Karl Sigurbjörnsson
Karl Sigurbjörnsson
Hvernig á samkynhneigt þjóðkirkjufólk að skilja nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups, sem birt var hér í blaðinu í gær? Sá boðskapur, sem samkynhneigðum var þar fluttur, virðist harla mótsagnakenndur.

Hvernig á samkynhneigt þjóðkirkjufólk að skilja nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups, sem birt var hér í blaðinu í gær? Sá boðskapur, sem samkynhneigðum var þar fluttur, virðist harla mótsagnakenndur.

Biskup sagði annars vegar: "Þjóðkirkjan hefur lengi staðið fyrir samtali um málefni samkynhneigðra og fagnað réttarbótum þeim til handa. Ég ítreka að Þjóðkirkjan stendur heilshugar með samkynhneigðum sem einstaklingum, og réttindum þeirra í samfélaginu."

Og hins vegar sagði biskup: "Löggjafinn getur á hverjum tíma skilgreint hvaða skilyrði séu fyrir hjúskap að lögum. Engum blöðum er um það að fletta. Til þessa hefur hjónaband talist vera sáttmáli eins karls og einnar konu. Er það í samhljóm við grundvallarforsendu sem kristin trú og siður hefur byggt á frá öndverðu, og er sameiginleg öllum helstu trúarbrögðum heims. Enda í samhljómi við lífsins lög. Þessari forsendu getur íslenska ríkið breytt og komið til móts við margvíslegar þarfir, hvatir og hneigðir, og afnumið alla meinbugi. Ef það er framtíðin, já, ef það er framtíðin, þá er eitthvað nýtt orðið til, ný viðmið siðarins, án hliðstæðu í siðmenningunni. Hin aldagamla stofnun sem hjónabandið er er þá afnumin."

Sem sagt: Samkynhneigðir njóta stuðnings sem einstaklingar og kirkjan er vinur þeirra. En þarfir þeirra, hvatir og hneigðir eru hins vegar svo voðalegar að verði þær viðurkenndar af ríkinu, þá er búið að afnema hjónabandið og siðmenningin riðar til falls.

Er nema von að samkynhneigðir séu ekki nema mátulega vissir um að þeir séu velkomnir í þjóðkirkjunni?

Fyrir hálfu öðru ári var gerð skoðanakönnun, sem leiddi í ljós að tæplega 70% landsmanna töldu að samkynhneigðir ættu að fá að gifta sig í kirkju. Eru tveir þriðju þjóðarinnar búnir að segja skilið við siðmenninguna? Er hinn kristni almenningur í landinu að ganga af göflunum, að mati biskups Íslands? Hefur það nýja þá ekki löngu gerzt?