Á ÁRINU 2005 fórust 1.059 manns í 35 flugslysum þar sem við sögu komu áætlunarflugvélar með meira en einum hreyfli og sem tóku ekki færri en 14 farþega. Á árinu voru farþegar með vélunum hins vegar meira en tveir milljarðar.
Fjöldi látinna á síðasta ári var raunar helmingi meiri en 2004 en þó heldur minni en meðaltalið síðasta áratug en það er 1.095.
Þessar tölur eru komnar frá flugöryggisstofnuninni Aviation Safety Network og yfirfarnar af dönsku flugmálastofnuninni að því er sagði á fréttavef Berlingske Tidende . Þær þýða í stuttu máli, að farþegaflugið, áætlunarflugið, er ótrúlega öruggur ferðamáti.