Hildur Guðmundsdóttir og Rúnar Sigurkarlsson eiga og reka verslunina Yggdrasil við Skólavörðustíg.
Hildur Guðmundsdóttir og Rúnar Sigurkarlsson eiga og reka verslunina Yggdrasil við Skólavörðustíg. — Morgunblaðið/Jim Smart
Matvörur úr lífrænt ræktuðu hráefni eru ýmist seldar í stórmörkuðum eða sérverslunum hérlendis. Hagkaup og Fjarðarkaup eru með "búð í búð", þar sem þurrvörur, grænmeti og fleiri tegundir í þessum flokki eru í hillum.

Matvörur úr lífrænt ræktuðu hráefni eru ýmist seldar í stórmörkuðum eða sérverslunum hérlendis. Hagkaup og Fjarðarkaup eru með "búð í búð", þar sem þurrvörur, grænmeti og fleiri tegundir í þessum flokki eru í hillum. Maður lifandi var að opna aðra verslun í Kópavogi, eftir eins árs rekstur í Reykjavík, Heilsuhúsið rekur þrjár verslanir, Blómaval er með deild fyrir lífrænar vörur, og Yggdrasill flutti í nýja og stærri verslun við Skólavörðustíg á liðnu ári og fagnar 20 ára afmæli í byrjun nýs árs. Rúnar Sigurkarlsson, annar eigenda Yggdrasils, segir þróunina í nágrannalöndunum hafa orðið í tvær áttir. Annars vegar sé um að ræða markaði þar sem mest af slíkum vörum sé selt í stórmörkuðum og tiltölulega lítill hluti í sérverslunum, eins og til dæmis í Svíþjóð og Danmörku. "Í Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi, eru heilsubúðirnar hins vegar orðnar mjög stórar, nokkurs konar stórmarkaðir, bara með lífrænt þar sem hægt er að gera öll innkaup. Það er hægt að fá tugi tegunda af lífrænum vínum, lífrænum ostum, lífrænt kjöt, til dæmis kjúkling, eldislax sem er vottaður lífrænt, auk hefðbundinnar þurrvöru og grænmetis," segir hann.

Í Danmörku er mikið úrval af mjólkurvörum úr lífrænt ræktaðri mjólk og segir Rúnar þær 20% af markaðinum. "Ástæðan er mengun í Danmörku, ekki síst grunnvatnsmengun, sem stafaði fyrst og fremst af notkun á tilbúnum áburði í landbúnaði. Þá brugðu yfirvöld á það ráð að auglýsa eftir bændum í lífræna ræktun og styrktu þá sérstaklega. Það er vitað að þeir sem fara úr hefðbundinni ræktun í lífræna þurfa aðlögun, þeir missa uppskeruna í nokkur ár á meðan þeir eru að skipta."

Rúnar segir hlutfall sölu á matvöru úr lífrænt ræktuðu hráefni vera orðið umtalsvert hjá stórmörkuðunum og kveðst ekki finna fyrir samdrætti, þótt sérverslunum með þessa vöru hafi farið fjölgandi í seinni tíð. "Þvert á móti merki ég aukningu í sölu, sem þýðir að markaðurinn er að stækka með öllum þessum nýju verslunum. Samkaupskeðjan hefur sýnt heilsuvörum áhuga og töluvert er um þær á Suðurnesjum. Kaskó býður þessar vörur að einhverju leyti, sem og Nettó, og Nettó í Keflavík ætlar að opna heilsubúð í búð," segir hann.

Rúnar segir misjafnar skoðanir á því hvort betra sé að blanda matvælum úr lífrænt ræktuðu hráefni innan um aðra vöru í hillum eftir flokkum, eða búa til sérstaka deild innan hverrar verslunar. Kveðst hann ekki í vafa um að hið síðarnefnda skili betri árangri.

Yggdrasill flytur meðal annars inn vörur frá Rapunzel og dreifir til annarra og fékk nýverið viðurkenningu. "Miðað við höfðatölu seljum við mest af Rapunzel í öllum heiminum," segir hann.

Rúnar sér fyrir sér áframhaldandi aukningu á hlutdeild heilsuvöruverslana á matvörumarkaðinum. "Ég held að fólk sé meira vakandi og sér betur meðvitandi en áður. Svo er nýr hópur af viðskiptavinum að koma fram. Áður borðaði fólk annaðhvort heilsufæði eða annað fæði, nú er að verða til hópur fólks sem notar svona vörur með öðru, til dæmis speltpasta, hýðishrísgrjón, eða kex sem ekki er með hvítum sykri, lífrænt múslí eða eitthvað álíka, lífræna safa og svo framvegis. Þegar þessi hópur kemst á bragðið verður þessi vara sífellt stærri hluti af neyslunni. Þetta er stóri markhópurinn í dag, þess vegna er aukningin. Við fáum líka fólk til okkar sem kemur bara einu sinni í mánuði," segir hann.