti formaður þess.

Útför Þorsteins verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Við fráfall frænda míns og vinar, Þorsteins Inga Jónssonar hrynur enn einn hornsteinninn í fjölskyldunni stóru frá Vatnsholti í Staðarsveit. Systkinin voru alls átta en eftirlifandi eru nú aðeins móðir mín, Rannveig Margrét, og Gunnar. Móðursystkin mín tengdust mér sterkum böndum, Margrét á Ölkeldu sem var mér sem önnur móðir og bræðurnir, Jón, Gunnar og Þorsteinn, hafa allir reynst mér sem bestu feður, einkum í æsku.

Ég kynntist Þorsteini best veturinn 1962, þegar þau Alda buðu mér að dvelja hjá sér vetrarlangt í þeim tilgangi að ljúka unglingaprófi við Gagnfræðaskólann í Kópavogi en þar var Þorsteinn kennari um árabil. Ég var þá 14 ára gamall, óráðinn og óraunsær um flesta hluti, taldi meira að segja skólagöngu minni lokið. Þótt mín mótunarár bæði til sjós og lands séu eiginlega óttalegur hrærigrautur er ég samt viss um að flest mín gæfuspor eru um margt vegvísar frá velgjörðamanni mínum og frænda. Viðhorf hans til kennarastarfsins og raunar lífsins; þessi sérkennilega og óskýranlega blanda af því að vera í senn strangur en samt svo góður ætti að vera hverjum kennara til umhugsunar og eftirbreytni. Þótt fleira komi til er mér sú hugsun áleitin að það hafi í raun ekki verið tilviljun að ég valdi mér það lífsstarf að verða kennari.

Þorsteinn var einstakur maður, í senn agaður og samkvæmur sjálfum sér í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var í margra huga sannur maður, verkmaður af guðs náð, gáfumaður og listamaður en þó auðvitað ekki gallalaus frekar en aðrir menn.

Af kynnum okkar eru mér efst í huga gönguferðirnar niður Álfhólsveginn, áleiðis í skólann á Digranesinu. Var þar margt skrafað og skeggrætt og svo áttum við samræður um efni sem engir aðrir fá að vita. Ég get þó sagt að þar varð til ómetanlegt veganesti út í lífið.

Missir fjölskyldunnar er mikill. Elsku Alda mín, Jónína, Ólöf, Jón Ingi, Lárus og barnabörn, ég og fjölskylda mín vottum ykkur innilega samúð. Guð styrki ykkur og varðveiti.

Þorvaldur Pálmason.

Ætli það séu ekki um sex áratugir síðan fundum okkar Þorsteins Inga Jónssonar frá Vatnsholti í Staðarsveit bar fyrst saman, það var á Sauðárkróki. Þá var hann við undirbúningsnám fyrir menntaskóla hjá séra Helga Konráðssyni sóknarpresti á þeim stað og dvaldist Þorsteinn á heimili hans. Þeir munu hafa átt ættir saman að rekja til Efribyggðar í Skagafirði, til eins af afkomendum Ólafs nokkurs Andréssonar bónda í Valadal í Skörðum, eldri Valadalsætt. Þorsteinn var á þessum árum fríður unglingur, meðalmaður á hæð, grannvaxinn og kvikur í hreyfingum. Hann var dökkjarpur á hár, snareygur og ávallt snyrtimenni í klæðaburði. Hann var vel máli farinn og aflaði sér fljótt vinsælda með skynsamlegri orðræðu, jafnt meðal pilta sem stúlkna. Einu eða tveimur árum seinna lágu leiðir okkar saman á Akureyri, við menntaskólann þar. Þar vorum við skólafélagar í nokkur ár og samstúdentar vorið 1950. Þorsteinn var maður glöggur og greindur, honum sóttist því námið vel en sýndi þó ekki af sér neinn sérstakan skörungsskap í námi fremur en við hinir sem næstir honum stóðum. Þorsteinn kunni vel að meta söng og tónlist, átti t.d. gítar sem hann dró stundum upp og lék á fyrir gesti í heimahúsum þegar honum þótti of þungt vera yfir samkvæmi.

