Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, fæddist í Reykjavík 1. nóvember 1943. Hann lést 21. desember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Keflavíkurkirkju 30. desember.

Á aðventu horfa prestar með söfnuðum sínum til jóla og hvetja til að undirbúast rétt með því að stilla sálar- og hjartastrengi inn á bylgjulengd englasöngs og himinljósa sem hljóma í og lýsa upp næturhúm.

Sr. Ólafur Oddur Jónsson sóknarprestur hefur gert það í byrjun liðinnar aðventu sem löngum fyrr, og hann hefur hugleitt það hvernig hann ætti að setja fram undursamlegt fagnaðarerindi jóla um fæðingu frelsarans sem innleiðir og opnar aðgang að ríki Guðs, svo að myrkur, synd og sorg, veikindi og dauði víkja fyrir andblæ hans og áhrifum.

Andlát sr. Ólafs Odds á stysta og dimmasta degi ársins kom á óvart því að ekkert hafði frést af veikindum hans. Hann var vökull og vandvirkur guðfræðingur og hugsjónaríkur prestur sem mikill missir er að.

Sr. Ólafur Oddur vakti athygli í guðfræðideild Háskóla Íslands fyrir glæsileika og atgervi, örugga framkomu og fas en einkum fyrir skarpskyggni og námshæfni sína. Hann náði góðum tökum á trúfræði og siðfræði enda í mun að rannsaka hvort og hvernig trúarsjónarmið gætu svarað spurningum í síbreytilegri samtíð um lífsgildi og merkingu. Ég sé Ólaf Odd enn fyrir mér klæddan ljósum leðurjakka í heimsókn í guðfræðideildinni nýkominn úr framhaldsnámi í Vesturheimi. Andans kraftur og atorka fylgdi honum en jafnframt festa og yfirvegun þekkingar og skilnings. Hann hafði m.a. lagt stund á trúarbragðafélagsfræði enda lét hann sig ávallt mjög varða samskipti kirkjudeilda og trúarbragða og vildi glæða virðingu og skilning þeirra á milli og var um tíma formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga.

Þegar sr. Ólafur Oddur vígðist til sóknarprestsþjónustu við Keflavíkurkirkju fyrir réttum þrjátíu árum tók hann við þjónustu af sr. Birni Jónssyni, vinsælum og farsælum guðsþjóni. Ekki var auðvelt að fylla það skarð. En sr. Ólafur Oddur sannaði brátt hæfni sína og ávann sér traust sem skeleggur prestur og félagsmálafrömuður og lét vel að sér kveða í samtímaumræðu um siðfræði og samfélagsmál. Hann var rökfastur og góður kennari og fræðimaður, náði vel til unglinga sem og þeirra er eldri voru. Hann ritaði fjölda greina og álitsgerða um siðferðileg álitamál og hafði glöggar hugmyndir um mikilvægt hlutverk kirkjunnar í samfélagi sem var á stöðugri hreyfingu. Hann var prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Braga Friðrikssyni, mjög innan handar og leysti hann af ef þörf var á. Og óskað var eftir kennslu sr. Ólafs Odds í guðfræðideild þar sem hann kenndi siðfræði og viðhafði þar sem hvarvetna vönduð vinnubrögð. Breytingar á byggð og atvinnuháttum urðu miklar í Keflavík svo sem víðar á landinu á þremur áratugum.

Atvinna var stundum ótrygg og félagsleg röskun olli óvissu í mannlífi.

Sr. Ólafur Oddur lét sig mjög varða kjör og líðan sóknarbarna sinna og liðsinnti þeim, uppörvaði og styrkti. Slys og ótímabær dauðsföll snertu hann mjög sem sálusorgara og hann hafði forgöngu um stofnun Bjarma, félags um sorg og sorgarviðbrögð á Suðurnesjum og gerðist formaður þess. Sr. Ólafur Oddur hafði oft huggað og styrkt þá sem höfðu orðið fyrir miklu mótlæti í lífinu og skrifaði um brostnar vonir, heilsutjón og dauða, læsilegt efni fyrir grunnskólanemendur.

