María Jensen fæddist í Hvammi í Vallahreppi í Suður-Múlasýslu 1. apríl 1922. Hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi aðfaranótt 27. desember síðastliðins. Foreldrar hennar voru Þórey Arngrímsdóttir saumakona, f. 10.5. 1892, d. 30.7. 1964, og Markús Jensen, f. 14.1. 1897, d. 14.12. 1965, kaupmaður á Eskifirði og víðar. Markús var sonur Wilhelms Jensen stórkaupmanns á Eskifirði og í Reykjavík og Þórunnar Markúsdóttur en hún var dóttir Markúsar Einarsson prests í Stafafelli í Lóni. María eignaðist einn hálfbróður sammæðra sem er látinn og fjögur hálfsystkini samfeðra.

María fór ung í fóstur að Litla-Sandfelli í Skriðdal. Hún vann almenn sveitastörf sem unglingur og gekk í farskóla sem var í sveitinni og fór síðar í kvöldskóla í Reykjavík og lagði stund á almenn fög. María fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað.

María giftist 2. september 1944 Steingrími Vigfússyni Ísfeld, f. 12.8. 1918, d. 25.1. 1975, innheimtumanni. Foreldrar hans voru Aldís Sigurgeirsdóttir húsmóðir og Vigfús Sigfússon verkamaður en þau bjuggu á Raufarhöfn. Dóttir Maríu og Steingríms er Sveinfríður Kristbjörg Steingrímsdóttir, f. 6.7. 1947, fóstra. Eiginmaður hennar er Baldur Sigurðsson, f. 8.9. 1948, símvirki. Dóttir þeirra er María Steingerður Jensen Baldursdóttir, f. 11.5. 1971, gift Sighvati Gunnari Haraldssyni, f. 4.6. 1974. Börn þeirra eru Viktor Steinn Sighvatsson, f. 5.6. 2001, og Sylvía Karolína, f . 20.1. 2005.

María og Steingrímur fluttu til Akureyrar 1947 og bjuggu þar í 11 ár. Þau fluttust svo til Reykjavíkur 1958. María vann á saumastofu Belgjagerðarinnar og hjá Iðunni, barnaheimilum og á Hrafnistu.

Útför Maríu verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma mín. Nú ertu farin frá mér og ég sakna þín svo mikið.

Ég elskaði þig svo mikið. Það er svo erfitt að geta ekki hringt í þig og talað við þig eins og ég var vön að gera næstum hvern einasta dag og stundum oft á dag. Og Viktor Steinn sagði: "Hver á nú að búa í ömmuhúsi og hvar fáum við nýja langömmu?"

Ég var svo heppin að fá að alast upp hjá þér og líka að fá að bera nöfnin þín. Við sátum oft saman á daginn og hlustuðum á síðdegissöguna á Rúv og fimmtudagsleikritin.

Þú tókst þátt í öllu mínu lífi í gleði og sorg, sigrum og ósigrum. Sama hvað var, þú stóðst alltaf með mér og huggaðir mig ef eitthvað bjátaði á.

Þú kenndir mér svo margt og þú áttir líka eftir að kenna mér svo margt, t.d. bakaði enginn eins góðar pönnukökur og þú. Ég sagði við þig fyrir stuttu að þú yrðir nú að kenna mér að baka þær.

Þú varst líka ótrúlega mikil hannyrðakona, allar myndirnar sem þú varst búin að sauma, föt á mig er ég var yngri og allar peysurnar sem þú prjónaðir á barnabörnin þín tvö. Varst meira að segja með tvær peysur rétt ókláraðar á þau.

Nú þegar þú ert dáin streyma fram svo margar minningar um þig. Ein af mínum fyrstu bernskuminningum er þegar þú sast með mig innpakkaða í sænginni minni og söngst mig í svefn. Þannig var best að sofna. Þú kenndir mér líka svo mikið af söngvum og kvæðum sem ég syng nú fyrir Viktor Stein og síðar mun ég syngja þau fyrir Sylvíu Karolínu.

Þú varst líka svo dugleg að lesa fyrir mig sögur á kvöldin áður en ég fór að sofa. Enn gátum við hlegið að einu atviki: Þú varst orðin þreytt en varst samt að lesa fyrir mig og hálfsofnaðir við lesturinn, setningin átti að vera: "Vertu nú dugleg á spítalanum, Sigrún mín," en kom út hjá þér: "Vertu nú dugleg í rabarbaranum, Sigrún mín."

