Sigríður Ásmundsdóttir fæddist á Gilsbakka í Hvítársíðu 6. ágúst 1919. Hún lést á heimili sínu í Bólstaðarhlíð 41 í Reykjavík að kvöldi 24. desember síðastliðins. Foreldrar hennar voru Ásmundur Guðmundsson biskup, f. 6. október 1888, d. 29. maí 1969, og kona hans Steinunn Sigríður Magnúsdóttir, f. 10. nóvember 1894, d. 6. desember 1976. Systkini Sigríðar eru: a) Andrés, f. 30. júní 1916, maki Þorbjörg Pálsdóttir, f. 10. febrúar 1919. b) Þóra, f. 27. júní 1918. c) Áslaug, f. 25. júní 1921. d) Guðmundur, f. 8. júní 1924, d. 15. ágúst 1965, maki Hrefna S. Magnúsdóttir Kjærnested, f. 28. mars 1926, d. 15. mars 1996. e) Magnús, f. 17. júní 1927, maki Katrín Jónsdóttir, f. 6. júlí 1932. f) Tryggvi, f. 29. október 1938, maki Agla Egilsdóttir, f. 4. júní 1939 í Reykjavík.
Sigríður giftist 7. febrúar 1946 Jakob Gíslasyni, síðar orkumálastjóra, f. 10. mars 1902, d. 9. mars 1987. Börn þeirra eru: 1) Ásmundur, f. 5. júlí 1946. 2) Aðalbjörg, f. 18. maí 1949, maki Hallgrímur B. Geirsson, f. 13. júlí 1949. Dóttir þeirra er Erna Sigríður, f. 28. apríl 1972. 3) Steinunn Sigríður, f. 6. maí 1953, maki Sverrir Hilmarsson, f. 20. ágúst 1955. Dóttir Steinunnar Sigríðar og Sigurjóns Haukssonar, f. 18. febrúar 1955, er Sigríður Soffía, f. 22. mars 1981. Stjúpsynir Sigríðar, synir Jakobs Gíslasonar og fyrri konu hans Hedvig Emanuellu Hansen, f. 26. júní 1908, d. 25. nóv. 1939, eru: 4) Gísli Ólafur, f. 17. desember 1934, d. 29. mars 2003, maki Johanne Agnes Jakobsson, f. Götze, f. 17. október 1935. Synir þeirra eru: a) Jakob, f. 23. desember 1953. b) Tómas, f. 29. júlí 1961, maki Nikoline Gíslason, f. 24. maí 1970. Dóttir Gísla og Lizu Knipschildt Jürgensen, f. 18. nóvember 1953, er c) Nanna Rósa Knipschildt Jürgensen, f. 27. maí 1987. Gísli á fjögur barnabörn. 5) Jakob, f. 26. des. 1937, maki Moira Helen Blakeman, f. 11. maí 1944. Börn þeirra eru: a) Pétur, f. 20. desember 1964. b) Elín, f. 4. september 1968, maki Mark Sadler, f. 25. nóv. 1968. c) Signý, f. 4. ágúst 1969, maki Jon Keliehor, f. 18. október 1941. Jakob á tvö barnabörn.
Fyrstu árin ólst Sigríður upp á Eiðum þar sem faðir hennar var skólastjóri. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur 1928 og þar átti Sigríður heima í foreldrahúsum við Laufásveg þangað til hún giftist. Að loknu gagnfræðaprófi hóf hún skrifstofustörf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og síðar vann hún í dómsmálaráðuneytinu. Eftir að hún giftist var hún húsmóðir mestan hluta starfsævi sinnar. Á áttunda áratugnum, þegar börnin voru uppkomin, vann hún á skrifstofum Sambands íslenskra barnakennara og Byggingarsamvinnufélags barnakennara.
Útför Sigríðar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
Systir mín Sigríður Ásmundsdóttir var þriðja í röð sjö barna foreldra minna og önnur til að kveðja þetta líf. Hún fæddist ein okkar systkina á ættaróðalinu Gilsbakka í Hvítársíðu en þar dvaldist móðir okkar meðan faðir okkar undirbjó búferlaflutninga til Eiða. Þar hafði hann verið ráðinn skólastjóri. Var hún 5. Sigríður í beinan kvenlegg. Sú elsta var Sigríður Pálsdóttir sem gift var séra Þorsteini Helgasyni í Reykholti, skörungur mikill og má lesa sögu hennar í riti Jóns Helgasonar, Íslenskt mannlíf. Síðan hafa bæst við tvær og er dótturdóttir hennar Sigríður Soffía sjöunda Sigríður í beinan legg og má með sanni segja að gifta hafi fylgt því ágæta nafni.
