Bókaforlagið Salka hefur gefið út þrjár bækur til heilsueflingar. Valgeir Skagfjörð er höfundur bókarinnar Fyrst ég gat hætt, getur þú það líka.
"Að setjast niður í erli dagsins og fá sér kaffi og sígó hefur tilheyrt lífsmynstri margra og oft verið hluti af mannlegum samskiptum. Valgeir Skagfjörð var stórreykingamaður til margra ára og afskaplega iðinn við að réttlæta ýmsa kvilla sem hrjáðu hann; þeir voru yfirleitt óskiljanlegir með öllu eða þá að hann tengdi þá við flensu, ofþreytu, rangt mataræði, stress og fleira í þeim dúr. En þegar maður á besta aldri hefur verið með flensu og ofþreytueinkenni í nokkur ár ... þá er kannski kominn tími til að athuga sinn gang.
Flestallir reykingamenn vilja hætta - en hvað stendur í veginum? Er fíknin svona óstjórnleg og erum við bara einn stór vani? Öll erum við einstök og verðum að finna okkar eigin leið til að losna undan ýmsum áþjánum en að sama skapi á fólk margt sameiginlegt í þessari baráttu. Eftir marga ósigra en þó reynslunni ríkari, skapaði Valgeir sér öflugt og stórskemmtilegt hugmyndakerfi sem gerði það að verkum að hann drap í fyrir fullt og allt. Í þessari bók deilir hann reynslu sinni með okkur og segir staðfastur: Ef ég get hætt, getur þú það líka. Þessi bók er fyrir alla þá sem vilja hætta að reykja og eru orðnir langþreyttir á skyndilausnum," segir í tilkynningu frá Sölku.
Þú ert þitt eigið fyrirtæki
Móti hækkandi sól, lærðu að virkja kraft vonar og heppni í lífi þínu .Höfundur er Árelía Eydís Guðmundsdóttir. "Í þessari sjálfsræktarbók kveður við nokkuð nýjan tón: Oft er nauðsynlegt að staldra við á lífsleiðinni og finna fótfestu í lífinu á ný, ekki síst eftir áföll á einhverju tagi. Systir Árelíu stytti sér aldur aðeins 31 árs gömul og í kjölfarið fann Árelía sig knúna til að stokka upp á nýtt og horfast í augu við breytta tilveru. Til þess nýtti hún menntun sína og reynslu úr viðskiptaheiminum og hóf smám saman að vinna að þessari bók sem nú lítur dagsins ljós. Hún segir: Þú ert þitt eigið fyrirtæki - sjáðu um sjálfa/n þig eins og þú sæir um fyrirtækið þitt. Hugtök eins og stefnumótun, markmiðslýsing og endurmat eiga ekki bara heima í fyrirtækjaskýrslum, heldur líka hjá hverju og einu okkar. Í bókinni eru margar æfingar og dæmi um raunverulegar aðstæður og viðbrögð fólks, en höfundur trúir því að gott sé að kynna sér hvernig aðrir hafa tekið á málunum þegar við fetum nýjar slóðir. Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur, Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, o.fl. hafa gefið bókinni jákvæðar umsagnir.
Endalaus orka! Yfir 200 bráðhollir ávaxta- og grænmetissafar.
Hreystin kemur innan frá