SIGURJÓN Sighvatsson hefur keypt 75% hlutabréfa í norræna kvikmyndadreifingarfyrirtækinu Scanbox Entertainment Group A/S en fyrrverandi eigendur Scanbox, Verner Bach Pedersen og stjórnendur fyrirtækisins, eiga 25%. Kaupverð er trúnaðarmál en félagið veltir um fjórum milljörðum og hjá því starfa um 150 starfsmenn í Skandinavíu. Fjárfestingarbankinn FIH Kaupthing í Danmörku var ráðgjafi Sigurjóns við Kaupin en Kaupþing banki á Íslandi sá um fjármögnun.
Sigurjón sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði einkum látið til sín taka á tveimur sviðum, í kvikmyndaframleiðslu undanfarin 20 ár, auk þess sem hann hefði átt í fjölmiðlafyrirtækjum og kaupin á Scanbox væru því eðlilegt skref í því ljósi. Þá hefði hann stofnað fasteignafélag með fjölskyldu sinni fyrir rúmum áratug og þær fjárfestingar hefðu undið upp á sig á töluvert löngum tíma. Eina raunverulega undantekning frá þessari fjárfestingarstefnu hefði verið kaup hans á 66° Norður.
Scanbox var upphaflega stofnað í Danmörku árið 1980 en er nú með starfsemi á öllum Norðurlöndunum, utan Íslands, og í London en höfuðstöðvar þess eru í Viborg í Danmörku. Góður vöxtur hefur verið í starfsemi félagsins á undanförnum árum en einkum hefur verið lögð áhersla á dreifingu sjálfstæðra, alþjóðlegra kvikmynda, kvikmynda frá Norðurlöndunum og sérframleiddra kvikmynda fyrir dvd-markaðinn sem stöðugt fer stækkandi.
Sigurjón segir Scanbox standa traustum fótum og það hafi burði til þess að stækka og verða alhliða afþreyingarfélag á Norðurlöndunum og nálægum löndum. Hann hlakki til þess að fá tækifæri til að starfa á norrænum kvikmyndamarkaði og þá ekki síst þeim danska sem sé orðinn einn sá fremsti í heimi.
"Ég þekki auðvitað þessi dreifingarfyrirtæki í heiminum nokkuð þokkalega eftir að hafa starfað í þessum geira í langan tíma og hef kannski fylgst einna mest með Norðurlöndunum vegna þess að þau eru okkur nær og kær. Ég hafði fylgst með þessu fyrirtæki í töluvert langan tíma ásamt öðrum. Ég hef verið að leita að góðum kostum í þeim efnum og alveg eins í Bandaríkjunum. Scanbox er eitt af stærstu sjálfstæðum dreifingarfélögum á Norðurlöndunum og það er með töluvert stóra hlutdeild á dönskum markaði, m.a. um 30% af heimaframleiðslu þar," segir Sigurjón.
En hvers vegna Danmörk?
"Sonur minn flutti til Danmerkur fyrir einu og hálfu ári og þá fór ég að eyða miklu meiri tíma þar og fór að skoða nánar markaðinn í heild sinni. Þessi lönd eru af þægilegri stærð og við þekkjum siði og menninguna þar."
Sonur Sigurjóns, Þórir Snær, er kvikmyndaframleiðandi í Danmörku og hefur m.a. framleitt Næsland og Voksne mennesker og hann og fyrirtæki hans Zik Zak verður meðframleiðandi að næstu kvikmynd Lars von Trier.
Sigurjón segir Scanbox eiga töluvert kvikmyndasafn sem sé verðmætt. "Dreifingarleiðir skipta ekki máli, hvort það er videó, dvd, bíó, sjónvarp, breiðband eða playstation. Það verður alltaf verðmæti í safninu. Í kvikmyndabransanum er talað um það að eiga kvikmyndir sé eins og að eiga fasteignir. Fólk er enn að horfa á gamlar kvikmyndir, alveg burt séð frá því í hvaða formi eða miðli það verður. Með dvd geta menn verið með mörg tungumál með hverri mynd þannig að það er miklu auðveldara og ódýrara að framleiða og dreifa yfir mismunandi tungumálasvæði. Það er hægt að framleiða einn disk fyrir alla Evrópu."