FLUGELDARUSL er ævinlega til nokkurrar óprýði á götum, gangstéttum, görðum og öðrum stöðum bæja og borga hér á landi í kjölfar áramótafagnaðar landsmanna. Blasa þá gjarnan víða við rakettuprik, tættar umbúðir og notaðar "skotkökur" auk þess sem vírar innan úr stjörnuljósum liggja á víð og dreif. Það er mikið verk að þrífa upp flugeldaruslið.
Ísak Möller, hverfisstjóri Framkvæmdasviðs í Breiðholti, segir starfsmenn hreinsunardeildar eiga ærið verkefni fyrir höndum. Ísak segir íbúa vitaskuld ábyrga fyrir ástandi eigin lóða og eru Reykvíkingar hvattir til að hreinsa sem fyrst upp eftir sig svo raketturuslið fjúki ekki út um allt og geri tiltektina þeim mun seinlegri. Að vanda er Reykvíkingum boðið upp á það að setja jólatré sín út næstu daga og munu starfsmenn hreinsunardeildar koma þeim burtu.