— Ljósmynd/Dagný Gísladóttir
Reykjanesbær | Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt samhljóða tillögu sjálfstæðismanna um að börn sem búsett eru í Reykjanesbæ, á grunnskólaaldri og yngri, fái frítt í sund á sundstöðum Reykjanesbæjar frá og með áramótum.

Reykjanesbær | Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt samhljóða tillögu sjálfstæðismanna um að börn sem búsett eru í Reykjanesbæ, á grunnskólaaldri og yngri, fái frítt í sund á sundstöðum Reykjanesbæjar frá og með áramótum.

"Við könnumst öll við áhyggjur af hreyfingarleysi barna og unglinga og hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að auka hreyfingu. Þetta er tiltölulega auðveld leið fyrir sveitarfélagið til að stuðla að hollri hreyfingu," segir Árni Sigfússon bæjarstjóri um ákvörðun bæjarráðs.

Fjórar sundlaugar eru reknar í Reykjanesbæ, þar af tvær fyrir almenning. Í vor verður síðan opnuð ný innisundlaug við hlið útilaugar að Sunnubraut. Á milli lauganna hefur einnig verið komið fyrir vatnsleikjagarði fyrir yngstu kynslóðina. Nú mun þessi aðstaða bjóðast ókeypis öllum grunnskólabörnum í bænum og þeim sem yngri eru. Auk þessa hóps býðst eftirlaunaþegum og öryrkjum að fara ókeypis í sund.

Árni Sigfússon segir að innheimtar hafi verið um það bil 2 milljónir kr. á ári af þeim hópi sem nú fái frítt í sund. Telur hann að tekjur aukist á móti þegar vatnagarðurinn verður opnaður í vor.

Árni minnir jafnframt á að allir fái ókeypis í strætó í Reykjanesbæ og segir að börnin geti notað strætó til að fara í sund.