Beirút. AP. | Nefnd Sameinuðu þjóðanna sem rannsakar morðið á líbanska stjórnmálamanninum Rafik Hariri vill fá að ræða við forseta Sýrlands, Bashar Assad, og einnig utanríkisráðherrann, Farouk al-Sharaa.

Beirút. AP. | Nefnd Sameinuðu þjóðanna sem rannsakar morðið á líbanska stjórnmálamanninum Rafik Hariri vill fá að ræða við forseta Sýrlands, Bashar Assad, og einnig utanríkisráðherrann, Farouk al-Sharaa. Sýrlendingar eru grunaðir um að hafa átt þátt í morðinu.

"Nefndin mun einnig reyna að fá viðtal við Abdul-Halim Khaddam [fyrrverandi varaforseta Sýrlands] eins og fljótt og auðið er," sagði talskona nefndarinnar, Nasra Hassan. Umræddur Khaddam, sem nú býr í Frakklandi, sagði í sjónvarpsviðtali á föstudag að Assad forseti hefði á fundi með Hariri, nokkrum mánuðum fyrir morðið í febrúar sl., hótað honum öllu illu. Hariri hafði snúist gegn Sýrlendingum sem um þetta leyti réðu lögum og lofum í Líbanon.

Sýrlenskir embættismenn og ríkisfjölmiðlar hafa farið hamförum gegn Khaddad vegna ummæla hans og krafist þess að honum yrði refsað fyrir landráð. Aðrir heimildarmenn höfðu áður sagt frá hótunum Assads en það hefur ekki verið staðfest af jafn háttsettum manni fyrr. Talskona rannsóknarnefndarinar sagði að ummæli Khaddads staðfestu enn frekar upplýsingar sem nefndin hefði fengið frá öðrum heimildarmönnum.