Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti heldur námskeið í heilsusamlegri matreiðslu ásamt manni sínum Oscar Umahro Cadogan. Einnig eru þau að byrja með sjónvarpsþætti um heilsu og lífsstíl sem nú er verið að taka upp.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti heldur námskeið í heilsusamlegri matreiðslu ásamt manni sínum Oscar Umahro Cadogan. Einnig eru þau að byrja með sjónvarpsþætti um heilsu og lífsstíl sem nú er verið að taka upp. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru blessuð jólin liðin og nýtt ár hafið. Nýtt ár þýðir áramótaheit. Nú á að taka sig aldeilis á og breyta því sem hefur nagað samviskuna, segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti. Öll eigum við okkar púka með misjafnlega beittar tennur.

Nú eru blessuð jólin liðin og nýtt ár hafið. Nýtt ár þýðir áramótaheit. Nú á að taka sig aldeilis á og breyta því sem hefur nagað samviskuna, segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti. Öll eigum við okkar púka með misjafnlega beittar tennur. Tökum minn púka til dæmis. Hann heitir "ruslapúki". Ekki það að það sé allt í rusli heima hjá mér. Ég er með hæfilega virk húsmóður- og tiltektargen og ef það lítur út fyrir að vera einhverju ofaukið, til dæmis á skrifborðinu mínu, er það ekki óreiða heldur skipulögð óreiða. Það er mikill munur hér á. En fyrst ég fór að minnast á skrifborð er ég að nálgast ruslapúkann minn því hann á heima á skrifborðinu ... í tölvunni minni. Ég eyði að meðaltali þremur klst. fyrir framan tölvuna á sólarhring. Allt er fullt af skjölum og möppum, myndum og úrklippum. Póstkassinn minn er fullur af bréfum; 4.500 talsins. Þau elstu eru frá 2003. Þetta gengur alls ekki. Nú er þörf á tiltekt og skipulagningu. Minn elskulegi heitmaður er algjör andstæða. Mac-inn hans er pínlega vel skipulagður. Hins vegar er honum alveg sama hvernig lítur út í kringum hann. Áramótaheitið mitt er því að koma á röð og reglu í tölvunni minni. Þarna þarf ég að virkja sjálfsagagenið.

Sykurpúkinn Margir kannast við aga eða agaleysi þegar á við (of)át og matarvenjur. Algengustu áramótaheitin tengjast einmitt mat eða öllu heldur því að grenna sig. Enda frekar skynsamlegt heit. Ný dönsk rannsókn sýnir að sjöundi hver Dani glímir við offitu. Hann er ekki bara of feitur, heldur glímir við offitu. Íslendingar og Danir borða nokkurn veginn það sama og það sem ber saman er allt of mikil sykurneysla og allt of lítil hreyfing. Hvað er þetta með þennan sykurpúka? Af hverju er þetta svona mikið mál að minnka eða hætta sykurneyslu alveg og henda sykurpúkanum út fyrir fullt og allt? Og af hverju eru matvælaframleiðendur að fylla vörur sínar með sykri og efnum sem sæta, þegar allir vita eða ættu að vita, að sykur er hættulegur? Hann gerir okkur feit, þreytt og löt og kostar þjóðfélagið gífurlega fjárhæðir vegna meðhöndlunar á sjúkdómum sem rekja má til ofneyslu sykurs og sterkju, aðallega frá hvítu hveiti. Hér er ég að tala um aukningu svokallaðra velmegunarsjúkdóma, eins og offitu, áunninnar sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, hás kólesteróls, hás blóðþrýstings, og bólgusjúkdóma, til dæmis gigt og alzheimer.

Viðbættur sykur í mat, ruslfæði, sælgæti og gosi hefur áhrif á blóðsykur sem hækkar. Það sama gerir sterkja, sem er m.a. afhýtt korn, og breytist mjög fljótt í sykur í líkamanum. Sykur og sterkja, til dæmis hvítt hveiti, hvítt spelt og hvít hrísgrjón, kalla á hormónið insúlín sem hjálpar til við að flytja sykur úr blóði, inn í m.a. vöðvafrumur þar sem hann er nýttur sem orka. Það er þessi orka sem við notum til að hreyfa vöðvana, sem fær hjartað til að slá, lifrina til að afeitra, og sem hjálpar okkur að vera í jafnvægi.