Kannski hefurðu verið að hugsa um að gera rabarbarasultu eins og þú gerðir svo oft.

Þú varst svo sterk manneskja, þið afi voruð nýbúin að kaupa húsið ykkar þegar hann dó. En þú gast borgað af öllu og mikið varstu ánægð fyrir nokkrum árum þegar það var allt að baki.

Myndir af þér frá því þú varst ung sýna hvað þú varst stórglæsileg, alltaf í kjólum og fín. Ég fékk nú að nýta suma flottu kjólana þín, þú bara hjálpaðir mér að breyta þeim aðeins.

Þú sagðir mér svo oft sögur frá því þú og afi voruð á Kristnesi en þar börðust þið bæði við berkla.

Þú trúðir á líf eftir dauðann og að hinir látnu vaki og fylgist með þeim sem eftir lifa. Því trúi ég því að þú sért nú loksins komin til afa, hestanna þinna og allra hinna sem voru farnir á undan. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna og að þú haldir verndarhendi yfir okkur.

Þú sagðir mér frá álfum og huldufólki. Manstu eftir litla álfinum þínum í fallegu peysunni sem þú sást stundum. Við sögðum líka oft ef eitthvað hvarf heima: "Nú hefur einhver fengið þetta lánað."

Þú fórst til spákonu þegar þú varst ung, en þú vildir ekki segja mér allt sem hún hafði sagt þér en eitt merkilegt sagði hún sem rættist: að þú myndir ala upp tvær Maríur.

Þegar þið bjugguð á Akureyri tókuð þið Maríu Kristinsdóttur í fóstur um tíma og svo ólst ég upp hjá þér.

Þú kenndir mér líka að trúa að lífið er ákveðið fyrir okkur, við stjórnum því upp að vissu marki.

Þú varst líka mjög vel að þér í stjörnumerkjum, gast stundum bara með því að fylgjast með manneskjunni séð í hvaða merki hún var.

Hestarnir þínir voru þér svo mikils virði, meira að segja kvöldið áður en þú lést fórstu að gefa þeim. Þú varst hörkukona.

Daginn fyrir Þorláksmessu fórum við upp í kirkjugarð og settum jólaljós á leiðið hans afa, við ætluðum svo að kíkja þangað aftur með kerti milli jóla og nýárs. Ekki grunaði mig þá að ég færi til að fylgja þér síðustu sporin.

Þú varst líka svo duglega að passa Viktor Stein fyrir mig ef ég þurfti að skjótast frá og ekki þóttu þér síðri heimsóknir okkar Sylvíu Karolínu. Þau tvö voru gimsteinarnir þínir.

Takk fyrir alla hjálpina í sumar með þau tvö er ég var á spítala.

Þú varst líka alltaf syngjandi og raulandi. Þú sagðir mér einu sinni að ef aðstæður hefðu verið aðrar þegar þú varst ung þá hefðir þú lært söng og jafnvel óperusöng.

Eins og ég sagði þegar þú lést: Árið hófst með gleði vegna fæðingar Sylvíu og árið endar í dauða og sorg.

Þú fórst aldrei til útlanda en nú ertu farin í þitt stærsta og mesta ferðalag. Það er skrýtið til þess að hugsa að þú skyldir fara á jólum en það var uppáhaldstíminn þinn. Þú skreyttir svo fallega og bakaðir fjöldann allan af smákökum og brúnu lagkökuna og þessi jól voru engin undantekning. Þú gafst okkur öllum svo fallegar jólagjafir. Stundum dettur mér í hug að þú hafir vitað að þú varst að fara.

Ég sakna þín svo sárt, en, elsku amma, takk fyrir að koma til mín nóttina sem þú dóst, það er mér mikils virði. Ég sé þig fyrir mér eins og þú varst daginn áður en þú lést, með blik í augum og brosandi út í annað. Þannig mun ég alltaf muna þig í hjarta mínu.

Guð blessi þig og við sjáumst síðar.

Þín

María Steingerður Jensen.

