Indriði Aðalsteinsson
Indriði Aðalsteinsson
Indriði Aðalsteinsson fjallar um rjúpnaveiðar: "...Sigríður Anna tók þá afar ámælisverðu ákvörðun að heimila aftur rjúpnaveiðar..."

FORSÍÐUFRÉTT í Mbl. 15. nóv. sl. vakti undrun mína. Þar stóð m.a. að "samkvæmt aldursgreiningu á nýskotinni rjúpu teldu fuglafræðingar að vegna kulda og vætutíðar í sumar hafi orðið mikill viðkomubrestur á rjúpnaungum á Norður- og Austurlandi og jafnvel einnig á Vesturlandi."

Rjúpan verpir venjulegast 10-11 eggjum og koma ungarnir úr þeim síðast í júní. Þeir verða fleygir 10 daga gamlir en þangað til eru þeir vargi auðveld bráð og eru einnig mjög viðkvæmir fyrir hrakviðrum. Er skemmst að minnast 5.-6. júlí 1995, en þá gerði aftaka slydduhríð á norðanverðum Vestfjörðum sem strádrap alla mófugls- og rjúpnaunga.

En var um eitthvað viðlíka að ræða í sumar í fyrrnefndum landshlutum? Ég hélt ekki og hafði því samband við allmarga útivistarmenn á meintum ótíðarsvæðum, m.a. sauðfjárbændur, refaskyttur og hreindýraleiðsögumenn og kannaðist enginn þeirra við að veðurfar á þessum tíma hefði getað orðið rjúpnaungum skeinuhætt. Og ég hallast að því að þeir fari með rétt mál en fuglafræðingar ekki.

Þá vaknar sú spurning hvar þessir vöktunarmenn rjúpnastofnsins hafi verið frá Jónsmessu til miðs júlí. Voru þeir erlendis eða bara rænulausir? Síðan vakna þeir aðeins til meðvitundar í ágúst því enn segir í Mbl.: "Við talningu á rjúpuungum á Norðausturlandi í ágúst kom í ljós að um sjö ungar að meðaltali höfðu komist á legg í stað átta í uppsveifluári."

Þessi vitneskja lá sem sagt fyrir áður en Sigríður Anna tók þá afar ámælisverðu ákvörðun að heimila aftur rjúpnaveiðar. Það var bara sofið á henni enda gamanlaust að tala öðruvísi en ráðherra vill heyra.

Rjúpnaþurrð

Tíu ára sveiflan sem rjúpnafræðingar hafa klambrað saman stendur á miklum brauðfótum. Ekkert bitastætt liggur fyrir um hvað veldur henni eða hvort hún er samferða um land allt. Það er auðvelt að blekkja með tölum og eins og ég benti á hér í Mbl. í fyrra er það enginn grunnur til að byggja skotveiði á aftur þótt körrum fjölgi milli ára úr engum eða einum í einn eða svo, eða um 100-200%.

Rjúpan er tiltölulega staðbundin og þar sem búið var að ganga allt of nærri henni í flestum landshlutum var ekki von á góðu í haust, því það sem ekki er til getur ekki sveiflast. Og það er alveg sama hvað þeir sálufélagar Sigmar B. og Áki Ármann reyna í fjölmiðlum að tala veiðina upp. Víða sást ekki fugl eftir fyrstu vikuna og læt ég nægja hér að vitna í reynslu þriggja kunningja minna sem gengu til rjúpa í þrjá daga við kjöraðstæður á áður gjöfulum rjúpnaslóðum sem ekki hafði verið gengið um þessara erinda fyrr á tímanum. Þeir fengu samtals 26 rjúpur eða tæplega þrjár á dag.

Forsprakki þeirra sagði það síðast orða við mig, að nú þyrfti friðun í fjögur til fimm ár.

Meira bull

Það er raunar ekki nýtt að ég og mínir líkar standi gáttaðir yfir "fagmennsku" rjúpnafræðinga. Næst skal nefna klisjuna um að veiði hafi engin áhrif á stofninn, sem að vísu var aflögð sem röng upp úr 1980. Síðan fæddist sú stofnanakenning að verulegur hluti ungrjúpunnar drepist í fyrstu hausthretum. Því miður vantar hræin sem fylgiskjöl og eru þó ég og fleiri búnir að leita mikið að þeim. Væri óskandi að Náttúrufræðistofnun slægi nú líka þessa villukenningu af áður en hún verður starfsmönnum hennar til frekari álitshnekkis.

Sumir heimildarmenn mínir hafa nefnt ófrjósemi og mikið af geldrjúpu eða rjúpu með mjög fáa unga. Heimarjúpurnar hér hafa verið geldar síðastliðin þrjú vor. Á grenjatímanum rakst ég á tvær-þrjár rúpur með þrjá-fjóra unga og eina með aðeins tvo. Þetta er óeðlilegt.

Yfir okkur Vestfirðinga flæðir látlaust ríkisverndaður refur norðan úr Hornstrandafriðlandi. Samkvæmt rannsóknum Páls Hersteinssonar mun láta nærri að 2.000 dýr hafi komið að norðan síðan 1994. Þeim sem reyndu við rjúpu hér vestra í haust ber saman um að það hafi verið ódæmi af refaslóðum. Rebbi er á þönum eftir rjúpunum allar nætur og nær mörgum og þeir friðlausu fuglar sem eftir lifa, og ná oft langtímum saman hvorki að hvíla sig né safna í sarpinn, eru ekki líklegir til frjósemi. Tæfan er með afbrigðum lyktnæm og þar sem rjúpan liggur í snjóbælum sínum um skammdegisnætur í mjallkófi er hvítur refur hinn ósýnilegi dauði. Að deginum hagar rebbi sér eins og snjall veiðimaður, stefnir 23 stökklengdum til hliðar við bráðina svo hún uggir ekki að sér fyrr en um seinan. Og reynslulausa ungrjúpan er auðveld bráð.

Minkur

Villiminkastofninn er að kunnugra áliti 5.000-15.000 dýr og fjölgar hratt. Samkvæmt rannsókn í Mosfellssveit fyrir fáeinum árum náði hann þar rúmlega 30% af merktum rjúpnahópi.

Ríkisvaldið hefur gjörsamlega brugðist í að halda þessum morðingja niðri og hann og rebbi ásamt hrafni og sílamávi höggva geigvænleg skörð í rjúpnastofninn.

Ef hann á aftur í alvöru að verða sjálfbær verður að leggja margfalt meiri fjármuni í vargaeyðingu, færa stjórn og skipulagningu í hæfra manna hendur og takmarka eða banna alveg rjúpnaveiðar nokkur næstu haust.

Höfundur er sauðfjárbóndi á Skjaldfönn við Djúp og áhugamaður um rjúpu.

Höf.: Indriði Aðalsteinsson fjallar um rjúpnaveiðar