Mísósúpa er upplögð í morgunsárið.
Mísósúpa er upplögð í morgunsárið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heilræði frá dr. Gillian McKeith. Hreinni og léttari líkami eftir hátíðarnar, sjö daga áætlun. Gangi þér vel þessa sjö daga. Þessi áætlun mun auka orku, gleði og hreinsa líkamann. Auk þess getur maður vænst þess að léttast um 1-3 kíló. Kl. 7.

Heilræði frá dr. Gillian McKeith.

Hreinni og léttari líkami eftir hátíðarnar, sjö daga áætlun. Gangi þér vel þessa sjö daga. Þessi áætlun mun auka orku, gleði og hreinsa líkamann. Auk þess getur maður vænst þess að léttast um 1-3 kíló.

Kl. 7. Alla daga þegar farið er á fætur: (Tímasetningarnar má laga að lífsstíl.) Volgt sítrónuvatn. Kreistu svolítinn safa úr sítrónu í volgt vatn. Volgt vatn með sítrónusafa hjálpar manni við að byrja daginn á þægilegan hátt, enda fer það beinustu leið niður í ristilinn og greiðir þar fyrir losun úrgangsefna frá deginum áður. (Kalt vatn snemma á morgnana kemur öllu í uppnám, staðnæmist í maganum og veldur þannig vindi eða þembu).

7.30. 1-2 tsk Living Food Energy-duft hrært út í vatni eða eplasafa, 1 dropi villtir blágrænir þörungar (Liquid Nutrient shot).

7.40. Veldu eitt af eftirfarandi í morgunmat:

Ávexti

Morgunávextina ætti að bera fram við stofuhita. Borðaðu nógu mikið til þess að þú verðir þokkalega södd/saddur og tyggðu vel. Láttu appelsínur eða safa úr þeim eiga sig, þar sem appelsínur innihalda of mikla sýru. Veljirðu vínber skaltu ekki borða aðra ávexti með þeim. Veldu: epli, perur, papaja, ananas, kirsuber, ferskjur, plómur, vatnsmelónur, apríkósur eða ber.

Mísósúpu

Grænmetissafa búinn til úr: 1 agúrku, ¼ úr engiferrót (afhýddri), 4 sellerístilkum, 100 g af refasmáraspírum, 3 greinum af steinselju og 1 gulrót (afhýddri) eða lífrænt ræktaðan grænmetissafa sem þú færð í heilsubúðum.

Quinoa-graut , 1 bolli Quinoa-flögur eða -fræ, 2 bollar vatn smá sjávarsalt soðið í 4-6 mín. 9.30. Tehlé: Drekktu einn til tvo bolla af jurtatei. Ekki drekka te sem inniheldur koffín. Veldu þess í stað: netlu-, fífla-, kamillu-, salvíu- eða sólhattste.

10.00. Ávaxtasafahlé: Veldu árstíðabundna ávexti, nýkreista eða pressaða í vélinni þinni. Ef þú mátt ekki vera að því að kreista safa, bendi ég á lífrænt ræktaða ávaxtasafa sem fást í heilsubúðum og víðar. Ef þér finnst safinn ekki nógu mettandi getur þú bætt út í 1-2 tsk af Living Food Energy-duftinu þar sem það er mjög mettandi. PS! Mundu að aldrei má blanda duftið saman við safa úr sítrusávöxtum.

12.30. Hádegisverður: Veldu eitt af eftirtöldu:

Ferskt salat með spírum.

Fersk mintu- og gúrkusúpa.

Hrátt súrkál.

Korn, t.d. hirsi, frumbyggjanjóli (quinoa), hrísgrjón, amarant.

Eftir að þú hefur soðið kornið skaltu bæta einni eða fleirum af eftirfarandi jurtum út í: dilli, graslauk, kerfli eða fíflablöðum. Berðu fram með diski af spergilkáli, blómkáli, hvítkáli, agúrkum, dökkgrænu blaðsalati, selleríi eða rósakáli.

