Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is LOKUN langdræga NMT-farsímakerfisins verður frestað til 31. desember 2008, samkvæmt heimild sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur. Símanum, rekstraraðila NMT-kerfisins, hefur verið tilkynnt þessi ákvörðun PFS.
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is

LOKUN langdræga NMT-farsímakerfisins verður frestað til 31. desember 2008, samkvæmt heimild sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur. Símanum, rekstraraðila NMT-kerfisins, hefur verið tilkynnt þessi ákvörðun PFS. Ákvörðunin byggist m.a. á umsögnum sem bárust við umræðuskjali sem PFS birti hinn 24. október um framtíðarnotkun NMT-450-tíðnisviðsins á Íslandi. Stefnt er að því að ný langdræg þjónusta verði í boði fyrir árslok 2007, að því er segir á vef PFS.

Alls bárust níu umsagnir um skjalið frá hagsmunaaðilum, Ericsson Danmark A/S, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neyðarlínunni, Nordisk Mobiltelefon AB, Nortel, Og Vodafone, Orkustofnun, Samtökum ferðaþjónustunnar og Símanum. Þrír umsagnaraðilar hafa áhuga á að byggja upp nýtt fjarskiptanet, tveir eru framleiðendur tækjabúnaðar og fjórir eru aðrir hagsmunaaðilar.

Flest bendir til þess að NMT-þjónustan muni leggjast af og að við muni taka stafræn farsímaþjónusta innan fárra ára. Stefnt verður að því að ný þjónusta verði í boði fyrir lok ársins 2007, en nú er ekki víst að af því geti orðið á þeim tíma. Dagsetningu lokunar NMT-kerfisins kann að verða breytt og þjónustu hætt fyrr ef öruggt er að ný þjónusta geti tekið við fyrr.

Úthlutað verði til eins aðila

Í samantekt umsagna hinna níu aðila um framtíðarnotkun NMT-450-tíðnisviðsins kemur m.a. fram að flestir töldu að skynsamlegast væri að úthluta tíðnisviðinu til eins aðila. Það var samdóma álit að landfræðileg skipting þjónustunnar kæmi ekki til greina.

Einn þeirra þriggja, sem hafa áhuga á að byggja upp eigið fjarskiptanet, kvaðst gera ráð fyrir að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að netinu til að selja almenningi þjónustu, annar taldi það koma til greina og sá þriðji tók ekki afstöðu.

12-18 mánaða uppbygging

Varðandi útbreiðslukröfur var almennt talið að núverandi útbreiðsla NMT-kerfisins væri eðlileg viðmiðun. Talið er að uppbygging kerfisins taki 12-18 mánuði eftir að tíðniheimild hefur verið gefin út. Allir umsagnaraðilar töldu einsýnt að starfrækja yrði nýja kerfið samhliða NMT-kerfinu í 6-12 mánuði.

Hvað varðar gjaldtöku fyrir tíðnirnar lögðu aðilar áherslu á að stilla bæri gjaldtöku í hóf.