Sigurjón Sighvatsson
Sigurjón Sighvatsson
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is

EKKERT lát virðist ætla að verða á fjárfestingum íslenskra fyrirtækja og athafnamanna í Danmörku en Sigurjón Sighvatsson hefur nú keypt 75% hlutabréfa í norræna kvikmyndadreifingarfyrirtækinu Scanbox Entertainment Group A/S. Kaupverðið fæst ekki uppgefið en félagið veltir um fjórum milljörðum og hjá því starfa um 150 manns víðs vegar í Skandinavíu.

Í október keypti Sigurjón danska fasteignafélagið VG Investment fyrir hátt í níu milljarða íslenskra króna og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má búast við að greint verði frá frekari fasteignakaupum Sigurjóns í Danmörku eftir nokkrar vikur.

Scanbox var upphaflega stofnað í Danmörku árið 1980 en er nú með starfsemi á öllum Norðurlöndunum, utan Íslands, og í London. Góður vöxtur hefur verið í starfsemi félagsins á undanförnum árum en einkum hefur verið lögð áhersla á dreifingu sjálfstæðra alþjóðlegra kvikmynda, kvikmynda frá Norðurlöndunum og sérframleiddra kvikmynda fyrir dvd-markaðinn, sem stöðugt fer stækkandi.

Scanbox er eitt af stærstu sjálfstæðum dreifingarfélögum á Norðurlöndunum og það er með töluvert mikla hlutdeild á dönskum markaði, m.a. um 30% af heimaframleiðslu þar, að sögn Sigurjóns. Hann segist hafa verið töluvert á Norðurlöndunum og fylgst með Scanbox um hríð.

"Sonur minn flutti til Danmerkur fyrir einu og hálfu ári og þá fór ég að eyða miklu meiri tíma þar og fór að skoða nánar markaðinn í heild sinni. Þessi lönd eru af þægilegri stærð og við þekkjum siði og menninguna þar."

Sonur Sigurjóns, Þórir Snær, er kvikmyndaframleiðandi í Danmörku og hefur m.a. framleitt Næsland og Voksne mennesker og hann og fyrirtæki hans, Zik Zak, verður meðframleiðandi að næstu kvikmynd Lars von Trier.