Þetta fína ferli getur hins vegar farið úr skorðum. Sykur- og sterkjuáti oft á dag fylgir framleiðsla á insúlíni. Hátt insúlínhlutfall hamlar flutningi á sykri inn í vöðvafrumur, sem ekki er æskilegt. Þar með vantar okkur orkugjafann og magnleysi og þreyta gerir vart við sig, bæði líkamlega og andlega.

Fitupúkinn Í staðinn fer sykurinn inn í fitufrumur og breytist þar í fitu. Maður fitnar; um búkinn, brjóstið, mjaðmir og mitti. Ný rannsókn sýnir að enskar konur eru ekki lengur með mitti. Þær eru nú flestar orðnar í laginu eins og karlar, það er mittislausar og beinar niður; með fyllingu í því sem áður kallaðist mitti. Fyllingin er fita sem einu sinni var sykur. Fitupúkinn fer í búkinn. Berjumst fyrir endurreisn mittisins, ekki karlanna vegna, heldur sjálfra okkar. Í öllum þessum fitufrumum liggur umtalsverð áhætta á sjúkdómum velmegunar.

Bólgupúkinn Ert þú ein/n af þeim sem ert með liðverki? Kannski liðagigt, slitgigt eða vefjagigt? Kannski með vöðvabólgu eða verki í hnjánum eða svo mikil eymsli í lærunum að það er næstum kvöl og pína að vera í nuddi? Ástæðan er bólga og bólga getur verið út um allt í líkamanum, ekki bara liðum og vöðvum, en í bandvef, festum, utan á æðum, í húð og í slímhúð, bæði í öndunarfærum og meltingarfærum. Hvernig verður öll þessi bólga til, spyrð þú kannski. Er hugsanlega eitthvað sem ég er að borða sem hefur áhrif á bólgumyndun? Þú getur treyst því að svo er, er mitt svar. Og fitupúkinn hefur heilmikið að segja um það mál. Fitufrumur eru frumur sem ekki gegna sérstöku hlutverki. Þær innihalda enga hvatbera og framleiða ekki nein gagnleg efni fyrir líkamsstarfsemina. Hins vegar framleiða þær bólguvísa, til dæmis TNF-alpha, og það sem nærir fitupúkann er sykur.

Annað sem framkallar TNF-alpha eru ónæmisviðbrögð gegn sýkingum í t.d. meltingarfærum og gegn vissum próteinum í fæðunni, oftast glúteni úr korni og kaseini úr mjólkurafurðum. Þannig að vissulega er samhengi á milli bólgumyndunar og þess sem við setjum ofan í okkur. Og vissulega er samhengi á milli ofþyngdar og offitu og bólgumyndunar.

Þeir sem vilja draga úr sykurneyslu byrja á því að lesa innihaldslýsingar á matvöru; sykur, síróp, maíssíróp, dexstrósi, maíssterkja, umbreytt maíssterkja, hveitisterkja. Forðist alveg. Til þess að koma púkum þessum fyrir kattarnef þarf ekki bara einn kött heldur marga.

Byrjum á áramótahreingerningu

Þessi hreinsun hentar vel fullorðnum, heilbrigðum einstaklingum sem eru með ólag á meltingunni og eins ef allt er uppfullt og stopp. Hið sama gildir ef búið að er "sukka" í óhollustu og nauðsyn að hreinsa til á bænum. Blandan er ekki sú unaðslegasta sem til er, en afar áhrifarík. Drekkið á fastandi maga, í 1-3 daga, eftir aðstæðum. Ekki er mælt með þessari hreinsun fyrir börn eða þá sem eru með króníska þarmasjúkdóma, nema í samráði við lækni eða annan hæfan meðferðaraðila.