Þegar María er öll, koma í hugann minningabrot frá æskuárunum. Hún ólst upp á Litla-Sandfelli hjá ömmu minni og afa, Kristbjörgu og Jóni, en þau tóku hana í fóstur þegar hún var á öðru ári. Fyrir áttu þau þrjú uppkomin börn, Björgu, Runólf og Gróu. Eftir andlát Jóns tók Runólfur við búinu. Hann bjó þar með móður sinni fyrst í stað og seinna með eiginkonu sinni Vilborgu Jónsdóttur, sem hann kvæntist árið 1926. Þau eignuðust átta börn og því var oft mannmargt á bænum.

Ég minnist þess hvað María var lífsglöð og smitandi hlátur hennar gleymist ekki. Ég heyrði föður minn oft segja: ,,Hún María mín var svo ljúft og yndislegt barn. Hún óx og dafnaði og ég man hvað hún var glæsileg þegar hún var fermd. Hún var í hvítum kyrtli og með fallegan höfuðbúnað, bar slör og gullspöng eins og álfkona. Hennar mesta prýði var þykkt og jarpt hárið, sem hún hélt til hins síðasta.

María gekk í öll sveitastörf úti og inni með hinu fólkinu og var mjög liðtæk. Í minningunni sé ég þær fóstursystur og móður mína við hvers kyns handverk svo sem útsaum, hekl og prjónaskap.

María tók miklu ástfóstri við eina glókollinn í fjölskyldunni, Jón, elsta bróður minn. Hún var mikil hestakona og þegar Jón fermdist gaf hún honum jarpskjótt folald.

Eins og títt var í þá daga var ráðinn á heimili foreldra minna ungur vinnumaður, Steingrímur Vigfússon. Hann var einstakur geðprýðismaður og mikill ljúflingur. Með þeim þróaðist samband sem stóð þar til hann lést fyrir aldur fram árið 1975. Mikið ástríki var milli þeirra hjóna og dótturinnar Kristbjargar og var missir þeirra mæðgna mikill við fráfall Steingríms.

Þau voru öll miklir dýravinir, höfðu yndi af hestamennsku og áttu alltaf hesta. Ég get hugsað mér að Steingrímur hafi beðið Maríu sinnar í nýjum heimkynnum með fallegan gæðing í taumi.

Elsku Lilla, María og aðrir vandamenn, ég votta ykkur samúð mína.

Ingibjörg Runólfsdóttir.

Elsku María, hér sit ég og skrifa nokkrar línur um konu sem var mér sem móðir, frá fæðingu minni fyrir 50 árum.

Þið Steingrímur fluttuð til afa Munda og ömmu Maríu, þá nýkomin af Kristnesi eftir tveggja ára veru þar vegna berkla, og ekkert húsnæði að fá á þeim tíma á Akureyri. Þar hófust kynni fjölskyldna okkar. Upp frá þeim tíma hófust mikil og góð kynni sem varðveitast enn þann dag í dag.

Í þá daga var ekkert fæðingarorlof, og þá voruð þið til staðar fyrir mig og dekruðuð við mig meðan mamma mín vann úti til að sjá okkur farborða.

Seinna fluttuð þið til Reykjavíkur. Þá var ég flutt suður með mömmu minni og gat farið til ykkar Steingríms og farið á hestbak, horft á hestamannamótin hjá Fáki, og heimsótt Steingrím í vinnuna en hann vann í Fálkanum. Svo gat ég farið ein með Akraborginni og þið tókuð alltaf á móti mér. Það var alltaf gaman að fara með Lillu einkadóttur ykkar að skoða hestana en ég var nú frekar hrædd við þá í byrjun, og enn þá finnst mér betra að horfa bara á dýrin gegnum glerið en vera í návist þeirra.

En svo stofnaði Lilla heimili með Baldri sínum, og þá fæddist þeim stór sólargeisli, María Steingerður, eina barn þeirra sem var þitt líf og yndi. Alltaf varstu svo hreykin af öllu sem María Steingerður gerði.

Ég man eftir brúðkaupsdegi hennar. Þú varst svo stolt af þessu unga fólki Maríu og Sighvati, enda voru þau stórglæsileg og veislan eftir því. Þegar ég átti afmæli í haust voruð það þið mæðgurnar allar sem ég vildi að yrðuð í afmælinu mínu nr. eitt, tvö og þrjú, vegna þess að þið hafið alltaf verið hjá mér á mínum stóru stundum gegnum tíðina, en þið komust ekki í afmælið mitt. Við mamma heimsóttum þig viku síðar og áttum góðar stundir saman með Maríu Steingerði og litlu gullmolunum hennar, Viktori Steini og Sylvíu Karolínu. Mikið geislaði þá af þér.