Fyrstu árin ólst Sigríður upp á Eiðum í stórum hópi systkina, en flutti til Reykjavíkur níu ára gömul þegar faðir okkar varð dósent við guðfræðideild Háskólans. Hún var stærst þeirra systra þótt ekki væri hún elst, nokkuð mikil fyrir sér og þótti stríðin. Var eitt sinn haft eftir Magnúsi bróður okkar: "Það gagnar nú lítið þótt hún Grýla sé dauð því þegar hún Sigga systir mín verður stór verður hún Grýla."
Sigríður stundaði nám í barnaskóla og gagnfræðaskóla en gerði ekki mikið úr námsástundun sinni. Hún sagðist hafa litið á upplestrarfrí sem frí. Þegar um munnleg próf var að ræða kvaðst hún hafa hent námsbókinni í loft upp og lesið þá opnu sem blasti við þegar hún kom niður. Síðan var kúnstin að draga rétt verkefni sem hún sagði að hefði náðst furðu oft. Þegar sonur hennar, annálaður námsgarpur, las til stúdentsprófs fannst henni hann leggja óþarflega hart að sér við lesturinn og sagði honum frá þessari aðferð sinni. Svar hans varð fleygt í fjölskyldunni: "Er ekki nóg að þú hafir verið skussi í skóla þótt þú sért ekki beinlínis að gorta af því við börnin þín?" Þess má þó geta að sá sem þessar línur skrifar beitti þessari aðferð við upplestur á jarðfræði fyrir stúdentspróf og gafst vel. Hún lauk samt öllum sínum prófum með sóma og fékk síðan vinnu á skrifstofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Nokkrum árum síðar varð hún ritari í dómsmálaráðuneytinu.
Um þetta leyti kynntist hún Jakobi Gíslasyni rafmagnsverkfræðingi sem þá var forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins en síðar raforkumálastjóri og seinast orkumálastjóri. Þau giftust snemma árs 1946. Hann var ekkjumaður og átti tvo syni á viðkvæmum aldri. Hún gekk þeim strax í móðurstað og var samband þeirra alla tíð mjög náið og gott. Gísli lést fyrir fáum árum, öllum harmdauði, en Jakob lifir stjúpmóður sína.
Jakob Gíslason var mikill merkismaður, brautryðjandi í raforkumálum Íslendinga og einstakt valmenni. Um hann má lesa í ævisögum Sigurðar Thoroddsen og Ingólfs á Hellu og er hrós Ingólfs ekki litað pólitík því þar voru þeir ekki samherjar. Eftir að þau giftust helgaði Sigríður sig heimilinu og á næstu sjö árum eignuðust þau þrjú börn: Ásmund, Aðalbjörgu og Steinunni Sigríði. Í kringum 1950 fluttust þau í Barmahlíð 22 sem varð heimili Jakobs til æviloka, en hann lést 9. mars 1987. Í húsi þessu voru fjórar íbúðir og þrjár þeirra í eigu barna Theodóru og Skúla Thoroddsen. Allt var þetta úrvals fólk og þar stundað "fagurt mannlíf" svo vitnað sé til sr. Árna Þórarinssonar. Á hæðinni fyrir ofan bjó Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, aldavinur Jakobs.
Sigurður var áhugamaður um garðrækt en Sigríður hafði hálfgert samviskubit yfir að hann hugsaði mest um garðinn. Vildi hún eitt sinn bæta úr þessu og taka til hendi í garðinum. Var hún undrandi á að rekast þar á fullt af elftingu sem hún reytti samviskusamlega burt og fleygði í ruslið. Þegar Sigurður kom næst í garðinn saknaði hann margra furuplantna sem hann hafði gróðursett af mikilli natni. Málið upplýstist og eftir fyrsta áfallið sáu þau bæði húmorinn og veltust um af hlátri. Það varð samt að samkomulagi að Sigurður sæi um alla verkstjórn við garðyrkjuframkvæmdir þaðan í frá.