14.00. Jurtatehlé

14.30. Grænmetis-afeitrunarsafi dr. Gillian. Einnig má notast við lífrænt ræktaða grænmetissafa sem fást í heilsubúðum.

15.00. Jurtatehlé

15.30. Nasl: Fáðu þér sólblómafræ, graskersfræ og/eða hrátt súrkál (ekki meira en 2 msk af fræjum).

16.30. Grænmetishristingur dr. Gillian: 6 gulrætur (með blöðum, ef hægt er), 1 mjúk lárpera (avókadó), 10 basilíkulauf, 1 epli, 1 sítrónusneið. Kreistu safann úr gulrótunum og eplinu með pressunni. Bættu hinu út í og blandaðu í blandara eða matvinnsluvél. Kreistu örlítinn sítrónusafa út í drykkinn. Ef þú hefur ekki tök á því að fá þér þennan hristing, borðaðu og tyggðu vel 1 lárperu (kreistu smá sítrónu út á) og 1 epli. Drekktu 1 glas af vatni hálftíma fyrir og eftir.

18.00. Kvöldverður. 1-2 tsk. Living Food Energy-duft blandað út í vatn eða eplasafa, 1 dropi villtir blágrænir þörungar (Liquid Nutrient Shot). Nú er dagurinn næstum á enda og komið að kvöldverði veldu eitt af eftirfarandi tillögum:

ca 100-150 g af ljósu kjöti og 300-500 g af grænmeti, hráu eða gufusoðnu.

ca 120-170 g af fiski og 300-500 g af grænmeti, hráu eða gufusoðnu.

2 bollar híðishrísgrjón eða quinoa soðið skv. leiðbeiningum og kryddað með sjávarsalti ásamt gnótt af grænmeti að eigin vali.

ca 150-200 g baunaréttur með gnótt af grænmeti að eigin vali.

19.30. Volgt vatn með sítrónu. Kreistu safann úr nýrri sítrónu út í bolla af volgu eða heitu vatni og drekktu.

Mæli með að þú þurrburstir húðina á hverju kvöldi og farið sé af og til í himneskt steinefnabað. Þú átt skilið klapp á bakið. Verðlaunin þín eru frábært bað. Þetta bað er ekki bara ætlað konum. Karlmenn munu einnig njóta þessa róandi, steinefnaríka baðs.

Þegar þú hefur látið renna í karið skaltu setja eftirtalin efni út í (fáanleg í heilsubúðum): 2 tsk línolía, fljótandi steinefni og málmar (basika), 1 tsk fljótandi kísill (silica), 2 tsk aloe vera, 3-4 dropar þín uppáhaldskjarnaolía, t.d. lavender, kamilla, mirra o.s.frv. Þetta verður trúlega dýrasta bað sem þú hefur nokkurn tíma farið í! En hafðu í huga að húðin er stærsta og rakadrægasta líffærið okkar. Og í baðinu munum við þess vegna draga í okkur öll þessi næringarefni inn um húðina og opin á henni, stór sem smá.

21.00. Síðkvöldsnasl: Kjamsaðu á salatblöðum og sellerístilkum fyrir háttinn. (Sellerí er hlaðið magnesíum, sem er afar nærandi og róandi.)

Farðu snemma að sofa (milli kl. 21.30 og 22.30) ef þú getur.

Helstu hreinsunarjurtirnar sem þú skalt nota sem oftast í drykki og til að krydda mat: Eitt eða fleiri eftirtalinna jurta- og plöntublaða getur gefið safanum þínum aukinn kraft. Þú getur annaðhvort pressað laufin í safapressunni eða blandað þau saman við safann í blandaranum. Kryddin eru basilíka, fennika, sítrónugras, graslaukur, garðmynta, kóríander, hvítlaukur, dill og engifer.

Stundaðu einhverja hreyfingu ef þú getur. Ég mæli með göngutúrum minnst 30 mín. á dag. Drekktu minnst 6-8 glös af vatni á dag en aldrei með máltíð. Ef þú hefur hug á að léttast meira þá ráðlegg ég þér að notast við ofangreind matvæli í ríkum mæli, borðaðu oft á dag en þá minni skammta í einu. Living Food Energy-duftið er mjög mettandi og hefur hjálpað mörgum við að seðja hungurtilfinninguna, bæta meltinguna og jafna blóðsykurinn. Það er ensímríkt, sem hjálpar þér að melta matinn sem skilar sér m.a. í meiri orku.

Ástarkveðjur, Gillian.