Sumir þurfa meiri stuðning en aðrir þegar hætt er að reykja. Ráðgjöf í reykbindindi er símaþjónusta sem hentar mörgum.
"Við veitum upplýsingar, ráðgjöf og stuðning," segir Guðrún Árný Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérhæfður ráðgjafi í tóbaksmeðferð.
"Við rekum bæði símaþjónustu og vefsíðu. Símanúmer okkar 800 6030 og við svörum alla virka milli kl. 17 og 19. Ef fólk vill hafa samband á öðrum tíma þá er hægt að leggja inn skilaboð á símsvara og senda okkur tölvupóst á netfangið 8006030@heilthing.is. Slóðin inn á vefsíðuna okkar er www.8006030.is. Þess má geta að við gáfum út fræðslubækling handa þeim sem vilja hætta að reykja. Bæklingurinn heitir Nýtt líf án tóbaks og við sendum hann án endurgjalds hvert sem er á landinu," segir Guðrún.
"En hver rekur þessa starfsemi?
"Það er Heilbrigðisstofnun Þingeyinga í samstarfi við Lýðheilsustöð, Landlæknisembættið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sem rekur þessa þjónustu en við erum á Húsavík. Til okkar leitar fólk af öllu landinu og það er ókeypis að hringja til okkar eða hafa samband með öðru móti.."
Fólk vill fá góð ráð og ræða um reynslu sína
Hvað er það helst sem fólk spyr um þegar það hefur samband?"Fólk vill gjarnan fá góð ráð til þess að hætta að reykja. Það vill upplýsingar um lyf og hvernig á að nota þau. Það vill gjarnan fá stuðninginn og fá að spjalla um fyrri reynslu í reykingamálum og ýmislegt annað sem tengist þessu málefni.
Við bjóðum upp á þá þjónustu að hringja í fólk reglulega til þess að athuga hvernig gengur, þetta veitir bæði aðhald og stuðning. Þeir sem hafa notið þjónustu okkar hafa margir tjáð okkur þakklæti fyrir stuðninginn og ánægju með þessa þjónustu. Þetta hefur hjálpað mörgum yfir erfiðan hjalla."
Eru margir sem hafa samband við ykkur?
"Já, það er töluvert um það, mismikið þó. Það fer t.d. eftir auglýsingum og kynningum, það þarf með reglubundnum hætti að minna fólk að þessa þjónustu."
Á hvaða aldri eru þeir sem hafa samband?
"Þeir eru á öllum aldri, flestir eru þó á aldursbilinu 30 ára til 60 ára. Samkvæmt athugun eru ívið fleiri konur sem leita til okkar."
Um 80% af reykingamönnum vilja hætta að reykja
Hafið þið upplýsingar um hvernig þessu fólki sem til ykkar leitar hefur reitt af í reykingamálunum?"Já, við gerðum könnun árið 2003 og það kom fram að eftir ár eru um 30% reyklausir, sem þykir mjög góður árangur í þessum málum."
Er fólk áhugasamt um hjálparlyf?
"Já, fólk er það og það vill leita allra leiða. Sumir vilja þó ekki nota neitt meðan aðrir eru tilbúnir til prófa allt sem er í boði til að reyna að hætta. Um 80% af reykingamönnum vilja hætta að reykja."
Hvað sýnist þér að sé helsti þröskuldurinn?
"Oft á tíðum hefur fólk ekki nógu mikla trú á sjálfu sér, því hefur mistekist nokkrum sinnum og óttast að mistakast aftur."
Veitið þið sálfræðilega þjónustu?
"Þjónustan er með sálfræðilegu ívafi, þetta snýst mikið um að veita fólki stuðning og byggja upp trúna á eigin getu. Finna persónulegar lausnir og veita fólki aðhald og stuðning í gegnum það ferli að hætta að reykja. Að hjálpa fólki að hætta reykingum er eitt mikilvægasta hlutverk okkar heilbrigðisstarfsmanna, með því stuðlum við að bættri heilsu og líðan samborgara okkar. Þessi meðferð tekur langan tíma og við gefum okkur þann tíma sem þarf fyrir hvern og einn einstakling sem til okkar leitar. Við vinnum í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk úti um allt land. Læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og fleiri vísa til okkar fólki sem er í þörf fyrir aðstoð til að hætta reykingum.
Núna upp úr áramótum er í gangi átak í samstarfi við Lýðheilsustöð til að kynna þjónustuna okkar og þess vegna verðum við með opið lengur fyrstu tvær vikurnar í janúar en venjulega. Þetta er gert til að mæta þörfum fleira fólks. Núna er sem sagt opið frá kl. 17 til 21. Allir geta hringt að sent okkur póst og við munum svara."