Reykjanesbær | "Þetta er mjög fínt og hvetur mig áfram," segir Erla Dögg Haraldsdóttir, sextán ára gömul sundkona úr Njarðvík, sem valin var íþróttamaður Reykjanesbæjar fyrir árið 2005. Valið var kynnt á árlegri hátíð sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni í Njarðvík á gamlársdag. Þá voru jafnframt kynntir íþróttamenn einstakra íþróttagreina og veittar viðurkenningar fyrir afrek á árinu.
Erla Dögg varð Íslandsmeistari í átta einstaklingsgreinum á síðasta ári. Á Smáþjóðaleikunum í Andorra fékk hún fern verðlaun, þrjú gull og eitt silfur. Það mót var eftirminnilegast hjá henni á árinu. En hún nefnir einnig Meistaramót Íslands í 50 metra laug innanhúss. Þar varð hún fjórfaldur Íslandsmeistari. Eftir það mót fór hún að finna fyrir veikindum sem hrjáðu hana alveg fram í október. "Ég gat ekki æft á fullu og var alltaf hjá læknum og á lyfjum, þar til í október að ég fór í aðgerð til að láta taka hálskirtlana. Núna er ég alveg búin að ná mér og er komin á fullt," segir Erla Dögg.
Þrjár æfingar á dag
Hún hóf í haust nám á afreksbraut Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ og Fjölbrautaskóla Suðurlands og telur að það hafi hjálpað sér. Hún æfir á vegum Akademíunnar fimm morgna í viku, fer síðan í bóklegt nám í skólanum til fjögur. Eftir það taka við þrekæfingar þrisvar í viku og síðan æfingar með félaginu alla daga vikunnar. Hún æfir því tvisvar til þrisvar á dag fjóra til fimm daga vikunnar. Hún segir að ef hún væri ekki í akademíunni þyrfti hún að byrja í skólanum klukkan átta og þyrfti því að fara á æfingu klukkan sex á morgnana til að ná æfingu fyrir skóla. "Nú fæ ég betri hvíld. Svo gera þeir allskonar mælingar á mér sem kemur sér einnig vel," segir hún. Þar er um að ræða mælingar á líkamlegu ástandi og einnig mælingar í sundlauginni.Ýmis spennandi verkefni eru framundan hjá Erlu Dögg á nýja árinu. Hún nefnir Íslandsmeistaramótið í mars og Evrópumótið í 50 metra laug í sumar en það verður í Búdapest og stefnir Erla á að vinna sér rétt til þátttöku í því.
Kristbjörn heiðraður
Camilla Petra Sigurðardóttir, hestaíþróttakona úr Mána í Keflavík, varð í öðru sæti í kjöri Íþróttamanns Reykjanesbæjar og Friðrik Stefánsson, körfuknattleiksmaður úr Njarðvík, varð í því þriðja. Þau og Erla Dögg voru útnefnd Íþróttamenn Reykjanesbæjar í sinni grein.Þá var Aron Ómarsson úr VÍR valinn vélhjólaíþróttamaður Reykjanesbæjar, Arnar Már Ingibjörnsson úr Nesi íþróttamaður fatlaðra, Ingólfur Ólafsson úr Keflavík badmintonmaður, Selma Kristín Ólafsdóttir úr Keflavík fimleikamaður, Jónas Guðni Sævarsson úr Keflavík knattspyrnumaður, Árni B. Pálsson úr Keflavík skotfimimaður, Ivan Ilievski úr Keflavík taekwondomaður, Sturla Ólafsson úr UMFN lyftingamaður, Heiðrún Pálsdóttir úr Knerri siglingamaður, Daníel Þórðarson úr Hnefaleikafélagi Reykjaness er íþróttamaður Reykjanesbæjar í ólympískum hnefaleikum og Heiða Guðnadóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja kylfingur ársins.
Þá var Kristbirni Albertssyni veitt sérstök viðurkenning fyrir frábært starf í þágu íþrótta. Hann lét á árinu af formennsku í Ungmennafélags Njarðvíkur og hætti í stjórn Íþróttabandalags Reykjanesbæjar.
Loks má nefna að Reykjanesbær heiðraði alla þá íþróttamenn bæjarfélagsins sem urðu Íslandsmeistarar á liðnu ári.