Að slaka á í heitum náttúrulegum lindum er sterkur þáttur íslenskrar menningar og sögu. Bláa lónið - heilsulind er ein þekktasta lind landsins og njóta spa-meðferðir og nudd aukinna vinsælda meðal gesta, segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins hf. "Upplifunin er einstök og lýsingar gesta eru oft á þann veg að fólki finnst sem það líði um í þyngdarleysi á meðan meðferðin fer fram," segir hún.
Slökunarnudd er ein vinsælasta meðferðin að hennar sögn. "Gestir geta valið um 10-50 mínútna nuddtíma í djúpu slakandi nuddi, þar sem nuddað er upp úr Blue Lagoon-nuddolíu sem inniheldur valdar ilmkjarnaolíur og steinefni til þess að styrkja húðina. Hvítur kísill er eitt af mest einkennandi efnum lónsins, en kísillinn hreinsar og endurnýjar ysta lag húðarinnar og gefur henni fallega áferð. Í boði er heilnudd ásamt frískandi kísilnuddi fyrir fætur. Kísilnudd fyrir bak er einnig í boði og hentar vel fyrir þá sem vilja draga úr streitu og bólgum í baki. Kísillinn hreinsar og endurnýjar húðina og hentar nuddið því vel fyrir bóluhúð," segir Magnea.
Baráttan við appelsínuhúð
Margar konur eiga í baráttu við hina svokölluðu appelsínuhúð og er hægt að sækja sér styrkjandi og fegrandi meðferð við henni. Eins og aðrar meðferðir Bláa lónsins fer hún fram ofan í lóninu. Meðferðin felst í nuddi með kísil og styrkjandi olíu auk þess sem gestir eru settir í styrkjandi og nærandi kísilvafning. Magnea segir meðferðina hafa borið góðan árangur. "Húðin verður sléttari og yfirbragð hennar fallegra eftir eitt skipti en flestir kjósa að stunda meðferðina í nokkur skipti og ná þannig betri árangri," segir hún.
Nærandi áhrif grænþörungs
Þörungur Bláa lónsins hefur nærandi áhrif á húðina. Í boði er meðferð sem felst í því að líkaminn er nuddaður með hreinum steinefnaríkum söltum. Eftir það eru gestir settir í nærandi þörungavafning. Meðferðin eykur blóðflæðið til húðarinnar og veitir henni fallegt yfirbragð. Meðferðin er einstaklega nærandi og hefur góð áhrif á húðina, segir Magnea. "Þörungurinn sem notaður er í meðferðinni er eitt af virkum efnum jarðsjávarins. Hann finnst hvergi annars staðar í heiminum og fólk getur notið áhrifa hans í lóninu og með notkun Blue Lagoon-vara sem innihalda þörunginn. Heimsókn í Bláa lónið - heilsulind er tilvalin leið til að fanga hreina íslenska orku sem nýtist okkur í dagsins önn," segir Magnea Guðmundsdóttir að síðustu.