Miami. AP. | Sextán ára bandarískur framhaldsskólapiltur, Farris Hassan, kom heim til sín í fyrrakvöld eftir þriggja vikna ferð til Bagdad. Pilturinn fékk þá hugmynd í kennslustund í fjölmiðlafræði að fara til Íraks til að kynna sér aðstæður íbúanna. Hann fór frá Bandaríkjunum 11. desember án þess að segja foreldrum sínum frá því og hélt fyrst til Kúveits. Hann hélt að hann gæti farið þaðan til Bagdad með leigubíl en komst að því að landamærunum var lokað vegna þingkosninganna í Írak 15. desember. Hann dvaldi hjá vinum fjölskyldu sinnar í Líbanon áður en hann fór með flugvél til Bagdad um jólin.
Pilturinn dvaldi á hóteli í Bagdad þar sem margir Bandaríkjamenn dvelja. Þótt hann sé af íröskum ættum talar hann ekki arabísku og hann notaði orðabók fyrir ferðafólk til að gera sig skiljanlegan.
Pilturinn fór á skrifstofu fréttastofunnar AP í Bagdad í vikunni sem leið og bauðst til að gerast fréttaritari hennar. Starfsmenn fréttastofunnar höfðu strax samband við bandaríska sendiráðið sem lét hermenn sækja hann.
Einn fréttaritara AP sagði að pilturinn hefði verið "alsæll í fávisku sinni um hætturnar" sem steðja að Bandaríkjamönnum í Bagdad. "Farris gekk inn í hættulegustu borg jarðarinnar, einkum fyrir Bandaríkjamenn sem eru einir síns liðs, hvað þá táning sem talar ekki arabísku."
Farris Hassan sagði starfsmönnum AP að slíkar ferðir væru miklu hollari ungu fólki en skíðaferðir með fjölskyldunni til Colorado. "Maður fer á versta staðinn á jörðinni og allt er ömurlegt," sagði hann. "Þegar maður kemur aftur heim verður maður þakklátur fyrir lífsgæði okkar þar og ég verð eins og í sæluvímu alla ævina."
Bandaríska utanríkisráðuneytið réð þó fólki frá því að fara að dæmi Hassans. Um 40 Bandaríkjamönnum hefur verið rænt í Írak frá innrásinni í mars 2003 og tíu þeirra voru drepnir. Um fimmtán er saknað.