Við erum eins og örninn, við látum vindinn sem blæs gegn okkur bera okkur hátt. Hér er fólk úr öllum stéttum í meðferð," sagði Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins á Efri-Brú í Grímsnesi, á fjölmennri tímamóta- og kynningarhátíð 30. desember. Tíunda starfsár Byrgisins er að hefjast og í tilefni þess var starfsemin kynnt og þær nýjungar sem bryddað verður upp á. Í máli Guðmundar og annarra á samkomunni kom fram að stöðug eftirspurn er eftir plássum í Byrginu og sárlega vantar aðstöðu til að taka fíkla í afeitrun. 73 bíða nú eftir plássi á Efri-Brú og Guðmundur sagði að hann hefði þennan dag sem hátíðin fór fram fengið símtal og var hann spurður hvort hann gæti tekið 9 manns sem voru að missa húsnæði sitt í Reykjavík, á Hverfisgötunni, allir mjög illa haldnir. Af orðum Guðmundar að dæma er ljóst að þörfin fyrir úrræði er gríðarleg og ljóst að um líf og dauða er að tefla en Guðmundur lýsti í nokkrum orðum stöðunni hjá þeim níu sem um var að ræða. Ljóst var að hann þekkti aðstæður þeirra mjög vel.
Forvarnar- og fjölskyldustarf að hefjast
"Afleiðingar vaxandi eiturlyfjaneyslu og afbrotaaukningar í samfélaginu eru sundruð heimili og upplausn fjölskyldna, skilnaðir, kynlífsofbeldi, geðræn vandamál og sjálfsvíg," sagði Ásta Guðmundsdóttir sem ásamt Árna V. Magnússyni kynnti umfangsmikið átak í Byrginu sem beinast mun að fjölskyldum fíkniefnaneytenda sem hún sagði illa haldnar af þessum aðstæðum. Með vorinu mun hefjast í Byrginu margþætt forvarnar- og fjölskyldustarf. Hlutverk þess er að efla forvarnir og bjóða aðstandendum fíkla upp á fjölþætta þjónustu. Um verður að ræða fræðslu, ráðgjöf og stuðning auk sérstakrar meðferðar í Byrginu ef þörf krefur. Hin nýja áhersla Byrgisins skiptist í tvo meginþætti, annars vegar fjölskyldu- og forvarnarstarf og fræðslu og stuðning við fjölskyldur og forvarnarherferð í skólum og félagsmiðstöðvum. Hins vegar mun starfið beinast að aðstandendameðferð í Byrginu á Ljósafossi. Haldnir verða kynningarfundir á höfuðborgarsvæðinu hálfsmánaðarlega og reynt að ná til fólks. Einnig verða kynningarfundir í Byrginu á Ljósafossi fyrir Selfoss og nágrenni. Byrgið mun á komandi hausti leggja áherslu á að ná til barna 6 - 12 ára og dreifa til þeirra fræðsluefni. Í sumar verða síðan ýmis verkefni í gangi í Byrginu, uppbygging til anda, sálar og líkama. Útvarp KFM verður með prógramm allan sólarhringinn. "Margir munu frelsast frá fíkn undir slagorðunum: Gegn eitri í æð og Breyttur lífsstíll. Og komast þannig að raun um að nýtt líf í Kristi er það eina sem hindrar fíkilinn í að neyta vímuefna," sagði Árni.
86% vistmanna heimilislaus
"34 einstaklingar dvelja hér í endurhæfingarsambýlinu í Byrginu á Ljósafossi og fleiri ef fleiri en einn eru í herbergi. Vímuefnameðferðarprógram hefur stöðugt verið þróað og lagað að þörfum þess hóps sem meðferð Byrgisins tekur til. Áherslan er á andlega og líkamlega uppbyggingu, þar sem aginn er í fyrirrúmi. Einstaklingurinn er hvattur áfram og aðstoðaður með daglega rútínu, allt í átt til samfélagslegrar ábyrgðar á eigin lífi um leið," sagði Guðmundur Jónsson forstöðumaður meðal annars er hann kynnti starfsemina. Sem dæmi sagði hann 86% vistmanna hafa verið heimilislaus við komuna í Byrgið og 88% höfðu verið atvinnulaus í 6 mánuði. Aðeins 12% höfðu einhverja atvinnu áður en þeir komu í meðferð. 69% einstaklinganna komu frá sundruðum fjölskyldum þar sem neysla foreldra, skilnaður, ofbeldi og/eða misnotkun höfðu viðgengist í uppeldi þeirra. Þá sagði Guðmundur sláandi að margir byrjuðu neyslu mjög ungir, 11-13 ára aldur væri mjög algengur.
Fíknin er mikið samfélagsböl
"Stærsta þjóðfélags- og heilsufarsvandamál okkar Íslendinga er án efa vímuefnaneysla og afleiðingar hennar, um er að ræða mikla harmleiki sem gerast á hverjum einasta degi," sagði Jón Arnarr Einarsson er hann lýsti því sem væri að gerast í þjóðfélaginu. Neysla ólöglegra og löglegra vímuefna ykist verulega frá ári til árs. Heimili neytenda og foreldra þeirra væru lögð í rúst af ofbeldisfullum handrukkurum og fórnarlömbin þyrðu ekki að tjá sig af ótta við þá sem stjórnuðu sölu og dreifingu á fíkniefnum. Þá sagði Jón að saklausir borgarar væru myrtir af sjúkum fíkniefnaneytendum sem væru í örvæntingarfullri leit að næsta skammti. Afbrotamönnum væri sleppt lausum eftir fangavist en þeir ættu undantekningarlaust að fara í endurhæfingarmeðferð. Í Byrginu er stór hluti skjólstæðinganna með afbrotaferil sem tengist vímuefnaneyslu. Fyrir þessa menn sagði Jón Arnarr að sett væri saman ákveðin meðferðardagskrá. Margir afbrotamenn gætu þó tekið þátt í hefðbundinni meðferð Byrgisins með prýðilegum árangri, aðrir þyrftu sérstakt aðhald og daglega tilsjón. Jón lagði áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir Byrgið að fá meira húsnæði til þess að geta brugðist við og tekið fólk inn með skömmum fyrirvara því biðtími gæti ráðið úrslitum um líf og dauða. Mjög nauðsynlegt væri að fá aðstöðu til að taka á móti fólki í afeitrun en hún væri nauðsynleg til þess að hægt væri að hefja meðferð.
Miklar ranghugmyndir
Jósep Sigurðsson fjallaði á fundinum um ranghugmyndir fólks sem ætti við eiturlyfjavanda að stríða. Hann lagði áherslu á að hugarfar hvers og eins yrði að breytast ef fólk ætlaði að ná tökum á tilveru sinni og komast á rétta braut. Fráhvarfseinkenni væru mikil og erfiðar sveiflur sem fólk lenti í. Fólk þyrfti að skilja við fortíðina og þjálfa sig í öflugri sjálfsskoðun. Það væri þó alltaf grundvallaratriði að nýta sér mátt bænarinnar og lifa með Jesú Kristi. Hann hvatti fólk til þess að nota Biblíuna, þar væri góð leið.