MANNLEG og tæknileg mistök ollu því að sjúkraflugvél var 25 mínútum lengur að leggja af stað á nýársnótt en reglur kveða á um. Ennfremur virðast mistök hafa valdið því að engin sjúkraflugvél var staðsett á Ísafirði þessa nótt og því þurfti að kalla eftir flugvél frá Akureyri.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær slasaðist ungur maður á Tálknafirði skömmu eftir miðnætti á nýársnótt þegar hann fékk flugeld í augað. Lögreglan á Patreksfirði bað um að sjúkraflugvél yrði sett í viðbragðsstöðu kl. 00:20 og tuttugu mínútum síðar var óskað eftir að hún næði í sjúklinginn. Vélin fór þó ekki í loftið fyrr en um kl. 3:00.
Reglur um sjúkraflug gera ráð fyrir að það eigi ekki að líða meira en 45 mínútur frá því að beiðni berst þar til flugvél er komin á loft, en í þessu tilviki virðist hafa tekið 73 mínútur að gera allt klárt.
Erling Þór Júlínusson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir að sjúkraflutningamaður og læknir hafi verið mættir út á flugvöll á eðlilegum tíma. Það sé hins vegar flugfélagsins að skýra tafirnar.
Friðrik Adólfsson, rekstrarstjóri hjá Flugfélagi Íslands, segir að mannleg og tæknileg mistök hafi valdið þessum töfum. Það hafi komið upp tæknilegt vandamál sem hafi valdið töfum en eins hafi verið gerð mannleg mistök þegar gengið var frá flugplani. Flugvélin kom við á Bíldudal til að taka eldsneyti í stað þess að taka eldsneyti í Reykjavík. Friðrik segir að flugmaðurinn hafi tekið ákvörðun um þetta í samráði við lækni sem var með í för.
Engin vél á Ísafirði
Ingþór Guðjónsson, lögreglumaður á Patreksfirði, segist vera óánægður með hversu langan tíma sjúkraflugið tók, en einnig þyrftu að fást skýringar á því hvers vegna engin sjúkraflugvél hefði verið á Ísafirði eins og reglur kveði á um.Landsflug hefur séð um sjúkraflug á Vestfjörðum samkvæmt sérstökum samningi við heilbrigðisráðuneytið. Samningurinn rann hins vegar út um áramót. Ingþór segir að sjúkraflugvél frá Landsflugi hafi farið frá Ísafirði um hádegisbil á gamlársdag. Mýflug tók við sjúkrafluginu um áramót, en engin vél kom þangað fyrr en á nýársdag.
Mýflug ætlar að sinna fluginu með sérhæfðri sjúkraflugvél, en hún er ekki komin til landsins. Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, segir að vélin verði ekki komin til landsins fyrr en í mars/apríl og félagið hafi því samið við Flugfélag Íslands um að sinna sjúkrafluginu á meðan. Flugfélagið hafi því séð um flugið á nýársnótt og muni tryggja að vél sé til taks á Ísafirði. Fyrr um kvöldið fór Flugfélagið í sjúkraflug til Vopnafjarðar, en þá tók 35 mínútur að koma vélinni í loftið frá Akureyrarflugvelli frá því að beiðni barst.