Hann var raunsær og raungóður og aflaði sér ekki auðfenginna vinsælda með fagurgala. Hann fylgdi hiklaust sannfæringu sinni og hugsjónum, kjarkaður og einarður, við því búinn að sæta andbyr og ámælum ef svo bar við, var sjálfur strangheiðarlegur og vænti slíks af öðrum, einkum þeim sem treyst var fyrir þjónustu í kirkjunni. En það hefur komið honum mjög í opna skjöldu að þurfa að fást við andgust í söfnuðinum eftir að hann kom að utan úr námsleyfi því vegið var að stöðu hans. Sr. Ólafur Oddur brást ákveðið og einarðlega við en það hefur reynt mjög á hann og haft mikið að segja varðandi líðan hans og fjölskylduhagi.

Hann vildi sjá byggingu nýs safnaðarheimilis Keflavíkurkirkju borgið en töluverð andstaða var gegn því að byggt yrði við kirkjuna þótt mjög væri vandað til undirbúnings og hönnunarvinnu. Hve vel tókst til við að reisa safnaðarheimili við Hafnarfjarðarkirkju sem er systurkirkja Keflavíkurkirkju og teiknuð af sama arkitekt og hún, Rögnvaldi Ólafssyni, hefur hvatt til framkvæmda. Það sýndi sig og þegar safnaðarheimilið nýja við Keflavíkurkirkju, Kirkjulundur, var fullbyggt, að það setti fagran svip á kirkjuna og umhverfi hennar og hefur skapað aðstöðu fyrir mun margþættara og öflugra safnaðarstarf en fyrr enda hafa tveir prestar þjónað kirkjunni síðustu árin og fjölmennara starfslið en áður unnið að safnaðarstörfum. Það var þó sem sr. Ólafur Oddur léti minna fyrir sér fara síðustu árin en fyrr enda hafði mikið á honum mætt. Hann fylgdist samt vel með því sem var að gerast í veröld og samfélagi. Og hann hugleiddi vanda og viðfangsefni samtímaguðfræði og siðfræði, sem leituðust við að bregðast við nýjum aðstæðum og svara áleitnum spurningum, t.d. um afleiðingar tækninýjunga og framfara í læknisfræði.

Það var jafnan ánægjulegt að hitta sr. Ólaf Odd enda var hann víðsýnn og viðræðugóður. Síðast bar fundum okkar saman á prédikunarnámsstefnu í Skálholti á liðnu hausti, þar sem hann lagði gott til mála sem endranær. Sr. Ólafur Oddur var í fararbroddi þeirra presta hér á landi sem hafa látið sig mjög varða hvernig ber að tjá og túlka sígilt fagnaðarerindi Jesú Krists við breytilegar aðstæður og byggja upp og móta kirkju- og safnaðarstarf svo að það fái í anda hans veitt sem best skjól og athvarf í veðrabrigðum lífsins, gleði og sorgum og markað því stefnu í umróti tímans til blessunar og heilla. Hann lagði sig fram í verkum sínum og hugsjónabaráttu, var traustur og samviskusamur, drenglundaður og ósérhlífinn. Og enn hefur hann viljað vanda sig við jólaundirbúninginn á aðventunni og látið sig varða hvernig sóknarbörnunum liði og þeim gengi að halda jól. Hin helga jólahátíð færir með sér hækkandi sól svo að daginn lengir. Jól lýsa himinbirtu í næturhúmi heims og Guðs blessun í nýfæddu barni, sem gefið er nafnið Jesús sem þýðir Drottinn frelsar. Sá er vandi og vegsemd presta í kirkju hans að boða og segja frá því á sannfærandi hátt að lausn og líkn er fólgin í nafni hans á vegferð í tímans hverfula heimi og líka í dauða. En sá er grunntónn fagnaðarerindis Jesú Krists að Betlehemsbjarmi og kærleiks- og upprisuljós hans lýsi í gegnum allt myrkur dauðans og geri hann að hliði inn í ríki Krists þar sem innra líf, sál og andi sem byggst hefur upp af ljósi hans á vegferðinni hér í heimi íklæðist ljóssins líkama er mynd hans ber. Megi sú trúarvitund og sýn hugga og styrkja ástvini sr. Ólafs Odds og söfnuð hans, sem best fær haldið minningu hans á lofti og metið svo sem vert er fórnfús verk hans með því að sækja og sinna kirkju sinni vel og efla enn safnaðarstarf.