Hreinsun

2 dl volgt vatn

4 tsk Epsom salt (Maður lifandi)

2 msk kaldhreinsuð ólífuolía, til dæmis La Selva

2 msk sítrónusafi.

Öllu er hrært vel saman.

Halda fyrir nefið, signa sig og skella í sig :o)

Stórt glas af vatni með sítrónusafa drukkið á eftir. Gott að fá sér gúrkubita á eftir til að fríska upp í munninum. Þessi drykkur framkallar þarmahreinsun.

Á meðan á hreinsun stendur er ráðlegt að nærast eingöngu á grænmeti (kartöflur ekki meðtaldar) og grænmetissafa. Athugaðu hvað er í boði í þinni heilsuverslun; blandaðir grænmetissafar, gulrótarsafar, spirulínasafar o.s.frv. Gott er að taka 1 msk. af t.d. Greens Phyto Food í stóru glas af vatni til að tryggja betri hreinsun. Drekka líka grænt te, t.d. Original Green Tea Powder 65, og Detox te (afeitrunarte). Og 2-3 l af vatni daglega.

Eftir hreinsun er ráðlegt að halda áfram að hreinsa þarma og byggja upp.

Gerlar, t.d. Acidophilus 8 frá NOW, 1 hylki fyrir morgunmat og fyrir svefn í 1-2 mánuði.

Garcin-hvítlaukshylki; 2 hylki x 3 daglega í 14 daga og svo 1 hylki x 2 daglega í 14 daga og svo 1 hylki daglega. Halda áfram með Greens á morgnana og blanda í 2 msk. af kaldhreinsaðri hörfræolíu, til dæmis frá Himneskri hollustu sem mér finnst besta hörfræolía í heimi. Eða bara taka hana inn hreina.

Taka inn fjölvítamín/steinefni t.d. Eco Green frá NOW eða Puritan Pride.

Næst á dagskrá er að tæma fitupúkana. Við erum þegar byrjuð, með því að minnka eða hætta alveg á sykri og sterkju, sem getur skapað vandræði. Fráhvarf og löngunin í sykur og sæta millibita og franskbrauð getur verið svo sterk að því er erfitt að stjórna. PGX™ er "hannað" trefjaefni, sem eftir 15 ára rannsóknir er fáanlegt á íslenskum markaði, fyrst allra landa í Evrópu. PGX™ samanstendur af þremur vatnsuppleysanlegum trefjum, sem er blandað saman í sérstökum hlutföllum sem gerir þær sérlega vatnsuppleysanlegar. PGX™ tekur upp eigin þyngd í vatni 600-falda og er alveg stöðugt i maga og þörmum. PGX™ myndar þannig þykkt gel, sem gefur mettunartilfinningu og kemur i veg fyrir ofát og stöðuga löngun í millibita.

Líkaminn getur ekki byggt sig upp nema með góðu og hollu og skynsömu mataræði. 10 grunnreglur™ eru góð byrjun. Tíu grunnreglur eru einfaldar og óhátíðlegar reglur sem flestir geta fylgt:

1. Ekki neyta sykurs, hvorki sýnilegs, ósýnilegs né gervisykurs.

2. Borðaðu bara heilkorn og ekki meira hvítt.

3. Ekki forðast fitu - borðaðu rétta fitu, holla og lífræna.

4. Mundu að borða meira gæðaprótein.

5. Borðaðu belgávexti (baunir, linsur og kjúklingabaunir) og hnetur á hverjum degi.

6. Borðaðu lífrænt ræktað grænmeti og ávexti oft á dag - minnst 600 g.

7. Drekktu 1½ l af vatni daglega og ferskpressaða grænmetis- og ávaxtasafa, grænt te og jurtate.

8. Borðaðu reglulega. Ekki sleppa morgunmat og borðaðu fleiri og minni máltíðir.

9. Borðaðu jafnt úr öllum fæðuflokkum (prótein, holla fitu og heilkorn eða belgávexti) og lífrænt.

10. Taktu inn fæðubótarefni - a.m.k. eina sterka fjölvítamín, helst meira.