HLJÓMSVEITIRNAR Mínus, Bang Gang, Hjálmar, Brain Police, Dr. Spock, Hairdoctor og Beatmakin Troopa koma fram á tónleikum í Laugardalshöll, föstudaginn 6. janúar (þrettándanum) í tilefni af því að Toyota á Íslandi hefur hafið sölu á nýja smábílnum Aygo.
Strákarnir í Mínus hafa látið lítið fyrir sér fara undanfarið og ekki komið opinberlega fram síðan í júlí á síðasta ári. Ráðgert hafði verið að Mínus kæmi fram á Iceland Airwaves síðasta haust en úr því varð þó ekki.
Langt er liðið síðan Bang Gang hefur komið fram opinberlega hér á landi ef frá eru taldir 70 manna tónleikar í Stúdentakjallaranum á dögunum og enn lengri bið mun verða þar til sveitin stígur næst á svið þar sem Barði Jóhannsson er á leið úr landi til að taka upp næstu plötu.
Hjálmar eru flestum að góðu kunnir en nú er kærkomið tækifæri fyrir yngri aldurshópa að upplifa sveitina á tónleikum því ekkert aldurstakmark er á þessa tónleika.
Brain Police er nýkomin úr tónleikaferðalagi til Þýskalands þar sem sveitin gerði stormandi lukku og spilaði hvað eftir annað fyrir fullu húsi við mikinn fögnuð og hlaut rífandi dóma áhorfenda jafnt sem þýsku pressunnar.
Hairdoctor hefur fengið góðar móttökur við sinni fyrstu skífu og mikil eftirvænting ríkir eftir því að sjá þessa ungu sveina spila í fyrsta sinn á alvöru tónleikum.
Dr. Spock spilar gríðarlega kraftmikið rokk en sveitin gaf út sína fyrstu skífu nú í sumar. Sveitin hefur fengið afar góða dóma og þá ekki síst fyrir sviðsframkomu svo óhætt er að lofa eftirminnilegu innleggi þessarar sveitar.
Beatmakin Troopa gaf út plötuna Peaceful Thinking á síðasta ári auk þess sem hann kom fram á Iceland Airwaves.
Ekkert aldurstakmark er á tónleikana og aðgangur er ókeypis en miðar eru afhentir í Aygo-hjólhýsinu á Lækjartorgi milli kl. 16 og 20 alla daga fram að tónleikum Einnig er hægt að nálgast miða í söludeildum og hjá umboðsaðilum Toyota um land allt.