Lára Ósk Arnórsdóttir fæddist í Reykjavík 3. janúar 1947. Hún lést á heimili sínu 5. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 14. desember.
Á nýliðinni aðventu þegar jólaljósin voru að kvikna hvert af öðru barst okkur sú harmafregn að Lára væri látin.
Í dag er afmælisdagurinn hennar og við viljum minnast hennar með nokkrum orðum. Lára kom til okkar í þjónustumiðstöðina á Vesturgötu 7 árið 1994 og starfaði hér sem forstöðumaður næstu sex árin. Hún var nákvæm í vinnubrögðum og lagði alúð í að prýða og fegra staðinn, ekki síst þegar jólin nálguðust og við tókum til við að skreyta húsið. Lára var mikið jólabarn.
Þetta eru góð ár að minnast, mikið var hlegið og skrafað. Að taka vel á móti gestum og láta þeim líða vel var ávallt sett í öndvegi. Þetta var það sem Lára vildi að starfsfólkið tileinkaði sér og við vonum að okkur hafi tekist að standa undir væntingum hennar.
Hún var trygg og góð kona sem kenndi okkur margt.
Það mynduðust sterk tengsl milli starfsfólksins á Vesturgötunni og við fylgdumst vel með fjölskyldum hvert annars. Fjölskylda Láru kom oft í heimsókn. Rúnar eiginmaður hennar sýndi okkur hvað sönn væntumþykja er og var Láru stoð og stytta, í öllum verkum. Hún sagði okkur oft hve mikils virði hann væri henni. Svo litu börnin þeirra inn, Valgerður eða Völubarnið eins og við tókum upp eftir Láru að kalla hana, kom falleg og frísk af ballettæfingu. Gauja, sem sífellt kom á óvart, ýmist í gallanum að koma úr vélsmiðjunni, eða næsta dag eins og fegurðardrottning í flugfreyjudragtinni að kveðja mömmu fyrir flugferð. Arna með myndavél um öxl en hún var á þessum tíma að vinna myndir um litróf íslenskra húsdýra.
Hlynur einkasonur Láru leit líka stundum inn til að heilsa upp á okkur. Arna og Hlynur komu oft með börnin sín og þá leyndi sér ekki stoltið hjá ömmunni.
Móðir Láru var um tíma daglegur gestur hjá okkur. Frú Unnur eins og Lára sagði, sat við hannyrðir og saumaði fallega listmuni handa fjölskyldunni. Við minnumst hennar með hlýhug, en hún lést árið 2002.
Allt er breytingum háð og Lára lét af störfum vegna heilsubrests. Hún kom þá bara í heimsókn og fylgdist með okkur og starfinu á Vesturgötu.
Að leiðarlokum viljum við segja. "Að lifa er að elska og sá sem einhver elskar getur aldrei dáið." Kæra fjölskylda, megi Guð gefa ykkur ljósið til að lýsa upp minningarnar.
Við kveðjum Láru Arnórsdóttir með virðingu og þökk.
Samstarfsfólk Vesturgötu 7.