Gunnþór Þ. Ingason.

Fyrstu kynni mín af séra Ólafi Oddi Jónssyni, sóknarpresti í Reykjanesbæ, urðu við setningu á umdæmisþingi Kiwanisumdæmisins Ísland- Færeyjar í Keflavíkurkirkju árið 2000 en þar ræddi hann á svo eftirminnilegan hátt um sjálfsvíg og kallaði eftir aðstoð til þess að sporna gegn sjálfsvígum. Séra Ólafur hreyfði svo við okkur að undan orðum hans varð ekki vikist, það má segja að hann hafi kallað okkur til verka.

Eftir þingið ræddum við saman frá klúbbunum í Ægissvæði (þ.e Kivanisklúbbar á Suðunesjum. Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi) hvernig við gætum komið að svo viðkvæmu og vandmeðförnu máli sem þessu og var ákveðið að skipa fulltrúa í málið sem héldu síðan fundi með séra Ólafi og um á hvern hátt við í Kiwanis gætum unnið að málinu og niðurstaðan varð sú, að hans leiðsögn, að gefa út miða í formi bókamerkis þar sem á voru skráðar "Leiðbeiningar til að sporna gegn sjálfsvígum".

Textinn skiptist í þrennt með leiðandi leiðbeiningum til þess að átta sig á einkennum.

1. Ef einhver sem þú þekkir: 2. Þú getur hjálpað: 3. Leitaðu hjálpar, þú getur ekki gert þetta einn og fylgdu skjólstæðingi þínum.

Einnig fengum við til samstarfs Salvöru Bjarnadóttur, forvarnafulltrúa Landlæknisembættisins, til þess að yfirfara texta og vera okkur til faglegrar leiðbeiningar og segir það um sýn séra Ólafs Odds eftir að teymi hjá Landlæknisembættinu hafði yfirfarið málið að þar var engu breytt frá tillögu hans.

Miðinn fékk nafnið "Lífs-vísir" og sá Bragi Einarsson, grafískur hönnuður, um hönnun og er skírskotun til verndar og umhyggju. Lífs-vísirinn er gefinn út af Kiwanishreyfingunni og í samráði við Landslæknisembættið. Við vildum að nafn séra Ólafs Odds Jónssonar yrði á miðanum þar sem hans þáttur var mestur en hann vildi það ekki sem segir til um hans lítillæti.

Lífs-vísirinn fór til dreifingar í tíu þúsund eintökum, í fyrstu til framhaldsskóla, presta, stofnana og félaga sem vinna með ungu fólki í gamla Reykjaneskjördæmi. Síðar var verkefnið samþykkt sem landsverkefni Kiwanishreyfingarinnar og miðinn gefinn út 60 þúsund eintökum.

Fyrir rúmu ári sagði kona mér eftirfarandi: "Ég átti í miklum andlegum vanda og fór til Geðverndar og er ég var að fara þaðan út þá tek ég fyrir rælni miða úr standi sem var þar. Ég sá enga leið, ég vildi deyja og er ég kom heim þá leit ég á miðann og fór að lesa þennan "Lífs-vísi". Þá var eins og væri kveikt á mér og ég sá að það eru til leiðir. Konan vissi ekki að ég væri Kiwanismaður og ekki að ég hefði komið að málinu. Þetta sannaði fyrir mér að við værum að vinna að góðu máli.

Eftir að verkefnið fór að rúlla gerðum við stöðumat og ræddum við séra Ólaf Odd. Þá sagði hann: "Þið megið vera stoltir, Kiwanis-menn, nú er mál sem var í þagnargildi komið í mikla umræðu, Landlæknisembættið er komið á fullt í útgáfu og ráðgjöf, ég segi þið ýttuð þessum bolta af stað og nú rúllar hann." Og ef þetta er rétt þá á séra Ólafur Oddur það mál, því það var hann sem kallaði okkur til starfa.

Ég votta fjölskyldu séra Ólafs Odds innilegustu samúð. Blessuð sé minning um mætan mann.

