GANGAMUNNI nýju aðkomuganganna inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar verður rétt neðan við Desjarárstíflu. Þaðan verður, að sögn Sigurðar Arnalds, talsmanns Landsvirkjunar, hægt að bora og sprengja aðrennslisgöngin í báðar áttir, þ.e.

GANGAMUNNI nýju aðkomuganganna inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar verður rétt neðan við Desjarárstíflu. Þaðan verður, að sögn Sigurðar Arnalds, talsmanns Landsvirkjunar, hægt að bora og sprengja aðrennslisgöngin í báðar áttir, þ.e. í austur og vestur og klára þar með þann ellefu hundruð metra kafla, sem skilinn var eftir að Hálslóni, þegar bor þrjú var stöðvaður og snúið við í sumar.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur verið ákveðið að gera ný aðgöng, þau fjórðu, inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar til að vinna upp tafir við gerð ganganna. Aðrennslisgöngin eru um það bil tveimur til fjórum mánuðum á eftir áætlun, að sögn Sigurðar.

"Bor þrjú var snúið við fyrr en ella þar sem síðasti kaflinn var erfiður vegna vatnsaga," útskýrir Sigurður. Talið var að auðveldara yrði að vinna síðasta kaflann með hefðbundnum sprengingum, eða með því að bora og sprengja. "Þegar búið er að sprengja er stefnt að því að heilfóðra vestasta hluta þess kafla sem eftir er," segir hann ennfremur, en bergið er lekt á þessum kafla, eins og áður kom fram. "Allt þetta tekur tíma og því munu aðgöng fjögur koma að gagni."

Sigurður segir að hægt hefði verið að sprengja og bora umrædda ellefu hundruð metra frá inntakinu, við Hálslón. "En það er nokkuð önugt því þar er verið að vinna að lokuhúsi. Vinnsla við göngin hefði truflað þá vinnu. Hinn möguleikinn var að fara inn í gegnum aðgöng þrjú, en þaðan er langt að fara. Auk þess hefði það truflað vinnu við bor þrjú." Af þessum og fleiri ástæðum var því ákveðið að ráðast í ný aðgöng, að sögn Sigurðar. Fyrirtækið Arnarfell ehf. á Akureyri var fengið til að gera göngin, en fyrirtækið Impregilo mun, eftir sem áður, sjá um gerð aðrennslisganganna.

Á að auðvelda aðkomu á rekstrartímanum

Áætlað er að hefja söfnun vatns í Hálslón í byrjun september nk. Á vef Kárahnjúkavirkjunar segir m.a. að aðgöng 4 skapi betri aðstöðu til steypuvinnu og annars frágangs í göngunum neðan við inntakslokurnar eða allt þar til lokum verður lyft til að hleypa vatni í göngin snemma á árinu 2007.

"Við hönnun á aðrennslisgöngunum er gert ráð fyrir því að einhvern tíma á rekstrartímanum þurfi að fara inn í göngin til skoðunar og hugsanlegs viðhalds. Aðgöng 4 auðvelda aðkomu í efsta hluta ganganna. Aðgöng 3 verða þá útbúin sem tæmingargöng eingöngu en ekki jafnframt aðkomugöng en af því hlýst tæknileg einföldun og fjárhagslegt hagræði," segir ennfremur á vefnum karahnjukar.is.