Magnús H. Sigurðsson
Magnús H. Sigurðsson
ÞAÐ VERÐ sem Mjólka ehf. hefur boðið bændum fyrir afurðir sínar er ekki 11% hærra en verð Mjólkursamsölunnar, heldur 4,5% hærra og þegar horft er til úrvalsframleiðenda er MS með 2% hærra verð, að því er fram kemur í bréfi sem Magnús H.

ÞAÐ VERÐ sem Mjólka ehf. hefur boðið bændum fyrir afurðir sínar er ekki 11% hærra en verð Mjólkursamsölunnar, heldur 4,5% hærra og þegar horft er til úrvalsframleiðenda er MS með 2% hærra verð, að því er fram kemur í bréfi sem Magnús H. Sigurðsson, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, sendi til félagsmanna 20. desember síðastliðinn.

Í bréfinu er rætt um stöðu mjólkuriðnaðarins, opinbera verðlagningu og styrki auk þess sem gerður er samanburður á verði MS og Mjólku til bænda.

Betra verð á úrvalsmjólk

Í bréfi stjórnarformannsins kemur fram að meðalmjólkurverð á öllu svæði MS í nóvember síðastliðnum hafi verið 44,60 krónur en 46,43 krónur fyrir úrvalsmjólk, þ.e. mjólk sem er með yfir 3,51% próteininnihald.

Þá fá allir bændur sem versla við MS svonefnt hvatningarálag, að því er fram kemur í bréfinu og nemur það 1,70 krónur á lítrann. Þar ofan á bætist álag fyrir úrvalsmjólk, sem er 0,39 krónur fyrir venjulega mjólk og 1 króna fyrir lítrann af úrvalsmjólk. Niðurstaðan er því sú að verð MS fyrir venjulega mjólk er 46,69 krónur og 49,13 krónur fyrir úrvalsmjólk, sem er hærra en Mjólka býður. Þá sé ótalin sú þjónusta sem MS veiti félagsmönnum sínum, t.d. með kvóta- og tankalánum, neyðarþjónustu og heimsóknum mjólkureftirlitsmanna.

Nýir aðilar "fleyta rjómann"

Í bréfinu er einnig rætt um samkeppnisstöðu í mjólkuriðnaði og áhrif opinberrar verðlagningar. Þar segir að opinber verðlagning hafi skekkt verðlagningu á markaðnum á þann hátt að verði á grunnvörum á borð við drykkjarmjólk og fasta osta hafi verið haldið niðri og framleiðsla þeirra skilað litlum sem engum hagnaði. Nýlega hafi verið ákveðið að hækka mjólkurvörur um 1,4-2,5% frá og með áramótum og það sé fyrsta verðhækkun afurðastöðva frá 1. janúar 2003. Nýjar vörur og afurðir hafi hins vegar verið verðlagðar nokkuð hátt.

"Það mætti líka orða þetta á þann hátt að vinnsluvörurnar séu að borga með grunnvörunum," segir í bréfinu.

"Þetta fyrirkomulag hefur leitt til ákveðinnar slagsíðu sem gerir það að verkum að mjög auðvelt er fyrir nýja aðila, sem vel þekkja til á markaðnum, að koma inn á hann og fleyta rjómann ofan af í orðsins fyllstu merkingu. Nýi aðilinn velur sér þannig framlegðarbestu vörurnar á meðan að við sitjum uppi með grunnvörurnar sem seljast í miklu magni og skila lítilli sem engri framlegð. Þetta er ekki góð staða."

Mjólka nýtur opinberra styrkja

Í bréfinu segir að mikil samstaða hafi ríkt á Alþingi þegar núverandi búvörulög hafi verið samþykkt fyrr á árinu.

"Góð pólitísk samstaða ríkti því um að viðhalda núverandi styrkjakerfi og aðlaga það breyttum aðstæðum í framtíðinni.

Forsvarsmenn Mjólku halda því fram að þeir njóti engra opinberra styrkja. Þetta er rangt. Einn framleiðandi með greiðslumark hefur sagt sig úr viðskiptum við MS og færði viðskipti sín yfir til Mjólku. Þar með er Mjólka ótvírætt orðin afurðastöð samkvæmt skilgreiningu búvörulaganna og því í nákvæmlega sömu aðstöðu og MS," segir í bréfinu.

Enn fremur kemur fram að ekki sé ólíklegt að breytingar verði gerðar á þeirri umgjörð sem mjólkurbændur vinni eftir.

"Þangað til þær breytingar verða gerðar af löglega kosnum fulltrúum hljótum við að krefjast þess að allir standir jafnir frammi fyrir lögunum."