Gylfi Ingvarsson, svæðisstjóri Ægissvæðis 2001-02.

Á dimmasta degi ársins barst sú harmafregn að sr. Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, væri látinn.

Ég átti því láni að fagna að fá að kynnast Ólafi Oddi, fyrst og fremst sem kennara.

Persónunni Ólafi Oddi var ekki auðvelt að kynnast, svo nærri hleypti hann ekki mörgum.

Kennsla Ólafs Odds í guðfræðideild einkenndist af skipulagðri framsetningu og mikilli hvatningu til lestrar og umræðna, að ógleymdri hvatningu til þess að hafa skoðun og að láta hana í ljós. Hann afhenti nemendum sínum fyrirlestrana á prenti, sem var nýlunda á þeim tíma, og tímarnir voru notaðir til umræðna og að nema af því er virtist ótæmandi fróðleiksbrunnur hans í kristinni siðfræði og greinum henni tengdum.

Ólafur Oddur kynnti mér marga helstu guðfræðinga 20. aldarinnar, kenndi mér að meta rit manna á borð við Dietrich Bonhoeffer, Victor Frankl, Reinhold Niebuhr, Elísabetu Schüssler Fiorenza og margra fleiri.

Það var gæfa mín að fá að nema praktískan hluta míns guðfræðináms undir handleiðslu Ólafs Odds og samstarfsfólks hans í Keflavíkurkirkju og fá auk þess að vera starfsmaður kirkjunnar. Þar kynntist ég m.a. óbilandi áhuga hans og elju í að efla samræðu kirkjunnar og samfélagsins í öllum þeim málum sem varða hag einstaklingsins, einkum þeirra sem minna mega sín og standa höllum fæti.

Allar stundir voru gefandi og hvetjandi af hans hálfu, sífellt átti hann einhverja fróðleiksmola. Mér verður oft hugsað til stunda yfir kaffibolla í gamla Kirkjulundi, eða athafna í kirkjunni.

Einhverju sinni hringdi ég í sr. Ólaf Odd og tilkynnti honum erfiðleika samverkakonu okkar. ,,Þetta verðum við að taka að krossinum," sagði hann og við kvöddumst með bænarorðum til handa syrgjandanum.

Það er trúa mín að Ólafur Oddur hafi oft leitað að krossinum, borið þangað áhyggju- og sorgarefni, bæði sín eigin og sóknarbarna sinna.

Hann átti trú á hinn upprisna Krist, sem stendur handan við krossinn í uppljómun páskadagsins. Kristur bíður þar með útréttar hendur sínar að styðja hvern þann sem leggur af stað í för um dimman dal sorgar og örvæntingar.

Dag er aftur farið að lengja.

Sorg yfir skyndilegu og ótímabæru andláti sr. Ólafs Odds, samúð mína með fjölskyldu hans og samverkafólki í Keflavík, ber ég að krossinum og bið þess að vaxandi birta dagsins í ljóma upprisunnar beri þau öll að grænum grundum þar sem þau mega næðis njóta.

Blessuð sé minningin um sr. Ólaf Odd Jónsson.

Lára G. Oddsdóttir.

"Don't worry, be happy"!

Látinn er langt um aldur fram Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavíkursókn.

Ég átti því láni að fagna að starfa með sr. Ólafi þar syðra og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Kynni okkar hófust sumarið 1998 er ég var að ljúka námi frá guðfræðideild HÍ. Hann var þá prófdómari við deildina. Að hans áeggjan sótti ég um djáknastarf í Keflavíkursókn þegar það var auglýst um haustið og ég held að hann hafi átt þátt í því að ég var ráðin sem djákni að kirkjunni.