Starf húsmóðurinnar er stundum vanmetið og sagt um konu að hún sé "bara húsmóðir". Jakob Gíslason vissi áreiðanlega vel að hann hefði ekki afrekað því sem hann gerði hefði heimilið ekki verið sá griðastaður sem það var. Ekki heldur víst að börnin og síðan barnabörnin hefðu orðið slíkt afbragðsfólk sem þau eru hefði hún ekki alltaf verið til taks reiðubúin til að hugga og hjálpa.
Sigríður systir mín var mikil gæfukona. Um fertugt veiktist hún lífshættulega, en náði sér að fullu. Þau veikindi kenndu henni samt margt. Þegar heilsu hennar fór alvarlega að hraka upp úr áttræðu vissi hún vel að skurðaðgerðir gætu verið mjög varasamar, ekki síst öldruðu fólki. Engu að síður fór hún í tvær slíkar þegar málið snerist um að halda fætinum. Hún vissi vel að kallið mikla gat komið hvenær sem var og fyrirvaralaust en tók því af mikilli stillingu og æðruleysi. Hún lifði lífinu fram á seinustu stund, bjó ein heima hjá sér og sá um sig sjálf með dyggri aðstoð sinna nánustu. Hún eldaði jólagrautinn og dó þegar hún var að klæða sig í sparifötin til að fagna jólunum með fjölskyldu sinni. Ég og mitt fólk þökkum henni samfylgdina og óbilandi örlæti og ástúð alla tíð. Megi hið eilífa ljós lýsa henni.
Tryggvi Ásmundsson.
Mér varð því tíðförult á heimili tengdaforeldra minna til fundar við tilvonandi eiginkonu og ekki alltaf á hefðbundnum heimsóknartíma. Hvernig sem á stóð sýndi Sigríður mér þá hlýju, vinsemd og umburðarlyndi sem fylgdu öllum samskiptum hennar við þennan tengdason sinn frá upphafi til dauðadags. Í Sigríði átti hann alla tíð stuðningsmann til allra góðra hluta sem hikaði ekki við að taka málstað hans jafnvel og þrátt fyrir á stundum réttmæta gagnrýni dóttur hennar á hann.
Frá þessum fyrstu árum með tengdamóður minni og fjölskyldu hennar er með öðru minnisstætt aðfangadagskvöld á Laufásveginum, heimili foreldra Sigríðar. Í kringum matarborðið sat fjölmenn fjölskyldan, tengdafólk og vinir en í öndvegi móðir Sigríðar, Steinunn Magnúsdóttir biskupsfrú, ekkja Ásmundar heitins Guðmundssonar biskups sem þá var látinn og ég átti því miður ekki kost á að kynnast.
Af björtum og hreinum andlitssvip Steinunnar og öðru yfirbragði sem og innræti stafaði einstök hlýja. Þessa eiginleika hafa Sigríður tengdamóðir mín og systkini hennar tekið í arf frá foreldrum sínum og þeirra höfum við fjölskyldan, vinir og samferðamenn þeirra fengið að njóta í ríkum mæli.
Sigríður var bæði félagslynd og fjölskyldurækin og á heimili hennar voru allir velkomnir eins og hún sjálf hafði alist upp við í foreldrahúsum enda oft gestkvæmt. Fastur punktur í tilveru okkar um áratuga skeið voru jólaboðin hennar annan dag jóla sem ekkert fékk hnikað fyrr en undir það síðasta.
Sigríður var fróðleiksfús og forvitin, listelsk og naut þess að ferðast um ótroðnar slóðir. Hún hafði yndi af útivist og ekki er grunlaust um að hún hafi komið eiginmanni sínum og tengdaföður mínum svo snemma á bragðið að flestir standa í þeirri trú að svo hafi alltaf verið hvað hann varðaði. Sigríður gerði líka heiðarlega tilraun til að ala upp með undirrituðum tengdasyni sínum áhuga í þessa veru en án umtalsverðs árangurs.
Sigríður hélt mikilli reisn sinni til síðasta dags, kraftmikil, ákveðin og fylgin sér. Undir það síðasta var nokkuð líkamlega af henni dregið en á andann skorti ekki neitt og hafði hún sem ávallt áður skoðanir á mönnum og málefnum en ævinlega af þeirri mildi og víðsýni sem henni var í blóð borin.
