Hulda Thorarensen fæddist í Hróarsholti í Villingaholtshreppi í Árnessýslu 11. desember 1922 og ólst upp hjá foreldrum sinnum í Vestri-Kirkjubæ á Rangárvöllum. Hún lést á Landakotsspítala 16. desember og var útför hennar gerð 22. desember, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Vegna mistaka birtist þessi grein með greinum um Huldu Þorbjörnsdóttur á gamlársdag. Við biðjum alla hlutaðeigandi velvirðingar.

Að heilsa og kveðja er lífsins gangur. Einhvern veginn er þó eins og að þeir, sem hafa verið hluti af lífi manns alla tíð, eigi að vera eilífir. Tilhugsunin um að eiga ekki eftir að eiga fleiri stundir með ömmu í litla eldhúsinu hennar við Öldugötuna er skrýtin og óraunveruleg.

Amma Hulda var kjarnakona, alin upp á Kirkjubæ á Rangárvöllum og vön að vinna hörðum höndum frá barnæsku. Hún ljómaði alltaf þegar hún sagði sögurnar úr sveitinni. Ég veit að hún hefði kosið að búa í sveit með sína fjölskyldu, en kannski má segja að Selásinn hafi komist nálægt því að kallast sveit í þá daga; örfá hús á stangli, umhverfið ævintýri eitt fyrir okkur elstu barnabörnin og vini. Berjamór í bakgarðinum, gamall bíll á felgunum sem flutti okkur krakkana heimshornanna á milli og hænsnabúið hennar ömmu, sem hún rak af miklum rausnarskap. Hún seldi eggin og keyrði þau út um bæinn á rússajeppanum sínum - honum "Huldubrandi". Sennilega ekki margar ömmur sem þeystu um á svo flottum jeppa.

Lífið var ömmu ekki alltaf auðvelt, en hún hafði einstaka lund og var ekki að láta erfiðleika eða mótlæti beygja sig - hvað þá brjóta. Hún mætti lífinu með góða skapinu sínu og var sátt við allt og alla. Alltaf kröfulaus á þá sem í kringum hana voru og duglegri en nokkur sem ég þekki.

Síðasti kaffibollinn hefur verið drukkinn í ömmuhúsi og við eigum öll eftir að sakna hennar sárt, en megum ekki vera eigingjörn - hún var hvíldinni fegin og það er gott að vita að nú líður henni vel.

Ég þakka ömmu minni samfylgdina og er svo miklu ríkari að hafa átt hana að.

Hulda Ellertsdóttir.