Elfriede Jelinek
Elfriede Jelinek — Reuters
Æfingar eru hafnar á Virkjuninni, leikgerð Maríu Kristjánsdóttur á leikverki Nóbelsverðlaunahafans Elfriede Jelinek í þýðingu Hafliða Arngrímssonar. Virkjunin verður frumsýnd á Stóra sviðinu í byrjun mars.

Æfingar eru hafnar á Virkjuninni, leikgerð Maríu Kristjánsdóttur á leikverki Nóbelsverðlaunahafans Elfriede Jelinek í þýðingu Hafliða Arngrímssonar. Virkjunin verður frumsýnd á Stóra sviðinu í byrjun mars.

Náttúran, takmarkalaus trú á tækni og framfarir, hreyfanlegt vinnuafl og tungumálið eru meðal viðfangsefna Nóbelsverðlaunahafans Elfriede Jelinek í þessu leikverki, þar sem afbygging leikhússins og aðferðir þess er jafnframt í brennidepli. Á sinn kaldhæðna hátt ræðst Jelinek að goðsögnum og afhjúpar þær, eða eins og hún segir sjálf: "Konan er dæmd til þess að segja sannleikann en ekki lýsa hinni fögru ímynd."

Elfriede Jelinek er fædd í Austurríki 1946 og hlaut menntun á sviði tónlistar. Hún hefur skrifað fjölda verka fyrir leiksvið, en einnig sent frá sér ljóð og prósaverk. Meðal frægustu verka hennar eru skáldsögurnar Losti og Píanókennarinn, en gerð var samnefnd kvikmynd eftir þeirri síðarnefndu sem sýnd var hér á landi. Tvö leikrit eftir Jelinek hafa verið flutt í íslensku leikhúsi, Klara S. var sett upp í Nemendaleikhúsinu og Útvarpsleikhúsið flutti nýverið Hvað gerðist eftir að Nóra yfirgaf eiginmanninn. Á síðari árum hefur Jelinek nánast útrýmt hefðbundinni atburðarás í leikritum sínum og eins leikpersónum. Leikrit hennar þykja því einstök áskorun fyrir leikhóp og leikstjóra í uppsetningu. Jelinek hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2004.

Leikendur eru Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Björgvin Franz Gíslason, Gísli Pétur Hinriksson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, María Pálsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll S. Pálsson, Rúnar Freyr Gíslason, Sólveig Arnarsdóttir og Þórunn Lárusdóttir.

Þýðandi er Hafliði Arngrímsson, leikgerð gerir María Kristjánsdóttir, leikmynd gerir Sigurjón Jóhannesson, um búninga sér Filippía I. Elísdóttir og leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir.