Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is GÍSLI Gíslason, nýráðinn hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að hugsast geti að fyrirtækið komi að undirbúningi framkvæmda og fjármögnun við Sundabraut verði verkefnið boðið út sem einkaframkvæmd.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

GÍSLI Gíslason, nýráðinn hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að hugsast geti að fyrirtækið komi að undirbúningi framkvæmda og fjármögnun við Sundabraut verði verkefnið boðið út sem einkaframkvæmd. Spurningin sé hvaða aðferðafræði menn vilji beita, verði um einkaframkvæmd að ræða, en "við erum tilbúin til þess að verða einn af þeim aðilum sem kæmu að málinu ef þetta færi í einhvers konar einkaframkvæmd, hvort heldur er beint eða í gegnum Spöl ehf.", segir Gísli, en fyrirtækið á 23,5% eignarhlut í Speli. Ríkið á einnig stóran hlut í Speli og þessir tveir aðilar með sveitarfélögunum norðan Hvalfjarðar gætu náð samkomulagi um að útvíkka starfsemi þess félags.

Með stofnun Faxaflóahafna sameinaðist rekstur Reykjavíkurhafnar, Grundartangahafnar, Akraneshafnar og Borgarneshafnar. Gísli segir ljóst að áhrifin af sameiningu hafnanna verði mun fyrr virk ef Sundabrautin verði tekin í notkun innan fárra ára. "Þess vegna höfum við verulega hagsmuni af því að þetta verkefni gangi greitt fram," segir Gísli.

Skuggagjaldaleið

Til þess að hægt verði að vinna frekar í málinu þurfi hins vegar að fást botn í hvar brautin eigi að liggja.

"Ég tel að menn eigi að einsetja sér að ná sátt um þetta. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir með hvaða hætti hluti kostnaðarins myndi skila sér til baka. Ríkið hefur ákveðið að leggja í þetta ákveðnar fjárhæðir. Ef menn fara í einkaframkvæmd liggur það á borðinu að það kæmi endurgjald með einhverjum hætti fyrir það sem út af stæði. Ég hef talað fyrir svokallaðri skuggagjaldaleið sem felur í sér að ríkið endurgreiði kostnað í takt við þá umferð sem um brautina fer, en á lengri tíma en gert var í Hvalfjarðargöngunum, en þar er um að ræða 20 ára tímabil," segir Gísli. Fjármögnunin við Sundabraut gæti hugsanlega orðið til 30-40 ára. "Ég held að þetta ætti að verða mjög áhugaverður kostur til þess að koma verkefninu í heild í framkvæmd. Við hjá höfnunum leggjum mikla áherslu á að það verði horft á þetta sem eina heildarframkvæmd, og þar með talin stækkun á Hvalfjarðargöngum, til þess að hún komi að þeim notum sem að er stefnt sem fyrst," segir Gísli. Verkefnið sé svo spennandi að allir aðilar vilji í raun að það geti orðið að veruleika sem fyrst. Málið strandi í raun fyrst og fremst á því að ekki hafi náðst sátt um legu brautarinnar.

Mörg verkefni í vinnslu

Gísli tók við starfi hafnarstjóra 1. nóvember síðastliðinn. "Þetta hefur verið mjög spennandi," segir Gísli og kveðst sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun að sameina hafnirnar fjórar. Hann segir ljóst að hafnirnar snerti býsna mörg svið í hverju sveitarfélagi og hafi þar mikil áhrif, meðal annars þegar kemur að skipulagsmálum.

Aðspurður segir hann mörg verkefni í vinnslu á vegum Faxaflóahafna. "Það er verið að fara í 400 milljóna króna verkefni í Vesturhöfninni í Reykjavík til þess að lagfæra aðstöðu þeirra sem þar eru með útgerð og fiskvinnslu. Í öðru lagi er verið að ýta áfram skipulagi við Mýrargötu sem mun breyta ásýndinni við höfnina. Þá er Austurhöfn að undirbúa framkvæmdir við tónlistarhús sem mun ekki síður hafa gríðarleg áhrif á hafnarsvæðið. "

Gísli segir að einnig sé verið að ljúka við stækkun á hafnarbökkum á Grundartanga og þar séu umsvif að aukast mjög verulega. "Það verður tekinn í notkun nýr bakki á svonefndum Skarfabakka sem Eimskip og skemmtiferðaskip munu meðal annars nýta," segir Gísli og bætir við að bakkinn verði tilbúinn á næsta ári. Spennandi verkefni blasi við sama hvert litið sé. Þau muni eflaust hafa talsverð áhrif á byggðarmunstur í hverjum bæ fyrir sig á næstu árum.