Kathmandu. AFP. | Skæruliðar í Nepal, sem berjast fyrir myndun kommúnísks ríkis, lýstu í gær yfir því að fjögurra mánaða einhliða vopnahlé þeirra í bardögum við stjórnarherinn væri á enda runnið.
Stjórnmálaflokkar landsins sem og Sameinuðu þjóðirnar höfðu ákaft hvatt skæruliðana, sem eru yfirlýstir fylgismenn kenninga Maós formanns, fyrrum leiðtoga Kína, til að framlengja vopnahléið.
"Fjögurra mánaða vopnahléið, sem við framlengdum, er á enda runnið," sagði í yfirlýsingu, sem barst frá Prachanda, leiðtoga skæruliðahreyfingarinnar, í gær. Boðaði hann að aðgerðir hreyfingarinnar myndu beinast gegn "einræðisstjórninni", sem landinu réði.
Í tilkynningunni sagði og að skæruliðar neyddust til að hefja á ný sókn gegn stjórnvöldum í "sjálfsvarnarskyni".
Gyanendra konungur, sem tók öll völd í landinu fyrir tæpu ári, neitaði að fallast á vopnahlé þegar skæruliðar lýstu því yfir í septembermánuði. Hreyfing maóista framlengdi síðan vopnahléið um mánuð í byrjun desember.
Talsmaður bandaríska sendiráðsins í höfuðborginni, Kathmandu, harmaði í gær þessa niðurstöðu og lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í landinu.
Rúmlega 12.000 manns hafa týnt lífi í átökum í Nepal frá því að skæruliðar maóista hófu svonefnt "alþýðustríð" sitt gegn stjórnvöldum árið 1996. Í nóvembermánuði mynduðu skæruliðar bandalag við sjö stjórnarandstöðuflokka í landinu í því skyni að vinna að því að lýðræði yrði innleitt þar.
Ætla að hundsa kosningar
Flokkarnir höfðu hvatt skæruliða til að framlengja vopnahléið en í yfirlýsingu leiðtoga þeirra sagði að það væri með öllu ógerlegt. Slíkt myndi í raun jafngilda "sjálfsmorði" þar sem stjórnarherinn beitti sér enn af fullum þunga gegn hreyfingunni. Hins vegar sagði og í tilkynningunni að bandalagið við stjórnmálaflokkana héldi.Konungur hefur boðað til bæjar- og sveitarstjórnarkosninga í febrúarmánuði og hyggjast bæði skæruliðar og stjórnarandstöðuflokkar hundsa þær. Þeir vilja að efnt verði til frjálsra þingkosninga og síðan verði landsmönnum sett ný stjórnarskrá. Nepal var lýst þingbundið konungdæmi árið 1990. Þar með var þingræði innleitt í landinu allt þar til konungur tók öll völd í sínar hendur í fyrra.