Hingað til hafa íþróttaskór verið framleiddir nokkurn veginn á sömu forsendum sama hver framleiðandinn hefur verið, en nú hefur orðið breyting á því og virðast hlaupaskór vera að þróast í tvær áttir; annars vegar aukinnar tækni þar sem tölvan hefur verið tekin í þjónustu hlauparans, hins vegar naumhyggju þar sem reynt er að hanna skóinn þannig að hlauparanum líði nánast sem hann hlaupi berfættur.
Skórnir "taka ákvarðanir" og "hugsa"
Framleiðandinn Adidas er fremstur í þróun tölvuskóna. Christian DiBenedetto, yfirhönnuður skónna, segir í samtali við þýska vikuritið Der Spiegel að þeir "taki ákvarðanir" og "hugsi". Í skósólanum er að finna 40 grömm af tækjabúnaði, þar á meðal skynjara, sem mælir álagið 1.000 sinnum á sekúndu. Út frá þessum mælingum á búnaðurinn að stilla viðnám sólans með tilliti til þyngdar hlauparans, hraða og undirlags.Framleiðandinn Asics fer aðra leið og þróar nú "berfætta" skóinn, sem á að gefa fætinum sem mest rými.
Vísindamenn segja fæturna nánast fullkomið sköpunarverk. Þegar maðurinn hlaupi sé álagið mikið, en fæturnir séu úr garði gerðir til að standast það. Við hlaup er hvert skref í raun stökk og þegar hlauparinn lendir kemur álag á fótinn, sem jafngildir þrefaldri líkamsþyngd hans. Hásinin sé svo sterkbyggð að hún þoli heilt tonn.
Hlaupaskórnir eins og skíðaskór
Sérfræðingar skóframleiðenda, sem rannsökuðu fóthreyfingar á níunda áratugnum, tóku eftir því að fóturinn riðaði til og frá í hverju skrefi og ákváðu að hlauparinn þyrfti meiri stuðning. Nú er þeim skóm, sem þá voru hannaðir, líkt við skíðaskó, sem hafi gert að verkum að álagið á sinar og liði varð meira en ella. Að auki varð sólinn svo þykkur að ilin var langt frá jörðinni, sem jók óstöðugleika. Reyndar er það svo að þrátt fyrir að 30 ára rannsóknir og þróun á skófatnaði fyrir hlaupara hefur tíðni meiðsla lítið breyst. "Berfætti" skórinn er að því er sumir telja svarið við þessu. Framleiðandinn Nike hefur gengið lengst og gert skó, sem hægt er að rúlla upp eins og mottu og sagt er að við að hlaupa í þeim reyni á vöðva, sem flestir hlauparar viti ekki einu sinni að séu til. Reyndar mælir framleiðandinn með því að hreinir áhugamenn noti ekki þessa skó.