Fjölskyldukort er nýjung hjá líkamsræktarstöðvum Iceland Spa & Fitness, segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri stöðvanna. Eigi foreldrar kort hjá stöðvunum fá þeir ókeypis barnagæslu fyrir yngstu börnin og sömuleiðis ókeypis líkamsræktarkort fyrir unglinga á aldrinum tólf til sextán ára. "Við tókum upp á þessu í desember og höfum fengið jákvæð viðbrögð."
Sævar segir æ meira um það að unglingar sæki líkamsræktarstöðvar. Sú þróun eigi sér stað víða um heim. "Unglingarnir mega fara í leikfimi eða í tækin, en ekki í laus lóð," segir hann og tekur fram að þannig sé verið að koma í veg fyrir að unga fólkið fari sér að voða með of þungum lóðum sem geti verið þeim ofviða.
Hann segir ennfremur að það sé að verða hluti af lífsstíl margra að stunda líkamsrækt. Af og til sjái hann heilu fjölskyldurnar koma saman og fara í tækin eða í leikfimi. Aðspurður segir hann að ekki sé þó mikið um krakka á aldrinum tólf til sextán ára á líkamsræktarstöðvunum - enn sem komið er.
Sævar segir að hjá Iceland Spa & Fitness sé hægt að velja á milli yfir 200 líkamsræktartíma á viku, en fjórar stöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu og ein austur á Reyðarfirði. "Þá erum við með öll lyftingartæki eins og þau leggja sig," bætir hann við.
Aðspurður segir hann að aðsókn að líkamsræktarstöðvum hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. "Einn árgangur bætist við á hverju ári." Hann segir ennfremur að fólk á öllum aldri stundi reglulega líkamsrækt. "Fólk sem byrjaði að æfa fyrir fimmtán til tuttugu árum er enn að æfa. Það er mjög algengt að fólk á aldrinum fimmtíu til sextíu sé að æfa tvisvar til þrisvar í viku en sá hópur sást ekki fyrir nokkrum árum," segir hann að síðustu.