KOSTNAÐUR við endurskipulagningu FL Group, sem gengið var frá hinn 19. október 2005, nam samtals 532 milljónum króna. Þetta kemur fram í skráningarlýsingu FL Group sem birt var í síðustu viku í kjölfar útboðs nýrra hluta í nóvember síðastliðnum.
Í skráningarlýsingunni kemur fram að Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Flugleiða, fær 161 milljón króna á næstu 4-5 árum í tengslum við starfslokasamning en Sigurður lét af störfum á síðasta ári.
Þá fær Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrum forstjóri FL Group, 130 milljónir króna á næstu 4-5 árum vegna starfslokasamnings, en hún var forstjóri félagsins á síðasta ári frá júní fram í október, eða í um fimm mánuði. Hannes Smárason hætti sem stjórnarformaður fyrirtækisins og tók við sem forstjóri þess þegar Ragnhildur Geirsdóttir lét af því starfi.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður FL Group, sagði í samtali við Morgunblaðið að vissulega væri um háar fjárhæðir að ræða en þær væru í samræmi við ráðningarsamninga Sigurðar og Ragnhildar og tækju mið af þeim skyldum sem þau hefði undirgengist.
"Sigurður mun enn sinna ráðgjafarstörfum fyrir FL Group og er endurgjald fyrir þá þjónustu innifalið í greiðslum til hans. Þá má Ragnhildur ekki, samkvæmt ráðningarsamningi, vinna fyrir keppinauta FL Group um nokkurt skeið og eðlilegt að umbuna fyrir svo íþyngjandi atriði," segir Skarphéðinn.
Á rétt á bónusgreiðslum
Í skráningarlýsingunni kemur fram að Hannes Smárason, núverandi forstjóri, fær 4 milljónir króna í laun á mánuði en hann á einnig rétt á bónusgreiðslum sem fara eftir rekstrarárangri og geta orðið allt að þreföld árslaun, eða allt að 144 milljónir króna. Heildarlaun hans á ári geta því numið frá 48 milljónir króna og upp í allt að 192 milljónir. Hannes er með 12 mánaða uppsagnarfrest, en ekki er gert ráð fyrir frekari greiðslum til hans komi til þess að hann láti af störfum.Alls nema laun sjö annarra æðstu stjórnenda FL Group 154 milljónum króna á ári auk bónusgreiðslna, sem ákveðnar eru í lok hvers árs.