Eftir djáknavíglsu í Dómkirkjunni var vígsluþegum, vígsluvottum og mökum þeirra boðið til hádegisverðar heim til biskupshjónanna. Þetta var í fyrsta sinn sem herra Karl Sigurbjörnsson vígði þjóna kirkjunnar. Í þessu boði kom berlega í ljós, í ávarpi sem sr. Ólafur flutti, hvern hug hann bar til kærleiksþjónustunnar. Hann afhenti okkur öllum fjórum nývígðum djáknum skjal sem hann hafði útbúið þar sem hann segir m.a. að ,,Tákn kærleiksþjónustunnar (diakoníunnar) er krossinn með kórónu lífsins, sem táknar að neyð og dauði séu sigruð í upprisu Jesú Krists og þeirri trú sem starfar í kærleika. Hann bendir einnig á texta Páls postula í Rm.16:1-2 og segir: ,,Þetta er eini staðurinn í Nýja testamentinu þar sem orðið djákni (þjónn) er notað um konu, en margar konur báru trú sinni vitni með miskunnar- og kærleiksverkum á tímum frumkirkjunnar og stuðluðu þannig að útbreiðslu kristninnar.""

Ekki amalegt fyrir nývígðan djákna, þann 13. á landinu, að hefja starfið við hlið svo jákvæðs og víðsýns prests.

Sr. Ólafur var ávallt að fræða og fræðast. Hann fylgdist vel með nýjungum jafnt á sviði guðfræði, siðfræði og á því hvernig koma mætti Orðinu til skila. Hann nýtti sér tæknina á því sviði og notaði t.d. stundum myndvarpa meðan hann flutti predikanir í guðsþjónustum. Ég tók þátt í allsérstakri sjónvarpsguðsþjónustu með honum sem Ríkissjónvarpið tók upp í Keflavíkurkirkju og sjónvarpað var á hvítasunnudag 1999 en þar var fréttamyndum fléttað inn í predikunina með áhrifamiklum hætti.

Ólafur var heilsteyptur og traustur maður. Hann þoldi illa óréttlæti, alla sýndarmennsku og hræsni og sagði stundum að það þyrfti ekki að sjást utan á fólki að það væri trúað.

Samstarf okkar í Keflavíkurkirkju stóð aðeins í eitt ár, vegna þess að ég fékk djáknastöðu í annarri kirkju sem var nær heimili mínu, en á því ári lærði ég mikið.

Keflavíkursókn og kirkjan öll hefur misst góðan þjón. Guð blessi minningu sr. Ólafs Odds Jónssonar og veri með fjölskyldu hans og samstarfsmönnum á erfiðum tímum.

Lilja G. Hallgrímsdóttir.

Leiðir okkar Ólafs Odds hafa oft legið saman undanfarin tæp 30 ár. Hann var tiltölulega nýskipaður prestur í Keflavík þegar ég gekk til fermingarfræðslu hjá honum vorið 1977. Áherslur hans á siðfræði, kærleik og rétta breytni hafa haft áhrif á mig allar götur síðan. Ólafur Oddur vígði hjónaband okkar hjóna á afar eftirminnilegan hátt, skírði börn mín og fermdi dóttur mína. Fyrir örfáum dögum ræddum við saman í hinsta sinn þegar hann vígði Íþróttaakademíuna. Hann leysti það verkefni af alkunnri virðingu og alúð, líkt og önnur verkefni sem flest voru þó alvarlegri og erfiðari viðfangs. Á liðnum árum leitaði ég í nokkur skipti ráða hjá honum vegna erfiðra mála. Og alltaf brást hann vel við. Í raun voru öll hans störf sem snert hafa mig á einn eða annan hátt vel framkvæmd, jákvæð og uppbyggileg. Hann kunni þá vandasömu list að leiða erfið verkefni til lykta á farsælan hátt þannig að menn stóðu uppréttir á eftir með leiðsögn um hvernig halda ætti áfram. Allt sem ég hef heyrt hann segja í gegnum tíðina hefur einkennst af miklum kærleika og djúpum skilningi á lífinu. Ólafur Oddur var í afar miklum metum hjá mér og minni fjölskyldu, mikill mannvinur og ávallt reiðubúinn til að setja sig í spor annarra til að veita gagnleg ráð. Hann var trúaður mjög, en þó á þann hátt að hann talaði mannamál, hafði fæturna á jörðinni, ef svo má segja, þannig að leikmenn eins og ég áttum auðvelt með að skilja hann og meðtaka hans boðskap. Um leið og ég votta hans nánustu alla mína samúð vil ég þakka honum fyrir sterka og áhrifamikla leiðsögn í lífinu.

Hrannar Hólm.