Ein af mótsögnum íslensks heilbrigðiskerfis er óhagræðið, sem iðulega fylgir sparnaði og niðurskurði. Biðlistar inniliggjandi sjúklinga, sem lokið hafa meðferð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, eftir hjúkrunarrýmum eru gott dæmi um það.

Ein af mótsögnum íslensks heilbrigðiskerfis er óhagræðið, sem iðulega fylgir sparnaði og niðurskurði. Biðlistar inniliggjandi sjúklinga, sem lokið hafa meðferð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, eftir hjúkrunarrýmum eru gott dæmi um það. Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu í gær eru nú 94 sjúklingar, sem lokið hafa meðferð á Landspítalanum, enn inniliggjandi. Þetta eru um 11% allra legusjúklinga á sjúkrahúsinu. Samtals hefur þessi hópur legið inni í um 12 þúsund daga að lokinni meðferð. Meðallegudagur á LSH kostar mun meira en meðallegudagur á hjúkrunarheimili. Í nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi LSH á árunum 1999 til 2004 segir að sé gengið út frá að meðalbiðtími biðsjúklinganna sé 90 dagar sé kostnaður á hvern sjúkling á bilinu 2,7 til 4,5 milljónir króna. Fyrir 94 sjúklinga þýði þetta 254 til 423 milljónir króna. þetta hefur einnig í för með sér að sjúklingar, sem þurfi á þjónustu spítalans að halda, komist ekki að á viðeigandi deildum og verði jafnvel að dveljast á göngum sjúkrahússins.

Anna Lilja Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga á LSH, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að það væri "eitt af stærstu hagsmunamálum sjúklinga og starfsfólks LSH að þessi vandi yrði leystur til frambúðar".

Skýrslan um útskriftarvandann var gerð í september. Anna Lilja segir að lítið sem ekkert hafi gerst síðan og bætir við: "Og ég held að hún muni ekki breytast mikið á næstunni, ekki fyrr en nýtt hjúkrunarheimili verður opnað í Mörkinni árið 2007."

Hér hefur myndast flöskuháls í kerfinu og allir tapa á ástandinu, skattborgarar, sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk. Betur færi um legusjúklinga, sem hafa lokið meðferð, á hjúkrunarheimilum. Hægt væri að veita sjúklingum, sem eru lagðir inn á LSH til meðferðar, betri þjónustu ef önnur úrræði væru fyrir sjúklinga, sem lokið hafa meðferð. Starfsfólk spítalans myndi vinna við betri aðstæður ef biðlistunum væri eytt og eiga auðveldara með að sinna störfum sínum, ekki síst þegar álag myndast og öll rúm eru nýtt fyrir.

Heilbrigðiskerfið er dýrt í rekstri og þar þarf vissulega að gæta aðhalds. Þegar aðhaldið verður hins vegar til þess að mörg hundruð milljónir króna fara í súginn þarf að grípa í taumana. Það þarf ekki flókna útreikninga til að komast að því að það tekur ekki langan tíma að spara fyrir hjúkrunarheimili ef leggja mætti sjúklinga beint þangað inn í stað þess að láta þá dúsa á LSH og biðlistum svo mánuðum skiptir.