VIÐ Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði hefur um árabil verið staðið fyrir aðstoð við þá sem vilja hætta að reykja.
"Við höfum bæði boðið upp á sérnámskeið, vikulangt, fyrir þá sem vilja hætta að reykja, og einnig boðið almennum dvalargestum upp á aðstoð við að hætta reykingum, " segir Bee McEvoy, verkefnisstjóri hjá HNLFÍ.
En hvernig eru sérnámskeiðin skipulögð?
"Um er að ræða árslangan stuðning við reykingafólk sem kemur á 7 daga námskeið okkar hér hjá HNLFÍ," segir Bee.
"Á námskeiðinu hjálpum við fólki að hætta að reykja og undirbúa sína reyklausu framtíð. Í upphafi aðstoðum við fólkið við að fara gegnum fráhvarfstímabil en eftir það aðstoðum við fólkið við að breyta þeirri hegðun sem þarf að breyta til að geta verið reyklaus."
Hvernig er árangurinn? "Hann er mjög góður, þegar við gerðum síðast úttekt á hóp eftir árs aðstoð voru 45% af þeim sem tók þátt ennþá reyklaus.
Það fólk sem kemur til okkar á vikunámskeiðin er oftast stórreykingafólk sem hefur reykt lengi og gert margar tilraunir til að hætta."
Hvað veitist fólkinu erfiðast?
"Í upphafi er það fráhvarfið. Það lýsir sér í mikilli vanlíðan svo sem þreytu, pirringi, höfuðverk, svefntruflunum, eirðarleysi og löngun í tóbak. Þetta er afleiðing tóbaksfíknarinnar. Fráhvarf nær hámarki á fyrstu vikunni og eftir mánuðinn eru fráhvarfseinkenni meira og minna farin. En þá er eftir að læra að lifa lífinu án tóbaks."
Hvað er erfiðast við það að sögn reykingafólksins?
"Það er að fara í gegnum daglegar athafnir án tóbaksins sem verið hefur hluti af hinu hversdagslega frá því kannski að fólk er táningar. Sumir segja að þeir hafi "misst besta vininn". En í sjálfu sér er tóbakið versti óvinurinn, þótt fólk getið upplifað það sem hjálp í neyð."
Er mataræði mikill þáttur í námskeiðinu há ykkur?
"Já, það er það. Kenning okkar hér snýst um mjög heilbrigt viðhorf til mataræðis. Við leggjum áherslu á reglulegt og hollt fæði. Það er ekki óalgengt að reykingafólk hafi mjög óreglulegar matarvenjur. Það borðar oft ekki fyrr en upp úr hádegi, lifir á kaffi og sígarettum á morgnana. Við leggjum því mikla áherslu á að inn komi reglubundnir matmálstímar. Um leið hjálpar það gegn fráhvarfseinkennum að borða reglulega.
Fyrstu vikuna hvetjum við fólk til að drekka mikið vatn og borða ávexti, það reynist vel."
Hvað um leikfimi og göngur?
"Í dagskránni sem fólk fær afhenta þegar það kemur á námskeiðið er stór hluti hreyfing. Göngur, leikfimi, sund og útivera. Þar á móti leggjum við mikla áherslu á slökun, við kennum fólki slökunaræfingar. Dagskráin hefst á sunnudagskvöldi þegar fólk kemur í húsið og stendur fram á laugardag viku seinna. Svo er haft samband við þátttakendur eftir mánuð, sex mánuði og tólf mánuði og einnig erum við með símatíma þar sem fólk getur hringt í okkur einu sinni í viku."
Hvernig er best að undirbúa sig fyrir þessi námskeið?
"Árangurinn er betri ef fólk hefur undirbúið sig huglægt í nokkurn tíma. Kannski er helsti undirbúningurinn fólginn í því að ákveða að hætta og hugsa um hvernig haga má lífinu þegar viðkomandi er hættur reykingum. Gott er að fólk hafi þegar gert breytingar á reykingavenjum sínum þegar það kemur hingað á HNLFÍ.
Ef fólk vill nota lyfjameðferð eins og t.d. Zyban, verður það að útvega sér efnið hjá lækni áður en það kemur til okkar. Þetta lyf fór á markað sem þunglyndislyf en fljótlega kom í ljós að fólk sem tók þetta missti löngun til að reykja. Þetta er ekki töfralausn og fólk þarf að fara í gegnum ferlið að hætta að reykja. En það hjálpar í sumum tilvikum.
Hvað nikótínlyfin snertir hjálpum við fólki að meta hvort það hefur þörf fyrir slíkt. Óháðar rannsóknir sýna að fólki vegnar betur eftir ár ef það notar nikótínlyf. Aðrar rannsóknir sýnar að fólki sem hreyfir sig mikið vegnar líka betur í reykingabindindinu.
Þess ber að geta að það er hópur fagfólks sem annast námskeiðin sem við bjóðum upp á til að hjálpa fólki sem vill hætta að reykja.
Hægt er að skrá sig beint á námskeiðin hjá okkur án þess að hafa lækni sem millilið og námskeiðin eru haldin þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þau komast tíu manns í senn. Upplýsingar má finna á heimasíðu okkar www.hnlfi.is eða með því að hringja beint til okkar í síma 483 0300. Námskeiðið kostar frá 36 þúsund kónum upp í 48 þúsund krónur - eftir því hvernig herbergjum er dvalið í."
En hvernig berið þið ykkur að því að aðstoða hina almennu dvalargesti við að hætta að reykja?
"Við innlögn er spurt um reykingar. Þeim sem reykja er strax boðið upp á aðstoð við að hætta. Sú aðstoð er mjög svipuð þeirri sem við bjóðum upp á í 7 daga sérnámskeiðinu, það er stuðningur, fræðsla, hreyfing, hollt mataræði og líka eftirfylgni í ár. Þessi stuðningur er í höndum hjúkrunarfræðinga HNLFÍ og árangurinn af þessu virðist mjög góður einnig."