Átta árum síðar flutti ég í Kópavog til að hefja kennslu við unglingaskóla sem þar var starfandi. Þar hitti ég fyrir vin minn, Þorstein Jónsson, hann var þar kennari við Kópavogsskólann sem var barnaskóli í sama húsi og unglingaskólinn. Þorsteinn hafði lokið námi frá stúdentadeild Kennaraskólans og starfað við kennslu eftir það, hann átti raunar nokkurn þátt í þeirri ráðabreytni minni að færa mig um set til Kópavogs. Þorsteinn var þá kvæntur sinni ágætu eiginkonu, Öldu Sófusdóttur, og bjuggu þau í leiguhúsnæði á Kársnesbraut en voru farin að huga af fullri alvöru að húsbyggingu eins og flestir aðfluttir Kópavogsbúar um þetta leyti. Þau byggðu sitt fyrsta hús við Birkigrund hér í Kópavogi en áttu eftir að skipta oft um húsnæði, fimm sinnum eftir þetta að mig minnir, og var þá keypt ófullgerð hæð, raðhús eða einbýlishús, misjafnlega langt á veg komið. Þorsteinn vann sjálfur mikið við endanlegan frágang þessara íbúða og fórst það vel úr hendi enda maðurinn handlaginn og vel að sér í öllu er laut að húsasmíði. Skemmtilegasta íbúðin hygg ég að hafi verið í einbýlishúsi með tveimur bílskúrum við Stórateig í Mos.

Um nokkurt skeið áttu Þorsteinn og Alda hæð í húsi við Álfhólsveg og vorum við þá nágrannar. Við það efldist vinátta og samgangur milli heimila okkar til muna en fleira kom til. Unglingaskólinn í Kópavogi hafði nú breyst í gagnfræðaskóla og var Þorsteinn orðinn kennari þar og þar með samkennari minn. Báðir höfðum við gaman af taflmennsku og bridsspilamennsku. Við spiluðum í heimahúsum og einnig í almennum bridsfélögum, stofnuðum meira að segja eitt slíkt með öðrum félögum okkar. Það var bridsfélagið Ásarnir í Kópavogi. Þar spilaði okkar sveit kerfi sem við Þorsteinn settum saman en ég skráði og gaf seinna út, það hét Litaskil.

Sumarið 1969 var stofnaður nýr gagnfræðaskóli í Kópavogi, Þinghólsskóli. Þar urðum við Þorsteinn samstarfsmenn, ég skólastjóri en hann kennari. Þorsteinn var góður kennari sem skilaði vel sínu verki í kennslustofunni og var vinsæll meðal nemenda. Þorsteinn varð seinna skólastjóri í Reykholti í Aratungu. Þar eftir sneri hann sér að öðrum starfsvettvangi og vann hin síðustu ár hjá Sláturfélagi Suðurlands við gjaldkerastörf og launaútreikninga eftir því sem ég best vissi.

Eftir að ég kom í Kópavog komst sú venja brátt á að við Þorsteinn og tveir til þrír aðrir gamlir bekkjarbræður frá MA komum saman að kveldi þann 16. júní og gerðum okkur glaðan dag ef svo má segja. Þetta voru skemmtilegar stundir sem hafa skilið eftir ljúfar minningar. Ætla ég að vona að eitthvað af slíkum minningum fylgi vini mínum Þorsteini þegar hann gengur nú inn í vor eilífðarinnar og vetur jarðlífsins er frá. Hinni ágætu eftirlifandi eiginkonu Þorsteins og börnum þeirra votta ég innilega samúð mína.

Guðmundur Hansen.

Er góður maður yfirgefur okkur er alsiða að færa þakkir fyrir þær stundir er gáfust. Þorstein kveð ég nú og færi þökk fyrir trygglyndi hans og velvilja í garð fjölskyldu minnar.

Megi algóður Guð styrkja Öldu og börnin og aðra fjölskyldumeðlimi.

Ólafur Lárusson.