Þorsteinn Gíslason með dóttur sína Dagnýju Þóru, 4 ára. Hann les nú glaður barnabækurnar með henni þeim báðum til ánægju.
Þorsteinn Gíslason með dóttur sína Dagnýju Þóru, 4 ára. Hann les nú glaður barnabækurnar með henni þeim báðum til ánægju. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Talið er að 35 þúsund Íslendingar eigi við mismikla lestrarörðugleika að etja. Jóhanna Ingvarsdóttir skyggnist inn í heim Þorsteins Gíslasonar, sem kætist nú mjög yfir því að hafa sótt sér hjálp.

Þetta ferli hefur svo sannarlega opnað mér nýja sýn og nú lifi ég í gjörbreyttum heimi. Áður lifði ég í heimi lesblindunnar þar sem ég lét mér nægja að lesa fyrirsagnir í dagblöðum, átti mjög erfitt með að fylgjast með skjátexta í sjónvarpinu og forðaðist bækur eins og heitan eldinn," segir Þorsteinn Gíslason, 36 ára málmsteypumaður hjá Málmsteypunni Hellu í Hafnarfirði.

Eftir að Þorsteinn ákvað að sækja sér hjálp með styrk frá stéttarfélaginu sínu, Félagi járniðnaðarmanna, var hann frá fyrsta degi sannfærður um að hann væri að stíga skref í rétta átt. "Ég hef alla tíð átt mjög erfitt uppdráttar í skóla og hafa einkunnir mínar í gegnum tíðina borið vott um það. Ég lét mig þó hafa það að fara í iðnnám í Iðnskólanum í Hafnarfirði þar sem ég lærði málmsteypu, en óhætt er að segja að sú skólaganga hafi verið bæði kvöl og pína. Allur lestur verður mjög erfiður. Hugurinn fer á eitthvert hugarflakk í tímum og þá vill verða erfitt að halda einbeitingunni við kennarann og efnið. Það var mjög gott að fá sjálfsstyrkingu í byrjun námskeiðsins því flestir þeir, sem stríða við lesblindu, eru að burðast með skerta sjálfsmynd í þokkabót við allt annað. Ég varla trúði árangrinum af námskeiðinu sjálfur þegar upp var staðið. Núna les ég fréttir í dagblöðum, næ að fylgjast vel með skjátexta í sjónvarpi og einbeiti mér miklu betur en áður. Dóttir mín, Dagný Þóra, sem er fjögurra ára, er sömuleiðis farin að biðja pabba sinn um að lesa fyrir sig barnabækurnar, sem ég get nú loksins gert skammlaust. Hún vildi það ekkert áður því ég ruglaði öllu saman og las ekkert rétt. Hún var fljót að fatta það enda var enginn þráður í lestrinum hjá mér," segir Þorsteinn og bætir við að hann stefni nú að þriggja ára háskólanámi í véliðnfræði við Háskólann í Reykjavík frá og með næsta hausti.

Þorsteinn var í hópi tíu manna, sem útskrifuðust um mitt ár. Að loknu námskeiðinu útbjó hann listaverk, sem nemendahópurinn færði Mími-símenntun að gjöf við útskrift og lýsir vel þeirri tilfinningu, sem fylgir því að sigrast á lesblindunni.

Fjármögnun helsta vandamálið

Mikil þörf er fyrir úrræði fyrir lesblinda og fólk með lesraskanir í þjóðfélaginu. Lesblindir hafa margir hverjir lent í verulegum erfiðleikum í skólakerfinu og því er brýnt að bjóða upp á námskeið, sem sérstaklega tekur á og leiðréttir lesblindu. Námskeiðið "Aftur í nám" á vegum Mímis-símenntunar stendur yfir í 95 kennslustundir. Þar af fer stór hluti námsins fram í einstaklingskennslu og eru lesblindir leiðréttir með aðferðum Ron Davis-tækninnar. Námskeiðið hefst með sjálfsstyrkingu, en jafnframt er kennd námstækni, íslenska og ritvinnsla í tölvum auk þess sem allir nemendur fá námsráðgjöf.

"Ef ástandið er líkt og í nágrannalöndunum, þá er ekki ólíklegt að ætla að um 8% íslensku þjóðarinnar séu lesblind. Það svarar til fimmtán þúsund Íslendinga á aldrinum 15 til 65 ára sem eiga við mjög mikla eða umtalsverða lestrarörðugleika að etja. Til viðbótar eiga um tuttugu þúsund Íslendingar í nokkrum vandræðum vegna lítillar lestrarfærni. Samanlagt eru þetta því um 35 þúsund Íslendingar sem eiga við mismikla lestrarörðugleika að etja," segir Hulda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Mími-símenntun.

Hátt í fimmtíu manns hafa farið í gegnum lesblinduleiðréttingaferli hjá Mími-símenntun síðan farið var að bjóða upp á slík námskeið árið 2004. Fjórir hópar hafa nú þegar verið útskrifaðir og stefnt er að áframhaldandi námskeiðahaldi þar sem þörfin er brýn. "Hjá okkur er langur biðlisti, en helsta vandamálið okkar er að það gengur illa að finna fjármögnun. Mjög mörg stéttarfélög hafa stutt mjög myndarlega við bakið á sínum félagsmönnum og borgað allt að 90% af kostnaði. Á hinn bóginn eru til fjölmörg dæmi um að lesblint fólk, sem þarf svo sannarlega á leiðréttingu að halda, sé ekki í stéttarfélagi og hafi þar af leiðandi ekki bolmagn til að greiða 215 þúsund króna námskeiðsgjald," segir Hulda að lokum.

join@mbl.is

Næsta námskeið undir yfirskriftinni "Aftur í nám" hjá Mími-símenntun hefst 24. janúar og munu fræðslusjóðir ýmissa stéttarfélaga styrkja sína félagsmenn til námsins auk þess sem menntamálaráðuneytið hefur veitt styrk til námsins.
Höf.: join@mbl.is