Ég er mjög fegin að hafa heimsótt þig stuttu fyrir jól og skilið eftir smájólakveðju til þín, elsku María mín.

Ég og fjölskylda mín sendum Lillu, Baldri, Maríu Steingerði, Sighvati og barnabörnunum samúðarkveðju og erum með ykkur í sorg ykkar.

Kveðja.

María Kristins og fjölskylda.

Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, þetta sannaðist nú um jólahátíðina. Ég átti erfitt með að skilja þegar síminn hringdi og mér sagt að María föðursystir mín væri látin. Ég var búin að undirbúa jólaboð þennan dag, þar sem hún átti að vera meðal frændfólksins, en ekkert varð af því, hún lést skyndilega aðfaranótt 27. des. Ég hafði hitt hana káta og hressa að vanda á Þorláksmessu og við ákváðum að hittast í jólaboði hjá mér.

María frænka var myndarhúsmóðir sem alltaf tók vel á móti manni þegar litið var inn til hennar. Hún var mikil hestakona og hélt ávallt hesta með eiginmanni sínum meðan hann lifði. Eftir fráfall hans fékk hún dyggan stuðning dóttur sinnar. Þetta var fasti punkturinn í tilverunni hjá Maríu og kunni hún alltaf góðar sögur af hestunum sínum þegar við hittumst. Í Samtúninu bjó María ásamt dóttur, tengdasyni og lengstum dótturdóttur. Í húsinu eru tvær íbúðir og bjó hún uppi, en dóttir og tengdasonur niðri. Þannig gat barnabarnið hún María, augasteinninn hennar, verið jafnt á báðum hæðum. Fékk María einnig að njóta langömmubarna sinna því þau komu oft til hennar. Þau gáfu henni mikla lífsfyllingu og stolt var hún af afkomendum sínum, það fann maður svo vel. Hún hafði góðan húmor og sá oft spaugilegu hliðarnar á lífinu. Hún var ung í anda alla tíð og kvik í hreyfingum.

Við systurnar og fjölskyldur okkar viljum þakka Maríu frænku allt það góða sem hún hefur gert okkur. Hennar verður sárt saknað.

Megi góður Guð gefa fjölskyldu hennar styrk á þessum erfiðu tímum.

Áslaug Þorsteinsdóttir.

Látin er í Reykjavík heiðurskonan María Jensen. Við systkinin viljum heiðra minningu hennar með nokkrum orðum. Amma okkar, Sigríður Pétursdóttir, og Þórey Arngrímsdóttir, móðir Maríu, voru uppeldissystur, aldar upp í Hvammi á Völlum í Suður-Múlasýslu. María var tengd ömmu okkar tilfinningaböndum og vináttan við Maríu tengist minningu Siggu ömmu okkar. Frá því að við systkinin munum eftir var mikill samgangur milli heimilis okkar og heimilis þeirra Maríu, öðlingsins Steingríms og dóttur þeirra, hennar Lillu.

María var greind kona með ákveðnar skoðanir. En það var í góðu lagi. Hún fylgdist vel með mönnum og málefnum og var með góðar forsendur til að mynda sér skoðanir á eigin spýtur. Með fjölskyldu okkar fylgdist hún vel, vildi fá að vita hvað við hefðum fyrir stafni og hvað afkomendur okkar væru að gera.

Við eigum minningar um jólaboð, hesthúsaferðir og árvissar heimsóknir á aðfangadag. En ekki síður um lífsgildi eins og velvild, ræktarsemi, tryggð og vináttu. Kærar þakkir fyrir tryggð við foreldra okkar og fjölskyldu.

Vegir skiptast. Allt fer ýmsar leiðir

inn á fyrirheitsins lönd.

Einum lífið arma breiðir,

öðrum dauðinn réttir hönd.

Einum flutt er árdagskveðja,

öðrum sungið dánarlag,

allt þó saman knýtt sem keðja,

krossför ein með sama brag.

Veikt og sterkt í streng er undið,

stórt og smátt er saman bundið.

(Einar Ben.)

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Árdís Ívarsdóttir, Hannes Eðvarð Ívarsson og Gísli Bergsveinn Ívarsson.