Margrét Alice Birgisdóttir
Margrét Alice Birgisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á síðustu tveimur áratugum hefur nudd með ilmkjarnaolíum, svæðameðferð, nálastungur og fleira orðið sjálfsagður og eðlilegur hlutur af lífsstíl margra, og fólk innan heilbrigðisstétta farið að bera sig eftir aukinni þekkingu á sviði svokallaðra...

Á síðustu tveimur áratugum hefur nudd með ilmkjarnaolíum, svæðameðferð, nálastungur og fleira orðið sjálfsagður og eðlilegur hlutur af lífsstíl margra, og fólk innan heilbrigðisstétta farið að bera sig eftir aukinni þekkingu á sviði svokallaðra óhefðbundinna aðferða til að nota með hinum hefðbundnu, segir Margrét Alice Birgisdóttir leiðbeinandi við Nuddskóla Íslands. Margrét er umsjónarmaður kennsluþáttar SPICA á Íslandi og ilmolíufræðingur, CPD, frá Shirley Price International College of Aromatherapy.

Hvað er átt við með ilmkjarnaolíumeðferð (aromatherapy)?

"Orðið aromatherapy kemur fyrst fyrir árið 1928 í vísindalegri ritgerð franska efnafræðingsins Réne Maurice Gattefosse, sem nefndur er faðir nútíma ilmkjarnaolíumeðferðar. Hann gaf síðan út bók með sama nafni 1937 og er hún enn þann dag í dag biblía margra sem nota ilmkjarnaolíur af einhverri alvöru. En hvað er ilmkjarnaolía? Ilmkjarnaolíur eru í raun ekki olíur heldur hreinir ilmkjarnar jurta, oftast fengnir með eimingu eða pressun. Afurðin er samþjappað efni sem sjaldan er notað óþynnt.

Apótek plöntunnar

Allar jurtir innihalda ilmolíur en í mismiklu magni. Ástæðan fyrir því að jurtir innihalda olíurnar er talin vera sú, að veikist plantan á einn eða annan hátt grípi hún til þeirra sér til heilunar. Þannig að segja má að olíurnar séu nokkurs konar apótek plöntunnar. Ilmkjarnarnir eru mjög flóknir að efnasamsetningu, sem gerir að verkum að olíurnar hafa fjölþætta virkni, margir þættir spila saman og auka áhrif hver annars."

Margrét segir olíurnar unnar úr ýmsum hlutum plantnanna og er það misjafnt eftir tegundum. Sumar eru unnar úr blómi, aðrar tré eða stilkum, rót, laufi, ávöxtum, berjum og fræjum. "Hugtakið aromatherapy má skilgreina sem markvissa meðhöndlun með ilmkjarnaolíum undir eftirliti fagmanns með það að leiðarljósi að bæta eða viðhalda góðri andlegri og/eða líkamlegri heilsu, fyrirbyggja og vinna á ójafnvægi ýmiskonar sem þegar er til staðar."

Olíurnar eru notaðar til innöndunar eða í nuddi, en nudd með ilmkjarnaolíum leitast við að koma viðeigandi olíum inn í blóðrásina. "Ef það er rétt framkvæmt örvar það súrefnisríkt blóðflæði til stífra vöðva. Á sömu forsendum eykur það virkni sogæðakerfis og þ.a.l. losun úrgangs og eiturefna frá líkamanum. Nudd af þessu tagi, framkvæmt af góðum meðhöndlara sem hefur tilfinningu fyrir notalegu umhverfi og gæði snertingar, vekur upp parasympatíska (sef) taugakerfið og framkallar slökun," segir Margrét.

Aðrar góðar aðferðir í ilmkjarnaolíumeðferð eru t.d. ilmolíuböð, en þá eru ilmkjarnaolíurnar settar út í baðvatn blandaðar feitum olíum eða rjóma. Þegar meðhöndluð eru afmörkuð svæði á líkamanum eru oft notaðar grisjur vættar í olíublöndum og lagðar á viðkomandi vanda sem gæti stafað af gigt, áverka eða bruna svo eitthvað sé nefnt. Í einstaka tilfellum eru olíurnar notaðar óblandaðar beint á húð en það er óráðlegt nema undir eftirliti fagmanns. Síðast en ekki síst er svo inntaka olíanna gegnum munn, en það meðferðarform er ekki á færi nema þeirra sem hafa mikla þekkingu á innihaldi hverrar olíu því sum efni þeirra geta reynst skaðleg við inntöku. Í öllum þessum tilvikum þarf að hafa í huga, að meira magn þýðir ekki betri eða skjótari árangur því margar olíanna geta snúist upp í andhverfu sína séu þær notaðar í of stórum skömmtum," segir hún.

Hreinar olíur

Margrét segir að hreinar olíur búi yfir lifandi krafti plantnanna og í því felist máttur þeirra. "Gerviefni búa ekki yfir þessum eiginleikum þó þau ilmi eins og útlitið sé áþekkt. Nauðsynlegt er að skipta við reyndan og trúverðugan seljanda. Olíurnar eiga að vera unnar úr lífrænt ræktuðum jurtum, þ.e. ræktuðum í jarðvegi sem hefur ekki komist í snertingu við eiturefni í a.m.k. 7 ár, eða villtum jurtum tíndum í sínu náttúrulega umhverfi," segir hún.

Viðurkenndar olíur eru í dökkum glerflöskum og kemur upprunaland framleiðslunnar fram á miðanum, sem og latneskt heiti plöntunnar sem olían er unnin úr, svo dæmi sé tekið.

"Þótt meðhöndlun með ilmkjarnaolíum sé mild og mjúk aðferð hafa olíurnar styrk til að seilast djúpt í sálartetrið og eru bæði róandi fyrir hugann og upplífgandi fyrir andann og hafa þar af leiðandi óteljandi áhrif á líkamlegu starfsemina," segir Margrét Alice Birgisdóttir að síðustu, en hún starfar hjá heildrænu meðferðarstofunni Fyrir fólk í Kópavogi.