Að leiðarlokum kveð ég Sigríði Ásmundsdóttur tengdamóður mína með þakklæti og söknuði.
Hallgrímur B. Geirsson.
Á unglingsárunum missti ég svolítið samband við ömmu og alltaf þegar ég kom sagði sú gamla: ,,Mikið hefur breyst, ég mundi varla þekkja þig úti á götu." Ég er því alveg ótrúlega þakklát henni fyrir að koma með þá sniðugu hugmynd fyrir rúmum þremur árum að ráða mig í vinnu þar sem ég kæmi vikulega að taka til og fara með henni í menninguna. Þá náðum við aftur vel saman og þegar ég horfi á eftir henni þá verða þessar stundir okkar ómetanlegar. Amma var ákveðin og hafði skoðanir á flestöllum málefnum líðandi stundar og þreyttist aldrei á því að deila þeim með mér og öðrum sem vildu hlusta.
Ég á eftir að sakna ömmu minnar, en ég get alltaf yljað mér við minningar um hana og þakklæti fyrir að hafa kynnst henni. Hún verður alltaf hjá mér í minningunni.
Sigríður Soffía Sigurjónsdóttir.
Hvíl í friði, Sigga mín.
Þín
Þorbjörg (Badda).
Kært við þökkum fjölmargar samverustundir sem allar voru bæði góðar og of stuttar og tengdu hin margvíslegu ættarbönd á ómetanlegan hátt. Þar stóðu þær svilkonurnar Sigríður og Lise, kona Ólafs Gíslasonar, að mörgum góðum gerðum ásamt henni Guðrúnu, yngsta barninu í bræðragarðinum á Eyrarbakka. Þær hafa átt mikilvægasta og stærsta þáttinn í samheldni okkar, afkomendanna.
Á róti hugans skoppar léttur bátur með óminn af elskulegri persónu með bjarta sýn á lífið og tilveruna og næmt auga fyrir því sem gladdi aðra svo að jafnvel óvæntustu mót við hana urðu okkur veislur.
Ásmundur, Aðalbjörg og Steinunn, Hallgrímur og Erna Sigríður, Sverrir og Sigríður Soffía. Jakob Jakobsson og fjölskylda í Skotlandi og fjölskylda Gísla Jakobssonar í Danmörku. Guðrún Gísladóttir, móðir mín, og við systkinin og okkar fjölskyldur sendum ykkur og einnig systkinum Sigríðar og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur um leið og við lítum með þakklæti yfir farinn veg.
Gísli Ólafur Pétursson og Ragna Freyja Karlsdóttir.
Sigga hafði einstaklega létta lund og öll hennar framkoma var í senn elskuleg og áreynslulaus. Það leið öllum vel í návist hennar. Hún átti jafnframt afar auðvelt með að ræða málin enda hafði hún frá mörgu að segja, var vel lesin, hafði ferðast víða og ekki spillti fyrir að hún hafði gott skopskyn.
Allir sem þekktu Sigríði munu sakna hennar og minnast með hlýju. Blessuð sé minning hennar.
Sigrún, Egill og Ásmundur.
Þegar ég hugsa um hana Sigríði kemur fyrst í huga minn mynd af henni í eldhúsinu í Barmahlíð syngjandi með útvarpinu. Stóísk ró, góðvild og glaðlyndi er það sem einkennir Sigríði í huga mér. Við Steina yngsta dóttir þeirra Jakobs bundumst órjúfanlegum vináttuböndum sem smástelpur og varð þá heimili þeirra mitt annað heimili og Sigríði kallaði ég "mömmu" á meðan því ég bjó þar oft þegar mamma brá sér af bæ. Sunnudagsbíltúrarnir með fjölskyldunni eru ógleymanlegir, þá voru klifin fjöll og gengnar fjörur, farið á skíði, byggð snjóhús og borðað nesti; kakóið góða og brauð með osti. Oft var fólk inni á heimilinu lengri eða skemmri tíma, ungir jafnt sem aldnir og undraðist ég oft hversu áreynslulaust og eðlilegt það var allri fjölskyldunni.
Ég er afar þakklát guði mínum fyrir að hafa leitt mig á vit Sigríðar og kveð hana með virðingu.
Guðrún Cortes.