Hólmfríður Garðarsdóttir
Hólmfríður Garðarsdóttir
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hefur gefið út þrjú rit eftir fræðimenn stofnunarinnar um rannsóknir þeirra á spænskri tungu og bókmenntum frá Rómönsku-Ameríku. Fyrst er að geta bókar dr.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hefur gefið út þrjú rit eftir fræðimenn stofnunarinnar um rannsóknir þeirra á spænskri tungu og bókmenntum frá Rómönsku-Ameríku.

Fyrst er að geta bókar dr. Violu Miglio, lektors í spænsku, Markedness and Faithfulness in Vowel Systems. Bókin kom út í ritröðinni "Outstanding Dissertations in Linguistics, flokki fræðirita sem gefin er út af hjá hinu virta útgáfufyrirtæki Routledge í New York, og byggist á doktorsritgerð hennar við Háskólann í Maryland í Bandaríkjunum.

Rómönsk mál og hljóðkerfisfræði þeirra eru aðalefni bókarinnar, svo og samanburður milli sérhljóðakerfa og málbreytinga. Viola Miglio notar nýja kenningu í hljóðkerfisfræði innan málkunnáttumálvísinda, hina svokölluðu bestunarkenningu, í rannsókn sinni. Samkvæmt henni eru hljóðkerfisfræðilegar myndir í samkeppni hver við aðra og sú sem brýtur færri hömlur verður ofan á. Með hjálp þessarar kenningar útskýrir Viola hvernig bera megi saman breytileg sérhljóðakerfi rómanskra mála (m.a. ítölsku, portúgölsku og spænsku). Hún beitir einnig aðferðinni við greiningu nútímatungumála og 16. aldar ensku til að setja fram kenningar um hvernig breyting sú sem kallast "Great Vowel Shift" gæti hafa átt sér stað. Þessi breyting orsakar, til dæmis, að orð sem náskyld eru íslensku orðunum mús eða tími eru borin fram með tvíhljóð í ensku: [maus] "mouse" og [tajm] "time".

Höfundurinn útskýrir ítarlega ýmsar málbreytingar og hve mikilvægu hlutverki rómanskar mállýskur gegna í málvísindalegum rannsóknum. Í tveimur köflum bókarinnar gerir Viola grein fyrir rannsóknum sínum á framandi mállýskum frá Mantova-svæðinu á Norður-Ítalíu og fjallar um katalónskar, portúgalskar og aðrar mállýskur ólíkra rómanskra tungumála. Viola hefur haldið fyrirlestra um rannsóknarefni sitt víða um heim að undanförnu.

Síbreytileg sjálfsmynd kvenna

Bók dr. Hólmfríðar Garðarsdóttur, lektors í spænsku, ber titilinn La reformulación de la identidad genérica en la narrativa de mujeres argentinas [Endurskoðun sjálfsmyndar kynjanna í ritverkum argentínskra kvenna]. Bókin kom út í Buenos Aires fyrir skömmu í ritröðinni "Nueva Crítica Hispanoamericana" hjá útgáfufyrirtækinu Corregidor sem sérhæfir sig í útgáfu fræðirita á spænsku um argentínsk þjóðfélags- og menningarmál auk bókmennta.

Aðalefniviður bókarinnar er síbreytileg sjálfsmynd kvenna og átök við staðlaðar hugmyndir um samfélagslegt hlutverk þeirra. Í rannsóknum sínum hefur Hólmfríður sérstaklega beint sjónum að skáldsögum eftir konur í Argentínu, sem gefnar voru út á árunum 1980-2000. Rök eru færð fyrir því að í þeim hefði mátt sjá fyrir uppþotin í árslok 2001 þegar hundruð þúsund manna, undir forystu argentínskra kvenna, gerðu borgaralega uppreisn gegn stjórnvöldum. Hólmfríður sýnir fram á að aukna samkennd og samstöðu kvenna megi rekja til aukins sjálfstyrks og jákvæðrar sjálfsímyndar og að þessir þættir séu forsendur þess að konurnar ákváðu að grípa til sinna ráða. Þrátt fyrir vísbendingar um yfirvofandi uppreisn kom það yfirvöldum í opna skjöldu þegar konur fylltu götur og torg Buenos Airesborgar með skaftpotta að vopni og ærðu óeirðalögregluna með yfirþyrmandi hávaða.

Hólmfríður hefur að undanförnu haldið fyrirlestra um rannsóknir sínar víða um heim m.a. á Norðurlöndunum, Spáni, Bretlandi, Bandaríkjunum og í Argentínu. Í kjölfar útkomu fræðiritsins hefur Hólmfríði verið boðin aðild að Vísindaakademíu Argentínu [Sociedad Científica Argentína].

Málvitund í króníkum fyrri alda

Þriðja bókin, La conciencia lingüística. Nuevas aportaciones de impresiones de viajeros , kom út í Barcelona snemma árs 2005. Hér er á ferðinni safn greina um niðurstöður fræðimanna sem hafa rannsakað hvernig málvitund birtist í ferðabókum og króníkum fyrri alda. Flestir fræðimannanna tengjast Háskólanum í Barcelona með einum eða öðrum hætti. Ritstjórar bókarinnar eru dr. Emma Martinell Gifre, prófessor við Háskólann í Barcelona og formaður Málvísindafélags Spánar (La Sociedad Española de Lingüística), og dr. Erla Erlendsdóttir, spænskukennari við Háskóla Íslands.

Í bókinni er meðal annars grein eftir dr. Erlu Erlendsdóttur um málvitund í Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða. Hún fjallar um hvort fram komi upplýsingar um það hvernig persónur bókanna, til dæmis indíánar í Ameríku og norrænir menn, sem töluðu ólík tungumál höfðu samskipti hver við aðra, til dæmis með látbragði og handapati.

Leiðrétting 7. janúar - Erlendir útgefendur

Rangt var hermt í inngangi fréttar í blaðinu hinn 3. janúar að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefði gefið út þrjár bækur um spænska tungu og bókmenntir Rómönsku Ameríku. Hið rétta er að höfundar bókanna eru fræðimenn við stofnunina en útgefendur bókanna eru erlendir eins og fram kemur síðar í fréttinni. Er beðist velvirðingar á þessu.