— Ljósmynd/Snorri Emilsson
Seyðisfjörður | Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur samþykkt að öll börn með lögheimili í sveitarfélaginu eigi frá eins árs aldri til og með fimm ára rétt á fjögurra tíma dvöl á leikskóla bæjarins án endurgjalds, á starfstíma skólans.

Seyðisfjörður | Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur samþykkt að öll börn með lögheimili í sveitarfélaginu eigi frá eins árs aldri til og með fimm ára rétt á fjögurra tíma dvöl á leikskóla bæjarins án endurgjalds, á starfstíma skólans. Frekari dvöl og fæðiskostnaður greiðist skv. gjaldskrá. "Þetta er búið að gerjast í nokkurn tíma, allt frá hugmynd til framkvæmdar í gegnum félög og ráð," segir Snorri Emilsson, ferða- og menningarfulltrúi Seyðisfjarðar. "Fyrsta skrefið í átt að gjaldfrjálsum leikskóla var tekið fyrir um ári síðan, þegar leikskólinn var gerður gjaldfrjáls í fjóra tíma fyrir fimm ára börnin, eða elsta árganginn. Þetta er annað skrefið og það er von margra að þau verði fleiri."

Þess má og geta að sveitarstjórn Austurbyggðar hefur samþykkt að veittur verði gjaldfrjáls leikskóli fyrir elsta árgang leikskólabarna í Austurbyggð frá kl. 8-12 nú frá áramótum.

Á meðfylgjandi mynd er Sigurður O. Sigurðsson leiðbeinandi í leikskólanum á Seyðisfirði ásamt (f.v.) Óla J. Gunnþórssyni, Ara B. Símonarsyni, Gunnari Einarssyni, Jóni V. Péturssyni og Kapítólu R. Stefánsdóttur.