Þá er runnið upp nýtt ár sem líkt og liðið ár mun sjálfsagt einkennast af framkvæmdum og þenslu á Austurlandi. Það hefur blátt áfram verið lygilegt að fylgjast með kúrfunni hér eystra undanfarið, þar sem fjórðungurinn er skyndilega orðinn einkar fjölþjóðlegur og byggingaverkamönnum og fjárfestum er skipað til öndvegis í uppsveiflunni. Veldur hver á heldur og sveitarfélögin streitast við að spá rétt í spilin og hafa vaxtarjarðveginn frjóan, hvert á sinn hátt. Stundum er veiðin sýnd en ekki gefin og einhver bæjarstjórinn sagðist sigla milli skers og báru í skipulagningu á rekstri sveitarfélagsins; stundum þyrfti að venda hratt og lítið um lygnan sjó.
Íbúafjölgun hefur hvergi orðið eins mikil á landinu á undanförnum árum eins og á Austurlandi og eru Egilsstaðir stærsti þéttbýlisstaður fjórðungsins. Hagstofan telur þar nú 1.901 sál og hefur fjölgað um 129 á milli ára. Í Fellabæ búa 403 íbúar og því samtals 2.304 íbúar í þéttbýliskjarnanum við Lagarfljót. Andrúmsloft svæðisins hefur breyst mikið eftir að Kárahnjúkavirkjun brast á. Allt á fleygiferð. Skilin eru skörp milli heimamanna og aðkomumanna og mættum við að ósekju taka ögn betur á móti Kárahnjúkafólkinu, fá það til að kenna okkur sitt og njóta þeirrar margbreytni sem öll þessi þjóðarbrot bera með sér. Þetta er krydd í tilveruna, hvað sem mönnum sýnist að öðru leyti um framkvæmdina sjálfa og það rót sem henni fylgir.
Vaxandi þrótti Austurlands fylgja ýmis hundsbit. Eitt þeirra er hækkun fasteignamats. Matið á einbýlishúsum á Egilsstöðum og í Fellabæ hækkaði um 30% um áramótin, af atvinnuhúsnæði og fjölbýlishúsum um 20% og bújörðun og því sem þeim fylgir um 10%. Bæjarstjórnin ætlar að hjálpa okkur dálítið með þetta og lækka álagningarprósentu fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði um 0,5% og af atvinnuhúsnæði um 0,15%. Nú eru virkjunarframkvæmdir brátt í hámarki og svo tekur að fjara undan í lok ársins. Menn spyrja hvað verði handan þess tíma.
Hvað sem uppsveiflu og hundsbitum líður óska ég íbúum þessa fjórðungs og annarra gæfu á árinu og minni á að jákvætt hugarfar er lykillinn að lífsgæðum okkar.